10.12.1935
Sameinað þing: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

1. mál, fjárlög 1936

Páll Zophóníasson:

Herra forseti! Það er einn liður í till. fjvn., sem ég get ekki stillt mig um að gera aths. við. Í 162. brtt. n. er lagt til, að styrkur vegna búfjárræktarlaganna verði lækkaður úr 42 þús. í 30 þús. Eins og hv. þm. mun kunnugt, er mörg umbótaviðleitni styrkt eftir búfjárræktarlögunum. Má þar nefna kynbótafélögin, er starfa að kynbótum nautgripa og hesta, sauðfjárræktarbúin, sýningar o. fl. Í þessu öllu er vöxtur, svo styrkurinn fer hækkandi. Styrkur til kynbótafélaganna er að nokkru greiddur eftir á, og 1936 greiddur fyrir starf unnið 1935, og hafi það verið styrkhæft eftir lögunum, tel ég ómögulegt að lækka það. Lögin mæla t. d. svo fyrir, að nautgriparæktarfélag eigi 2 kr. styrk fyrir reiknaða árskú, sé gerð fitumæling í mjólkinni. Þau félög, sem þetta hafa gert 1935 og senda skýrslur um starf sitt 1936, eiga því lagalegan rétt til þessa, og hann verður ekki lækkaður eftir á. 1935 urðu útgjöld eftir búfrárræktarlögunum tæp 50 þús. Eins og áður er sagt, er félögunum að smáfjölga, og það er víst, að þessi útgjöld verða ekki undir 56–58 þús. 1936. Ég tel því, að það geti ekki komið til mála að lækka þetta, og að með öllu sé ógerlegt að lækka suma þá útgjaldaliði, sem hér heyra undir.

Ef aftur er rætt um þetta mál út frá þeirri nauðsyn að spara, eins og mér virðist fjrn. hafa gert í till. sínum, þá tel ég, að mögulegt sé fyrir eitt ár að fresta einstökum framkvæmdum búfjárræktarlaganna, og þá þeim, sem styrktar eru um leið og þær eru framkvæmdar, en ekki hinum, sem styrktar eru eftir á ákveðið eftir lögunum og ég tel eiga lagarétt til styrksins meðan lögunum er ekki breytt. Ég tel t. d., að eigi að spara, þá megi t. d. fresta framkvæmd sýningu um eitt ár, án þess að verulegur skaði hljótist af, en þær munu 1936 hafa í för með sér ca. 10 þús. kr. útgjöld. Eins væri hugsanlegt að fresta framkvæmd styrks til kynbótagripagirðinga. en aðra liði má trauðla spara, og því þarf að veita 47–48 þús. til þessa, og allra minnst 45 þús. 30 þús. kr. fjárveiting til þessa nær því engri átt.