19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (3069)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Jóhann Jósefsson (óyfirl.]:

Af því að hv. 2. þm. N.-M. reynir að rangfæra orð mín með því að taka aðeins upp helminginn af því, sem ég hefi sagt, þá neyðist ég til að vekja athygli hv. þdm. á því, að það er ekkert aðalatriði lengur, þó hægt sé að selja fisk á Ítalíu, ef um leið er gengið þannig frá íslenzkum útvegi, að enginn hagnaðarvon er í því að framleiða vöruna. Við útvegsmenn erum ekki komnir á það góða lag að láta hverja skepnuna éta aðra, eins og þessi hv. þm. hefir ráðlagt sínum umbjóðendum, og láta atvinnuveginn bera sig á þann hátt. Við viljum sjá fram á það, að atvinnuvegurinn eigi við þau kjör að búa, að honum sé lífvænt, og þá fyrst eru til skilyrði fyrir því að hugleiða möguleika til að selja vöruna. En sé þeirri stefnu haldið uppi að gera atvinnuveginum ólífvænt, þá er ekki aðalatriðið að selja. Það er ekkert aðalatriði að selja, þegar verður að selja með tapi. Þetta ætla ég, að menn muni skilja, og jafnvel hv. 2. þm. N.M., ef hann léti sér detta í hug að slíta ekki úr samhengi það, sem ég hefi sagt.