20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (3018)

133. mál, framfærslulög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það mun vera fastráðið, að þetta frv. eins og það liggur nú fyrir, verði að l. á þessu þingi. Ég hefi því talið þýðingarlaust að koma hér með brtt. Ég geri ráð fyrir, að þær verði ekki teknar til greina, hvernig svo sem þeim er háttað og þótt færð væru gild rök fyrir þeim. Ef ekki verður sinnt þeirri athugasemd, sem hv. 2. þm. Rang. gerði við þetta frv., þar sem beinlínis var sýnt fram á, að í því væri um lögvillu að ræða, sem yrði þinginu til vanvirðu, ef frv. yrði samþ. óbreytt, þá býst ég ekki við, að það þýði neitt að koma með aðrar brtt. Því ætla ég ekki hér að fara að tala langt mál um þetta frv. Ég get sagt það, að fyrir mitt leyti tel ég frv. þetta að mörgu leyti til bóta og að sumu leyti til stórbóta, en þó virðist mér sumt vera til hins verra í því og töluverðra vansmíða gæta á því. Skal ég sem dæmi þess nefna það, sem ég gat um áðan og hv. 2. þm. Rang. hafði minnzt á. En auk þess hefir margt annað verið tekið fram áður af þeim hv. þm., sem hér hafa talað. Það virðist svo sem þetta frv. verði ekki til þess, að hrakningar fátæklinga verði minni en áður, og ég geri ráðs fyrir, að málaferli um framfærslu aukist að miklum muna a. m. k. get ég hugsað, að það verði mikið um slíkt nú fyrstu árin eftir samþ. frv. Ég ætla að geta þess hér, að það myndi, þótt samþ. yrði, verða minna hagræði, ef þau ákvæði um þurfalinga verða samþ., að þeir verði sveitfastir þar, sem þeir eiga lögheimili þegar þessi l. ganga í gildi. Ég veit, að það verður mörgum hreppum til hagræðis, en ég verð að segja það, að ef ég hefi skilið frv. rétt, þá kemur þetta mjög hart niður á ýmsum sveitarfélögum. Það er hart fyrir þá hreppa, sem hafa lofað þurfalingum, er hafa átt framfærslusveit annarsstaðar, að vera í sinni sveit og ekki hrakið þá burt, en þeir samt sem áður notið sveitarstyrks, sem svo hefir verið innheimtur hjá framfærslusveitinni. En nú, eftir að l. þessi ganga í gildi, verða þeir, að því, er mér virðist, sveitlægir í dvalarsveitinni, ef ekki hefir verið gerður um þá sérstakur samningur milli hreppa. Með þessu fyrirkomulagi verða það þeir hreppar, sem hafa góðsama hreppsn., sem verða verst úti, og getur þetta orðið til þess, að menn verði bogavarari við að sýna fátæklingum samskonar góðfýsi og áður, og held ég, að það sé ekki til bóta. Mér virðist þessu svona varið, en ég hefi farið yfir frv. með mesta hraða, og getur verið, að ég hafi ekki athugað þetta atriði nógu vel. En það mun vera þýðingarlítið að ræða málið á þessum vettvangi, og ég ætla ekki að gera það, þar sem ég veit, að afdrif þess munu vera ráðin á þann hátt, að frv. eigi að samþ. án breyt.