21.12.1935
Efri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (3023)

133. mál, framfærslulög

Frsm. (Páll Hermannsson) [óyfirl.]:

Mér þykir rétt að láta fáein orð fylgja frv., áður en það fer til atkvæða.

Þegar málið var hér til umr. í gær, hafði ég hugsað mér að svara nokkru þeim hv. 1. þm. Reykv. og hv. 5. landsk., sem hvorugur er nú viðstaddur. Mun ég því sleppa að svara þeim, einnig að þessu sinni, en láta mér nægja örfáar aths. um frv.

Hv. 1. þm. Reykv. benti á, að tilraun hefði verið gerð til að koma mildara formi á frv. en áður hefði verið. En þaðan komst hann svo út í hugleiðingar um það, að nú væri verið að mynda félag styrkþega, sem líkur væru til, að láta myndi allmikið til sín taka. Ég get nú ekki skilið, að honum þyki fyrir því, að frv. taki á sig mildara form. En ég get fullyrt það, að þrátt fyrir þetta mildara form, er ekki síður en áður séð fyrir hagsmunum bæjar- og sveitarfélaga, að því, er til framfærslunnar kemur. Þeim er gert kleift að innheimta aftur framfærslustyrk, ekki síður en áður, og eins er séð fyrir því, að framfærslukostnaður komi ekki ranglega niður á þessum aðiljum. Í þessu sambandi vil ég nefna atriði, sem hv. 1. þm. Reykv. og hv. 5. landsk. bentu á, að því er snertir börn ekkna, sem sé það, að úrskurður um meðlag með börnum ekkju fellur úr gildi, ef ekkjan giftist aftur. Þetta ákvæði virðist sjálfsagt, því að þegar ekkja er gift í annað sinn, hafa börn hennar öðlazt nýjan framfærslumann, og sé hann fær um að sjá fyrir börnunum, eru meðlögin óþörf, en að öðrum kosti er það hann, sem á að hljóta framfærslustyrk, en ekki börnin. Ég er sannfærður um, að menn muni almennt geta fallizt á, að mönnum, sem eignast konur, er áður hafa átt börn, beri skylda til að framfæra börnin, ef þeir geta. En þetta ákvæði nær þó auðvitað ekki til föður barnanna, ef hann er á lífi og getur séð fyrir þeim. Þessi skylda hvílir þá á honum eftir sem áður.

Þá vil ég drepa lítillega á atriði, sem hv. 1. þm. Reykv. minntist á, jöfnunaraðferðina. Hann benti á, að Reykjavík væri sett í sérstakan flokk, því að frádráttur annara kaupstaða og sveitarfélaga getur horfið, ef framfærslukostnaður þeirra nemur ekki meðaltalsupphæð. En af því að þetta er nokkuð mikilsvert atriði, vil ég gera nánari grein fyrir því, hvers vegna höfundar frv. hölluðust að þessari aðferð. Það var engan veginn af hvöt til að sýna Reykjavík ranglæti, heldur af því, að Reykjavík er auðugasta framfærsluhérað landsins og nýtur, sem höfuðstaður Íslands, ýmiskonar hlunninda umfram önnur héruð. Við vitum t. d., að höfuðverzlun landsmanna fer þar fram, að þar eru flestir aðalskólar landsmanna, stærstu sjúkrahúsin o. s. frv. Allt eru þetta sérstök hlunnindi í þessu tilliti. Ég vildi drepa á þetta, til að fyrirbyggja misskilning, að fyrir höfundum frv. hafi vakið tilhneiging til að sýna Reykjavík ósanngirni.

Þá vil ég í þriðja lagi geta þess, að enda þótt í frv. séu ýms atriði, sem menn munn yfirleitt vera sammála um hér í d., að æskilegt væri að breyta, þá hefi ég þó ekki séð mér fært að leggja fram neinar brtt. Stafar það af því, að flest það, sem mönnum mun finnast þurfa lagfæringar við, eru ákvæði, sem sett voru inn í frv. í Nd., og eru ekki líkur til, að tími vinnist til þess ml að koma á nauðsynlegu samkomulagi milli d. um slíkar breytingar.

Að síðustu vil ég taka það fram, að okkur tveim, sem undirbúið höfum frv., er það sérstakt ánægjuefni, hve vingjarnlega frv. hefir verið tekið af þ. í heild, líka af þeim, sem ef til vill hefðu getað haft það á tilfinningunni, að frv. gerði þeirra hag erfiðari.