26.11.1935
Neðri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (3045)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Frsm. (Emil Jónsson):

Ég ætla fyrst að snúa mér að hv. 7. landsk., því það er svo lítið, sem ég hefi við hann að segja. Hans till. er kannske út af fyrir sig eðlileg, en hún stríðir þó á móti þeim anda, sem lá til grundvallar fyrir samningu þessa frv., með því að leggja til að undanskilja verðtolli þær vörur, sem hægt er að framleiða í landinu sjálfu. Ég viðurkenni að nokkru leyti sjónarmið þessa hv. þm. og hinna annara, sem bera fyrir brjósti sjávarútveginn, en það verður þó að taka tillit til þess, þegar um iðnað er að ræða, að það geta verið þær ástæður fyrir hendi, sem gera það nauðsynlegt að leggja einhvern lítinn toll á iðnvörur, sem gerir í raun og veru lítið til, en getur hinsvegar verið nógur til þess að halda uppi iðnfyrirtækjum í landinu.

Annars var það aðallega hv. þm. Vestm., sem ég þurfti og snúa mér að, því hann hélt hér eina afarmerkilega ræðu, sem ég kemst ekki hjá að fara nokkrum orðum um. Maður skyldi ekki ætla, að þessi hv. þm. hafi verið viðriðinn þau störf, sem hann hefir haft á hendi undanfarin ár sem erindreki ríkisstj., og kynnzt verzlunarástandinu í heiminum, því hann vill halda því fram, að þeir menn séu blindu haldnir, sem vilja halda uppi iðnaðinum með tollum. Veit ekki hv. þm., að það er nú orðið minna um vert, hverju verði varan er keypt, heldur en það, að hún sé keypt? Og veit ekki hv. þm. það, að við höfum orðið að gera verzlunarsamninga við Þýzkaland, þar sem við verðum að kaupa vörur, sem eru meira en 5% dýrari heldur en þær, sem við getum fengið annarsstaðar frá. En hvers vegna? vegna þess að ástandið er þannig í heiminum, að við getum ekki losnað við okkar vörur, nema til þessa lands, gegn því að fá vörur í staðinn. Það er verzlunarástandið í heiminum, sem gerir það að verkum, að við höfum orðið að kaupa vörur, sem eru mikið dýrari heldur en þær, sem við höfum átt kost á að fá annars staðar. Eins getur ástandið orðið með iðnstarfsemina í landinu. Það getur verið heilbrigt frá þjóðhagslegu sjónarmiði að kaupa iðnvörur í landinu sjálfu eitthvað dýrara verði heldur en hægt væri að fá annars staðar. Og þessi hv. þm. ætti allra manna sízt að halda fram þeirri stefnu að kaupa vörur þar, sem þær eru ódýrastar, þar sem hann sjálfur hefir haft afskipti af þeim verzlunarmálum, sem gengið hafa á annan hátt. Það er líka fullkomin ástæða til, undir vissum kringumstæðum, þegar atvinnuleysi er mikið, að taka þau tillit, sem við undir öðrum kringumstæðum værum ekki neyddir til að taka, því það er ekki svo, að nú séu normal tímar. Það verður að fara allar mögulegar krókaleiðir, bæði til Þýzkalands og innflutningshafta og e. t. v. 5% verðtolls á vörur, sem kannske ekki er æskilegt að setja toll á. - Þetta var það, sem mér fannst vera þungamiðjan í ræðu hv. þm., að við mættum alls ekki kaupa neinar iðnvörur, sem væru eitthvað dýrari heldur en þær, sem við gætum fengið ódýrastar erlendis, en hann hefir sjálfur með sinni starfsemi sýnt, að það getur verið nauðsynlegt að gera ráðstafanir, sem ganga í aðra átt. - Hv. þm. sagði, að við vildum með „vold og Magt“ leggja toll á allar þær vörutegundir, sem framleiddar væru í landinu sjálfu. En þetta er ekki rétt. Við viljum ekki leggja toll á aðrar vörur heldur en þær, sem eiga erfitt uppdráttar. - Þá talaði hv. þm. um það, að ég hefði lagt aðaláherzluna á það í minni ræðu, að heimild væri í l. til eftirgjafa. Og sagði hv. þm., að til hefði verið heimild til eftirgjafa í l. um toll af efnivöru til innlends iðnaðar, en að hann hefði ekki getað komizt eftir öðru, eins og hann komst að orði, en að heil þingmannaleið hefði verið til þess að fá þessar eftirgjafir. Ég hygg, að hv. þm. meini með þessu, að það hafi verið neitað eða mjög torveldað að fá eftirgjafir á þessu efni til innlends iðnaðar. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að það kom fram frv. á þinginu í fyrra um það, að stj. væri skylt að gefa eftir toll af þessum vörum, í staðinn fyrir að nú er það aðeins heimilt. Og ég hefi fengið það upplýst frá tollstjóra, að það hefir ekki verið neitað um eftirgjafir á tolli á þeim vörum, sem féllu undir þessa lagagr., heldur hafi í þeim tilfellum, sem neitað hafi verið um eftirgjafir, verið um aðrar og óskyldar vörutegundir að ræða, en umsækjendur hafi staðið í þeirri meiningu, að þær féllu þar undir. Eftir þessum upplýsingum hygg ég, að ráðuneytið hafi gefið eftir allan toll á þeim efnivörum, sem undir þessa lagagr. féllu. - Þá var hv. þm. að tala um það, og vildi með því gera mitt sjónarmið afkáralegt, að ég vildi tolla blakkir og sigurnagla, áður en slíkt væri framleitt í landinu sjálfu. Það er alls ekki rétt, að þetta hafi ekki verið framleitt í landinu, ég hefi að minnsta kosti verið með í því að kaupa blakkir, sem hér hafa verið búnar til, og það eru þær stærstu blakkir, sem notaðar eru hér á landi, en þær eru framleiddar í mjög smáum stíl, vegna þess að þær eru undir harðri samkeppni erlendis frá.

Annars hirði ég ekki um að ræða þetta öllu frekar. En ég vil aðeins mótmæla því kröftuglega, að við höfum eingöngu haft sjónarmið iðnaðarins fyrir augum við samningu frv. Okkur bárust margar umsóknir frá iðnaðarmönnum um mikið hærri tolla heldur en farið er fram á með frv. Meðal annars var farið þess á leit við okkur, að settur væri 15-20% verðtollur á skip, en því neituðum við með hliðsjón af sjávarútveginum. Það hafa líka margir iðnrekendur farið fram á það, að hækkaðir væru meira en gert er tollarnir í þessu frv., en við höfum neitað því með hliðssjón af öðrum atvinnuvegum. Við reyndum að synda milli skers og báru og taka sjónarmið til beggja handa, en það hefir ekki tekizt svo, að allir séu ánægðir, enda mundi slíkt vera ógerningur í máli, sem gripur inn á hagsmunasvið mismunandi stétta þjóðfélagsins.

Að lokum vildi ég vænta þess, að hv. þm. Vestm., sem ekkert vildi taka aftur af því, sem hann sagði um blindu og þröng sjónarmið, vildi athuga það verzlunarástand, sem hann hefir mikið verið viðriðinn, og aðgæta, hvort það eigi ekki eitthvað skylt við þær ráðstafanir, sem hér er verið að gera.