20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (3020)

133. mál, framfærslulög

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það hefir nú gefizt lítill tími til þess að athuga þetta frv. En við að lesa frv. í gegn má strax sjá, að ýms atriði þess horfa til framfara. Vil ég þar á meðal nefna, að nafnið á þessu frv. er með öðrum blæ en nafnið á fyrri l. um sama efni. Þetta frv. heitir frv. til framfærslulaga. En núgildandi l. um framfærslu heita fátækralög. Þó að ekki hafi verið meint neitt lítilsvirðandi með því nafni, hefir þó mörgum manni þótt lítilsvirðing að því, að komast undir l., sem heita fátækral. Hugsunarháttur fólksins hefir smám saman verið að breytast mjög í þá átt að draga úr öllum lítilsvirðandi blæ á hjálp þess opinbera til handa framfærsluþurfum. Ekki skal ég neinu um það spá, hvort hugsunarhátturinn heldur áfram að breytast í þessa átt. Hann getur alveg eins tekið aðra stefnu og tekið að breytast aftur í gagnstæða átt. Getur verið, að í þessu efni komi fram það sama sem í mörgum öðrum hlutum, að þegar einhver hugsunarstefna er búin að ná vissu marki, þá er hún kannske komin framhjá því, sem fólkinu í raun og veru þykir sanngjarnt, og þá byrjar endurkast í gagnstæða átt aftur. - Eins og kunnugt er, hefir nú verið stofnað félag styrkþega, sem styrkþegar hafa stofnað með sér, eins og hver önnur stétt manna í landinu. Ég veit ekki, hvort þetta félag er komið í Alþýðusamband Íslands. En þetta er félag, sem ætlar sér að starfa eins og hver annar atvinnufélagsskapur. Það lítur út fyrir, að það sé farið að skoða það sem hverja aðra atvinnugrein að vera styrkþegi. Hvernig skyldi annars eiga að haga verkföllum í þessu félagi? Hv. 4. þm. Reykv. gæti kannske frætt mig um það. Þetta félag hefir það sérkennilegt, fram yfir önnur stéttarfélög, að það getur ekki beitt neinn hárbeittu verkfallsvopni. Ég geri þennan félagsskap ekki að umtalsefni af því, að ég sé á móti því, að styrkþegar myndi félagsskap til Hess að sækja sín mál, eins og aðrir. En mér virðist stofnun þessa félagsskapar sýna það, að nú sé kannske þessi hugsunarháttur, að þykja svo sem ekkert fyrir því að vera þurfalingur, eins og það oft hefir verið nefnt, kominn að því að ná því hámarki, sem hann getur náð hjá þjóðinni, og að hann fari áður en langt líður að breytast og taka gagnstæða stefnu.

Í 3. kafla eru ákvæði, sem mjög horfa til framfara, eins og ýmislegt fleira í þessu frv., þar sem um er að ræða (í 3. kafla) styrk með börnum ekkna. Það er ákaflega einkennilegt, að það skuli hafa getað haldizt svo um nokkurt skeið, að kona, sem verið hefir í lögformlegu hjónabandi, skuli vera ver sett um framfærslu barna sinna, ef hún missir mann sinn, heldur en hin, sem eignast börn utan hjónabands. Hinsvegar getur það verið nokkuð hæpið, eins og bent hefir verið á hér við umr., að ákveða, að styrkurinn falli sjálfkrafa niður, sem ekkja hefir fengið með börnum sínum, ef hún giftist aftur. Með þessu ákvæði eru beint frá löggjafarinnar hálfu gerðar þær ráðstafanir, sem í mörgum tilfellum mundu stuðla að því, að maður, sem vildi ganga að eiga ekkju, sem fengið hefir styrk með börnum sínum, tæki heldur þann kost að búa með henni, án þess að þau giftust, til þess að þau misstu ekki af styrknum með börnunum. En svo framarlega sem löggjöfin byggir á því, að hjónabandið sé þörf stofnun fyrir þjóðfélagi, þá á löggjöfin ekki að vinna á móti því, að þær persónur gangi í hjónaband, sem fella hugi saman og mundu að sjálfsögðu giftast, ef þetta lagaákvæði væri ekki eins og það er í 26. gr. frv. Það er augljóst, að það hefir ekki getað stafað af öðru en athugaleysi, að með þessu ákvæði er verðlaunuð óleyfileg sambúð karls og konu. Þennan galla og aðra agnúa á frv. væri fyllsta þörf á að lagfæra.

Sem fulltrúi Reykjavíkur vil ég láta í ljós, að ég óttast fyrir hönd míns kjördæmis, að þeirri lagabreyt., sem gerð er með þessu frv. um afnám sveitfestitímans, og öllu, sem því fylgir, sé stefnt fyrst og fremst gegn Reykjavíkurkaupstað, vegna þess að í lagafrv. þessu eru engin sérákvæði um þá menn, sem nú eru á framfærslu, heldur færist hver maður sem framfærsluþurfi yfir á þann bæ, sem hann á heima í. Og svo á það að vera framvegis, að hver styrkþegi, sem flytur úr einum stað í annan, hann flytji einnig sem styrkþegi yfir í annað hérað. Ég hygg, að ákaflega margt af svona fólki, sem hefir ekkert fast og ábyggilegt í atvinnuefnum, heldur er á lausum kili, hafi tilhneigingu til að flytja til Reykjavíkur. Það vill að ýmsu leyti helzt þar vera, sem skiljanlegt er. Ég óttast nú mjög, að þegar þetta frv. er orðið að l., þá muni Reykjavík og nokkrir aðrir stærri kaupstaðir verða að bera ákaflega mikinn framfærsluþunga. Vil ég einnig í því sambandi vekja athygli á 73. gr. Þar er Reykjavík látin hafa sérstöðu um endurgreiðslu framfærslukostnaðar úr ríkissjóði, þar sem allir aðrir kaupstaðir og önnur framfærsluhéruð eru látin vera betur sett í þessu efni en Rvík. Ég er nú með þessu alls ekki að mæla á móti því, að hver maður eigi framfærslusveit, þar sem hann dvelur sem heimilisfastur maður. Það var engum vafa bundið, að að því mundi reka fyrr eða síðar, og til þess liggja a. m. k. tvær ástæður. Í fyrsta lagi koma þar til greina þær ástæður, sem knúið hafa menn til að færa sveitfestitímann úr 10 árum og niður í 2 ár. Sú stefna gat ekki endað í öðru en því, að hver maður sé látinn eiga þar framfærslusveit, sem hann dvelur. Önnur ástæðan til þess eru hinar margfalt hraðari breytingar á öllu, í atvinnulífi sem öðru, heldur en átti sér stað fyrir svo sem t. d. hálfri öld síðan. Nú má segja, að fólkið sé eins og fjaðrafok um allt landið í samanburði við það, sem gilti fyrir hálfri öld. Þá var gamli sveitfestitíminn miðaður við, að það væru undantekningartilfelli, ef menn flyttu úr einu héraði í annað. En þegar flutningar eru orðnir eins tíðir og stórbrotnir eins og þeir eru nú, þá er ómögulegt að eltast við þetta gamla sveitfestiákvæði. Þegar sett er það ákvæði í l., að láta dvalarsveit jafnan vera framfærslusveitstyrkþega, þá finnst mér að jafnframt hefði þurft að hlaupa á einhvern hátt undir baggann með þeim héruðum, sem bersýnilega hljóta að sitja uppi með mestan fjöldann af styrkþegunum í landinu, með því að gera þeim héruðum auðveldara að standa undir kostnaði, sem óbeint leiðir af þessari lagasetningu fyrir þau. Það má nú kannske segja, að hin nýsamþ. l. um alþýðutryggingar miði í þá átt. En þau geta vitanlega ekki að neinu leyti hjálpað, fyrr en þau koma til framkvæmda. Og það er sannast sagna, að slíkt á nú nokkuð langt í land. Það getur margt sveitarfélagið komizt á kaldan klakann, fyrr en það fær notið hjálpar af þeim l., ef það treystir mjög á þau. - Í 73. gr. frv., þar sem ákveðið er, að endurgreiðsla komi til sveitarfélaga, er Reykjavík sett í erfiðasta aðstöðu um þetta efni, einmitt það framfærsluhéraðið, sem kemur til með að bera aðalþungann af löggjöf þessari. Ég get að vissu leyti glaðzt af þeirri viðurkenningu, sem í þessu felst, um að Reykjavík sé þó ljósasti punkturinn í byggð þessa lands með tilliti til fjárhagslegrar afkomu á þessum vandræðatímum. Í allri löggjöf, sem samþ. er, þar sem eitthvað er gert upp á milli héraða, kemur þessi viðurkenning mjög greinilega fram. Hvað sem ýmsir flokkar segja um það að hér í Reykjavík sé allt í kaldakoli, þá er bersýnilegt, að bærinn er látinn í ákvæðum löggjafarinnar hafa þá sérstöðu, sem getur með engu móti byggzt á öðru en því, að í Reykjavík sé þó hagurinn skárstur. Vil ég þar t. d. benda á kreppuráðstafanir þær, sem gera á fyrir öll önnur héruð og bæi en Reykjavík.

Ég ætla mér ekki þá dul að geta fundið út, hvernig hægt er að framkvæma það á heppilegastan hátt, sem ég hefi talað um. En ég vildi þó hreyfa þessum aths. mínum áður en frv. fer lengra.