10.12.1935
Sameinað þing: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

1. mál, fjárlög 1936

Sigurður Kristjánsson:

Hv. 6. landsk. hefði getað tekið ómak bæði af mér og sjálfum sér með því að sitja kyrr og flytja ekki síðustu ræðu sína, því það, sem hann sagði til andsvara ræðu minni, voru aðeins nokkur atriði, og öll byggð á misskilningi, og nú verð ég að ómaka mig við að reka þau ofan í hann aftur.

Hann sagði, að það hefði verið auðheyrt á ræðu minni, að ég væri ókunnur launum hjá landssímunum. En ég held, að það sé ekki ofmælt, þótt ég segi, að ég sé þeim mjög kunnugur, enda er það ekki hrósvert. Það tilheyrir mínu starfi, og ég hefi orðið að kynna mér þau mjög nákvæmlega, og ég hefi orðið að sitja við það marga daga að bera saman og athuga laun þessara stofnana og hefi gert yfir þau nákvæmar töflur, og í þessum efnum þarf ég ekki að fara í slíkt geitarhús að leita ullar, að ég þurfi að sækja fróðleik til hans. Ef hann hefði spurt mig um þetta, þegar málið var til athugunar í fjvn., þá hefði ég getað veitt honum allar nauðsynlegar upplýsingar.

Ég þarf ekki að deila um það við hv. 6. landsk., en vil mótmæla því nú þegar, sem hann sagði, að engin þóknun væri fyrir aukavinnu hjá Iandssímanum, og vildi láta skilja, að við símann væru aðallega greiddar launabætur samþ. af þeim, sem nú vinna við landssímann, og að mér skildist nokkuð hátt. Starfsmenn við símann eru nú að ég held rétt 187, sem eru fastlaunaðir. Af þessum mönnum eru einir 10, sem hafa fastur launabætur. Aðrar uppbætur eru tvennskonar. Í fyrsta lagi símtalagjaldauppbótin, og í öðru lagi þóknun fyrir aukavinnu. Ég þarf ekki að vera að þræta um þetta. Ég veit, að þetta er satt, og allt annað er ósatt. Það er engin ný saga fyrir mig, þó það sé sagt, að þessar uppbætur séu ekki settar með samþykki þingsins; ég hefi vitað það vel, að þær eru settar með samkomulagi landssímastjóra og ríkisstj., eða þess ráðh., sem þetta heyrir undir. Hv. þm. var ekki þar að gefa neinar nýjar upplýsingar. Þetta vissu allir.

Ég var ekki að mótmæla því, að laun yrðu samræmd en ég var að benda á, að þar sem ætti að semja upp og skipuleggja launakjör starfsmanna ríkisins. þá væri ekki rétt að vera að kippa út úr og krukka í laun hjá einstökum mönnum, og sýnilegt væri, að það hefði sáralitla þýðingu fyrir afkomu ríkissjóðs. Ég hefi ekki við hendina útreikning á því, hverju þetta muni nema, en ég held það muni vera um 40 þús. Ég þori ekki alveg að fullyrða þetta. Vitanlega gæti ég lagt það saman, en það mundi kosta af langa bið. Þó nú að nartað sé í svona upphæð, þá veltur það ekki á miklu fyrir ríkissjóð. En það veltur á miklu fyrir þá menn, sem uppbæturnar fá, ef af þeim er kippt 2–3 hundruð krónum á ári. Slík upphæð er mikils virði fyrir þá, þótt hún muni litlu fyrir ríkissjóð. Og þeir, sem ekki skilja þetta, hafa aldrei átt bágt með að hafa til hnífs og skeiðar. Hv. 6. landsk. sagðist aldrei hafa heyrt farið jafnrangt með tölur eins og ég hefði gert, en ég held þá, að hann hafi aldrei heyrt farið rétt með tölur. Ég las þessar tölur upp úr skrá, sem ég hefi fengið hjá aðalskrifstofu landsímans, og ég sagði, við hvað þær ættu, bæði um föst laun og dýrtíðaruppbót, og leyndi engu um, að þeir fengju uppbætur. Ég gæti lesið þetta allt upp aftur. Ég fór ekki ranglega með eina einustu tölu. Enda er það ekki neinum til góðs að gera það. Tölur eru ágætur til málstuðnings, en sá maður, sem ætlar að styðja mál sitt með tölum, verður að fara rétt með þær; annars koma þær honum sjálfum í koll.

Ég held, að hv. 6. landsk. hafi ekkert vitað. hvað laun sagði, að hann hafi ekkert fundið sér til málsbóta, og hafi þess vegna farið að röfla þetta. A. m. k. var þetta ekki annað en röfl, og er mjög leiðinlegt, að slíkt skuli henda þann mann, sem trúað er fyrir framsögu fjárl.

Hv. 6. landsk. hélt, að það væru ekki slæm laun, sem aðalgjaldkeri landssímans hefði. Hann hefði 7000 kr. árslaun. Þetta eru nú hæstu launin, sem fundin verða með öllum uppbótum, sem greiddar eru við starfið, fyrir allan þann þrældóm, eftirvinnu og næturvinnu, sem því fylgir. Ég ætla, að hv. þm. hafi sjálfur hærri laun fyrir léttara starf og sé þó ekki eins gamall í embætti sínu. Það verður líka að taka til athugunar, að hér er að tala um menn, sem stunda þann starfa, sem krefur sérþekkingar, og aðrir, sem eru búnir að vera mjög lengi við þessi ákveðnu verk, og vitanlega gerir það mennina miklu hæfari til þessara verka en um leið óhæfari til annara verka. Á allt þetta verður að líta.

Það eru blekkingar einar, að ég hafi verið að rakka niður hann annara manna, og að ég hafi verið að taka þá til samanburðar til þess að láta þá standa í óhagstæðu ljósi. Ég sagði það, sem ég stend við, að starfsfólk ríkisverzlananna væru nýgræðingar og að þar væru menn, sem hefðu verið teknir án nokkurs undirbúningsnáms. en elztu menn landssímans hefðu orðið að ganga í gegnum margskonar þrautir. Þeir hefðu byrjað sem sendlar og síðar hefðu þeir orðið símritarar og svo fengizt við önnur störf, og eftir 20 ára starf væru þeir loksins komnir upp í þetta frá 300–400 og alhæst 500 kr. laun á mánuði.

Það er rangt, að ég hafi mótmælt því, að tímakaup mætti vera mismunandi. Það voru ekki mín ummæli. Ég sagði, að mér þætti það einkennilegt, að fjvn. skyldi sjá sér fært að leggja til, að starfstíminn lengdist, og þar með að sú aukavinna hyrfi eða minnkaði að mjög miklu leyti, sem skýlaust hefði fengizt, ef vinnutími hefði haldizt óbreyttur, og jafnframt því að lækka kaup fyrir eftirvinnu niður fyrir það, sem ég veit, að er greitt jafnvel þar, sem engrar sérþekkingar þarf við vinnuna.

Mér hefði þótt það skemmtilegra og sæmilegra, að þeir hefðu haft þann manndóm í sér að segja, að þegar horfið væri að þessu niði, þá vildu þeir þá láta borga vel þá aukreitis vinnu, nætur- og helgidagavinnu, sem þeir neyddust til að láta vinna, og hefðu þá ekki haft kaupið lægra en 3 krónur á tímann. Um hitt hefi ég ekki talað, að tímakaup mætti ekki vera mismunandi. Ég veit, að þegar menn vinna næturvinnu eftir langan dagvinnutíma, þá er eðlilegt, að sú vinna sé hærra virt heldur en hin, sem unnin er venjulegum skrifstofutíma. Ég hefi ekkert um það sagt, hvort eða hve mikið tímakaup eigi að vera mismunandi, en ég segi það, að það er rétt, að það er nánasarlúsalegt í þessu nál., að gera það að atriði, að tímakaup lækki í 1 krónu og 50 au., þegar vinnutími á að lengjast.

Ég vil svo að lokum minna hv. 6. landsk. á það. að hann svaraði ekki því, sem ég spurði hann um, t. d. því, hvers vegna hann telur starfsmenn S.Í.F. meðal þeirra, sem eiga að taka laun hjá ríkissjóði árið 1936. Ætlar hann að leggja það til, að ríkið borgi þessum mönnum, eða hefir hann skrifað þetta þannig niður án þess að gera sér grein fyrir, hvort það er rétt eða rangt? (JG: Það stendur í nál., af hverju þetta er gert). Mér er kunnugt að þetta er rangt, en ég vildi aðeins vita, hvort það var af yfirsjón eða af öðrum ástæðum, að hér var gefin röng skýrsla.