16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (3005)

133. mál, framfærslulög

Frsm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja umr. að ráði, en aðeins athuga ofurlítið brtt. á þskj. 864, frá hv. 2. N.-M., sem hljóðar þannig með leyfi hæstv. forseta: „Í stað „eða annara kunnugra“ komi: og annara kunnugra, telji hann þess þörf.“

Ég held, að þetta sé á dálitlum misskilningi byggt hjá hv. þm. Valdsmaður er alls ekki bundinn við að fara eftir upplýsingum eða tillögum nefndanna, því honum er í sjálfsvald sett, hve mikið tillit hann tekur til þeirra. En hinsvegar er það gert valdsmanninum til hagræðis og stuðnings, svo hann geti vísað til þeirra umsagnar í forsendum fyrir úrskurðinum, ef honum sýnist svo. Ég sé því ekki annað en þetta megi vel standa við það, sem er í brtt. á þskj. 789, vegna þess að standi svo á, að valdsmaður sé ókunnugur högum ekkjunnar, hefir harm óbundnar hendur um að leita upplýsinga hjá kunnugum mönnum. Þá höfum við flm. brtt. á þskj. 789 lagt til, að 61. gr. falli niður. Er þar (í 61. gr.) gert ráð fyrir, að niður falli meðlög barna, ef konan giftist. Býst ég við, að allir hv. þm., og einnig hv. þm. V.-Sk„ sem þó er með ýmsar ýfingar út af brtt., skilji, að til þess að komast undan, að meðlag falli, verður konan að búa með manninum án þess að giftast. Er þar beinlínis verið að neyða þau til þess að brjóta l. með hneykslanlegri sambúð, eins og það er kallað, þar sem það er eina leiðin til þess, að halda rétti sínum að öðru leyti. Það er því rökrétt skoðað þjóðhagslega bezt, að þetta ákvæði falli niður. Skal ég benda á, að hér er um nýmæli í l. að ræða, þar sem horfið er frá því, sem áður hefir staðið í l., að þrengja kosti konunnar, þó hún giftist.

Þá viljum við einnig fella niður 26. gr., sem stendur í beinu sambandi við hina brtt., og miðar einnig að því að bæta kjör mæðranna. Viljum við heldur lofa ekkjunum að giftast aftur en búa í hneykslanlegri sambúð.