26.11.1935
Neðri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (3038)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 619 við frv. það, sem hér er til umr. Í fyrsta lagi legg ég til, að niður verði felldur 15% verðtollur af unnum og hálfunnum umbúðakössum. Eins og hv. þdm. vita, hvílir vörutollur á öllum þeim vörum, sem taldar eru á þskj. 563, og ekki svo óverulegur á þungavörunum, en það er einmitt mikið af þeim vörum, sem sjávarútvegurinn þarf til starfrækslu sinnar, en nú á að bæta verðtolli ofan á þetta. Hv. frsm. iðnn. sagði meðal annars, að sig undraði það, að ég skyldi vera á móti því að tolla innflutta kassa, af því að ég hefði sagt í fyrra, að kassagerðin hér þyrfti stuðning. Það er rétt, að ég sagði, að kassagerðin væri alls góðs makleg, en með því átti ég ekki við, að farið yrði að taka upp verðtolla til þess að styðja hana, heldur hitt, að það þyrfti að auka möguleika fyrir viðskiptum fyrir hana, t. d. við sænska frystihúsið, með því að leyfa hér vissa veiðiaðferð, sem hefði það í för með sér, að hún gæti selt kassa sína. Stuðningur minn við kassagerðina hefir því aldrei náð svo langt, og nær ekki enn, að ég vilji fara að bæta verðtolli ofan á vörutollinn. Annars er tað svo, að kassagerðin er ekki samkeppnisfær við þá t. d., sem flytja hingað inn hálfunna kassa. Það hljóta því einhver mistök að vera hér á, að minnsta kosti hér í Reykjavík. Ég skal þó fúslega játa, að það er margs að gæta í þessu efni. Mér er t. d. kunnugt um, að kassagerðin hér flytur inn heil borð til þess að vinna úr, en erlendis eru kassarnir mestmegnis smíðaðir úr afgöngum og afsneiðingum, og má því vera, að það eigi sinn stóra þátt í að gera hina erlendu kassa miklum mun ódýrari en þá innlendu. Það mun nú varla von, að kassagerðin geti verið samkeppnisfær með kassa langt fyrir utan Reykjavík, þegar þess er gætt, að hún fær allt efni hingað, borgar hér af því skatt og hafnargjöld og verður svo að flytja kassana héðan með strandferða- og milliferðaskipum, þangað sem þeir eru notaðir. Þetta verður óneitanlega nokkuð dýrt, og það er einmitt tað, sem ég tel ekki rétt að koma til leiðar, að fiskútflytjendur úti um land þurfi að borga óhæfilega dýrar umbúðir utan um fisk sinn, enda þótt það sé til landsmanna sjálfra. Til þess að sýna, hver munur getur verið á þessu, vil ég geta þess hér, að nú í dag get ég t. d. keypt sænskt kassaefni, sem er svo ódýrt, að umbúðirnar úr því verða kr. 2,50 ódýrari um hvert skpd. fiskjar, miðað við verðið á kössunum hér í Reykjavík. Þetta er vitanlega til staðar úti á landi, sem hefir beinar samgöngur við útlönd. - Þá legg ég til, að allskonar húfur skuli undanþegnar þessum verðtolli, en ég sé, að hv. n. leggur til, að undanþegnar honum séu aðeins enskar húfur. Ég veit nú t. d. ekki betur en að hinar svo nefndu alpahúfur séu ódýrar og allmikið notaðar. Hvaða ástæða er til að straffa þá, sem þær nota, umfram hina, sem nota enskar húfur, fæ ég ekki skilið. Fleiri ódýrar húfur eru og til, það mun t. d. vart álitið „lúxus“höfuðföt, þó að menn gangi með „kaskeiti“, en hver sá, sem svoddan hneykslanlegt höfuðfat á, eftir skilgreiningu hv. iðnn. á þessum hlutum, á að straffast með að greiða af því 30% verðtoll. - Þá hefi ég og lagt til, að blokkir og sigurnaglar, sem taldir eru í D-lið frv., verði undanþegið verðtolli. Mér er nú alls ekki kunnugt um, að bátablokkir séu t. d. smíðaðar hér, að minnsta kosti ekki nóg. Ég vil því skora á hv. frsm. iðnn. að upplýsa þetta, því höfuðástæðan fyrir frv. mun vera sú að styrkja hinn innlenda iðnað. - Í E-lið frv., sem á að stimplast með 10%, eru taldar presseningar, en eins og kunnugt er, eru þær mjög nauðsynlegar fyrir útgerðarmenn yfirleitt, til þess að hlífa fiski við regni og vætu. Ég fæ því ekki skilið, hvers vegna það þykir hlýða að láta greiða verðtoll af þeim ofan á vörutollinn.

Þá fór hv. frsm. mjög hjartnæmum orðum um það, að hann væri svo sem ekki hár þessi 5% verðtollur, sem leggja ætti á veiðarfærin. Með honum ætti aðeins að styrkja örlítið innlendu veiðarfæragerðina, og hann væri einnig til góðs fyrir útgerðarmennina. En ég fæ samt ekki séð, að það geti orðið til góðs fyrir útgerðarmennina, þó að fiskilínurnar verði skattlagðar með háum verðtolli. Ég verð þvert á móti að telja, að það lýsi ekki svo lítilli blindni hjá þessum mönnum að bera fram slíkt frv. sem þetta, um skattlagningu á útveginn, þegar t. d. hvert skpd. saltfiskjar er selt 20-30 kr. undir kostnaðarverð, að meira og minna leyti vegna ímyndaðrar vonar um að geta hlaðið undir eitthvert fyrirtæki, sem býr til línur og sjóklæði. Þetta kemur mér þeim mun einkennilegar fyrir sjónir, þegar þess er gætt, að það hefir ekki þurft að hlaða hér undir heilbrigðan iðnað með verndartollum. Þannig vann t. d. hið innlenda smjörlíki allan markaðinn innan lands á tiltölulega stuttum tíma, án allra slíkra ráðstafana. Að þjóta upp til handa og fóta og hlaða tollmúrum til verndar iðnaðinum er sízt til bóta fyrir þá, sem iðnaðinn reka, því að þeir þurfa að leggja sig í líma með að vanda framleiðslu sína, og til þess að gera það, er þeim jafnvel nauðsynlegt aðhald erlendra keppinauta, að minnsta kosti til að byrja með. Þá má og í þessu sambandi geta þess, að það eru ekki svo ósterkar stoðir, sem settar eru undir innlenda iðnaðinn, með innflutnings- og gjaldeyrishömlunum. Það er sem sé alkunna, að innflutnings- og gjaldeyrisnefnd tekur mjög mikið tillit til þess, hvort hægt er að fá vörurnar hér innanlands eða ekki. Hún beinlínis bægir mönnum frá að kaupa erlendar vörur og bendir mönnum á að kaupa þær hér, ef þess er nokkur kostur. Hinn ungi íslenzki iðnaður stendur því sannarlega ekki eins að vígi og ef allt væri frítt og frjálst. Mér finnst því alls ekki reka nauður til að fara nú að þjóta upp og skattleggja þær vörur, sem atvinnuvegirnir þurfa að nota við framleiðslu sína, atvinnuvegir, sem reknir eru árið út og árið inn með tapi, en til hagsbóta fyrir iðnrekendurna. Slíkt er ranglæti. Þeir, sem iðnaðinn reka, eru að sjálfsögðu allra góðra gjalda verðir, en þeir verða að koma vöru sinni í það horf, að hún sé samkeppnisfær. Ég held t. d., að ekki fáist innfluttur nokkur verkamannafatnaður. Það mun vera sama og biðja gjaldeyrisnefndina um gull, að biðja hana um innflutningsleyfi fyrir honum. En ég býst ekki við, að þetta sé hyggilegt, því að það mun síður en svo vera almenn ánægja með þessa innlendu framleiðslu. Þegar svona er komið, að menn séu útilokaðir frá að geta fengið betri og ódýrari vörur vegna hinnar innlendu framleiðslu, finnst mér nokkuð langt gengið, og því ekki ástæða til að bæta þar við háum verndartolli. Hv. frsm. sagði, að jafnvel væri farið að bera á því, að erlendir keppinautar seldu hér veiðarfæri undir verði veiðarfæragerðarinnar, og myndu gera það vitandi vits, og því gæti svo farið, að þessar vörur yrðu dýrari síðar, þegar búið væri að undirbjóða veiðarfæragerðina nógu mikið. Ég fyrir mitt leyti legg nú ekki mikið upp úr þessu. Að sjálfsögðu ann ég Veiðarfæragerð Íslands alls hins bezta, og því til sönnunar skal ég geta þess, að ég skipti sjálfur við hana að miklu leyti, en hitt tel ég, að hún þurfi að gera, að framleiða góða vöru fyrir sanngjarnt verð, og að því veit ég, að hún reynir að keppa. Að erlendir keppinautar á þessum sviðum séu að gera herferð á hendur henni með því að selja hér veiðarfæri undir verði, held ég, að sé hinn mesti misskilningur. Hin aðalástæðan fyrir því, að nauðsyn beri til að setja þennan verndartoll, var sú, að ef veiðarfæragerðin legðist niður, þá myndu veiðarfæri verða miklu dýrari hér. Án þess að ég á nokkurn hátt sé að óska þess, að veiðarfæragerðin leggist niður, þá held ég, að þetta sé hin mesta firra. Við verzlum með þessa vöru við mörg verzlunarhús, sem eru í mjög harðri samkeppni sín á milli, og það get ég sagt met fullri vissu, að það hefir ekki hin minnstu áhrif á þá samkeppni, hvort hér á Íslandi er svolítill vísir að veiðarfæragerð eða ekki.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta miklu meir, en vil aðeins undirstrika það, að ég tel „prinsippið“, að styðja innlendan iðnað þegar í byrjun með verndartollum, mjög varhugavert, sem gerir vinnuna dýrari en þörf er á. Sérstaklega tel ég þetta þó óforsvaranlegt gagnvart sjávarútveginum, að koma með verðtoll ofan á vörutoll á nauðsynjar hans, eins og nú stendur á.