16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (2997)

133. mál, framfærslulög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég skal ekki lengja umr. En það er ein brtt., sem ég vildi minnast á lítillega, smávægileg að vísu. Það er brtt. á þskj. 789 við 22. gr. frv. Í 22. gr. segir, að viðkomandi valdsmaður skuli úrskurða um meðlag með börnum ekkna, þegar svo stendur í sem þar er fram talið. Og síðar í gr. segir, að valdsmaðurinn skuli leita álits framfærslunefndar eða hreppsnefndar, þar sem ekkjan á heima, áður en hann kveður upp úrskurð sinn. Við þetta vilja nú þeir hv. þm. Barð., hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. landsk. bæta orðunum „eða annara kunnugra“ (sbr. brtt. á þskj. 789). Annað hvort á hann að leita til hreppsn. eða framfærslun. á staðnum og fá þeirra álit eða þá annara kunnugra. Mér finnst, að hann ætti alltaf að vera skyldur að leita álits hreppsn., en ef upplýsingar hennar reynast ekki fullnægjandi, er sjálfsagt, að leitað sé álits annara kunnugra. Þess vegna ber ég fram þá brtt., að í stað orðanna „eða annara kunnugra“ komi „og annara kunnugra, telji hann þess þörf“. Eftir því verður alltaf að leita til hreppsn. Getur hann með þessu móti fengið þær upplýsingar, sem hann þarfnast, en hann getur þó aldrei gengið fram hjá hreppsn.