16.12.1935
Efri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (3055)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Frsm. (lngvar Pálmason) [óyfirl.]:

F. h. iðnn. þarf ég litlu við það að bæta, sem stendur í nál. á þskj. 810. N. hefir leyft sér að bera fram þrjár brtt. við frv., og ég geri ráð fyrir, að tvær þær síðari, 1,b og 2. brtt., valdi engum ágreiningi. En hinsvegar gæti ég trúað því, að um 1,a kynni að verða einhver ágreiningur. Eins og getið er um í nál., var það svo upphaflega í frv., að færi, fiskilínur og öngultaumar voru í E-flokki og áttu að stimplast með 10% tollmerki. Í Nd. var þetta fellt úr frv., en n. gat ekki fundið neina till. um það. Till. kom fram í Nd. um að færa þessa vöruflokka undir F-lið, og vörur undir þeim lið eiga að stimplast með 5%, en hvernig sem því er varið, þá virðist þetta hafa fallið úr frv. í Nd. Iðnn. lítur svo á, að þó það megi líklega búast við, að þessi verðtollur valdi nokkurri hækkun á verði þessara vörutegunda, þá telur hún vera þannig ástatt um þær, að réttmætt sé að leggja lítilsháttar vörutoll á þær. Og er það gert með það fyrir augum, að hér innanlands er rekinn lítilsháttar iðnaður í þessari veiðarfæragerð, sem hefir starfað stuttan tíma og á því eðlilega við marga erfiðleika að stríða í byrjun. Öllum má vera það ljóst, að það hlýtur að verða til mikils hagnaðar fyrir þjóðina, ef sá iðnaður gæti borið sig og framleitt vöru, sem væri eins vel við okkar hæfi og erlend framleiðsla á sama sviði. Reynslan hefir sannað, að vörugæði í veiðarfæragerð Íslands eru fullkomlega sambærileg við erlend veiðarfæri og að hin íslenzku veiðarfæri hafa reynzt samkeppnisfær. Mér er að minnsta kosti ekki kunnugt um annað, þó að einstöku raddir hafi látið annað á sér skilja. Hinsvegar hefi ég heyrt raddir um það, að þau væru nokkru dýrari en erlend veiðarfæri af sömu gerð og sérstaklega að viðskiptin við Veiðarfæragerð Íslands væru erfið, af því að ekki fengist þar neinn gjaldfrestur. En erlendar veiðarfæraverzlanir hafa gefið langa gjaldfresti. Þetta er vafalaust rétt. En á það hér að líta, að fyrirtækið er ungt, og þess vegna er ekki von, að það geti veitt gjaldfresti, þegar það hefir líka átt mjög undir högg að sækja um viðskiptin innanlands vegna samkeppni frá útlöndum. Hinsvegar er það víst, að ef viðskiptin væru viss og örugg, þá mundi Veiðarfæragerð Íslands geta gefið gjaldfresti. Iðnn. lítur því svo á, að réttmætt sé að líta þessi erlendu veiðarfæri falla undir verðtoll, en vill þó ekki, að hann sé hærri en 5%. Önnur ástæða n. er sú, og er hún öllu veigameiri, að dregið verði sem mest úr innflutningnum á þessum vörutegundum frá öðrum löndum vegna gjaldeyrisvandræða. En sú ástæða er tilgreind í nál., og þarf ég ekki að fara mörgum orðum þar um. Í nál. er bent á, að ef við kaupum veiðarfæri frá Norðmönnum, eins og gert hefir verið í mörg ár, þá hafi það slæm áhrif á fjárhag landsmanna á tvennan hátt og illar afleiðingar. Ég hygg, að öllum hljóti að vera það ljóst, þar sem nú stendur svo á, að allar líkur eru til, að við getum ekki selt fisk til Ítalíu á næsta ári, nema að við tökum vörur þaðan í staðinn upp í fiskinn, þá getur verið, að í stað þess að við nú kaupum veiðarfæri af Norðmönnum, þá sé það ekki lítill liður í því að liðka viðskiptin við Ítalíu, ef öll hráefni til veiðarfæra væru keypt þaðan. En það gerir Veiðarfæragerð Íslands nú. Það hlýtur því að vera hverjum manni ljóst, að það er sízt til hagsbóta fyrir sjávarútveginn í heild og viðskipti landsins út á við, að við aukum kaupin á veiðarfærum frá Noregi. - Ég held því, að hvernig sem á þetta er litið, þá verði það að teljast réttmætt, að samþ. brtt. iðnn., og ég lít þannig á, að það verði síður en svo til þess að íþyngja sjávarútveginum. Og ennfremur lít ég svo á, að þessi verðtollur verði síður en svo til óhagnaðar fyrir sjávarútveginn, ef hann bætir viðskiptahaginn út á við og tryggir jafnframt Veiðarfæragerð Íslands verkefni og velgengni í framtíðinni. Ég geri mér fyllilega von um, að d. samþ. þessa brtt. Og ég verð að vona, að þetta atriði valdi ekki ágreiningi í Nd., því eins og ég áður sagði, þá hygg ég, að engin till. hafi komið fram um það í Nd. að fella þetta úr frv., en það mátti skilja atkvgr. þannig að þetta væri þó samkv. þingsköpum. - Að því, er snertir brtt. 1,b, þá get ég sagt, að hún hefir ekki verulega þýðingu, því að sú vara, sem þar er nefnd, heyrir ekki undir frv., en n. sá ekki ástæðu til að neita um að undanskilja hana verðtolli. Um 2. brtt. geri ég ekki ráð fyrir, að verði ágreiningur, og læt ég því þetta nægja.