16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (3001)

133. mál, framfærslulög

Emil Jónsson:

Ég ætla ekki að tala langt mál, það hafa margir aðrir gert, sem talað hafa á undan mér. Ég vildi aðeins segja nokkur orð um eitt atriði í brtt. á þskj. 748 frá þeim hv. þm. Barð. og hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. landsk. Gera þeir þar ráð fyrir, að mötuneyti, sem framfærslunefnd eða hreppsnefnd starfrækir fyrir almenning, sé heimilt að ákveða, að framfærsluþurfar taki mat sinn þar. Þetta tel ég bundið of einhliða. Ef út í slíka starfrækslu er farið ætti ekki að binda það of einhliða í öndverðu. Ég er á sömu skoðun og hv. þm. V.-Húnv., að erfitt sé að takmarka fátækraframfærið, þó að vel megi vera, að hægt sé að takmarka það að einhverju leyti. Ég hefi sjálfur staðið í að úthluta fátækrastyrk, og fer hann alltaf hækkandi, hvað sem gert er til þess að draga úr honum. Síðustu tölur um þetta tala skýru máli. Á Akureyri var framfærslukostnaður áætlaður í ár 190 þús. kr., en í Hafnarfirði 160 þús. þegar litlir kaupstaðir eru komnir með svona háar tölur, er obbinn farinn af tekjunum, svo að nálega ekkert er eftir til annara þarfa. Þess vegna tel ég brtt. á þskj. 748, 4. lið, fullkomlega tímabæra frá fjarhagslegu sjónarmiði og tryggja fátæklingunum betra og ódýrara fæði. En ég skil vel, að hv. 2. þm. Reykv. hefir borið fram sína skrifl. brtt. vegna þess, að hann hefir ekki viljað pína stórar fjölskyldur með erfiðum heimilisástæðum til þess að sækja mötuneytið. En ef mötuneytið á eingöngu að vera bundið við einhleypt fólk, en að veita öllum fjölskyldum heim, verður bæjarfél. ekki kleift að standa undir þeim kostnaði. Ég vildi því gera þá brtt. við brtt. á þskj. 748, 4. lið), að við liðinn bætist: og að matur skuli sendur heim þeim fjölskyldum, sem að dómi framfærslun. og héraðslæknis eiga erfitt um að sækja mat þangað. Er þá fyrir girt, að aðrir fái matinn sendan heim en þeir, sem ekki komast að heiman.

Hér verður að taka tillit til beggja handa. Það má hvorki einblína á hag bæjarfélagsins og ekki heldur draga um of taum styrkþeganna. Það verður ekki komizt frá þessum málum, nema að skoða þau frá báðum hliðum. Það má gera ráð fyrir, að framfærslunefnd verði þannig skipuð, að hún taki tillit til þarfa bæjarfélagsins ekki síður en einstaklinganna.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, því till. skýrir sig sjálf. Er henni ætlað að fyrirhyggja, að þeim mönnum sé skipað að sækja mötuneytin, sem einhverra orsaka vegna ekki geta það. hér er því tryggt, að ekki þurfi að óttast það atriðið, sem hv. 2. þm. Reykv. vildi koma í veg fyrir með sinni skrifl. brtt.