19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (3068)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Páll Zóphóníasson:

Ég skal ekki segja mikið um þetta mál. Ég vildi aðeins taka það fram, að það gladdi mig að heyra hv. þm. Vestm., sem telur sig fulltrúa sjávarútvegsmanna, lýsa því yfir, að hann teldi það ekkert aðalatriði fyrir fiskframleiðendur að geta tryggt sér markað á Ítalíu með því að kaupa vöru þaðan. Ég vona, að menn hafi tekið eftir þessu og minnist þess í sambandi við það, sem síðar kann að verða sagt, að hann er svo vongóður og bjartsýnn, þrátt fyrir alla erfiðleikana, sem um hefir verið kvartað, að honum finnst það ekkert aðalatriði að geta selt svolítið meira af fiski til Ítalíu.