12.12.1935
Efri deild: 93. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (3093)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Magnús Guðmundsson:

Ég held, að það hefði verið óhætt fyrir hv. 4. landsk. að spara sér þessa ræðu. Það kemur ekki til mála annað en að till., sem hann nefndi, sé tekin aftur, eftir þá atkvgr., sem fór fram í gær. Það má vera, að hún gæti farið í gegnum þess, d., en hún getur ekki farið í gegnum báðar d., eftir atkvgr. í gær að dæma. Það er því enginn vafi á því, að hún verður tekin aftur, enda hefir hv. flm. sjálfur sagt, að það væri ekki um annað að ræða.

Út af því, sem hv. þm. sagði annars um prentun þingtíðindanna, vil ég segja það, að ég tel prentun þeirra mjög þýðingarlitla, þegar svo er komið, að mikill hópur þm. leiðréttir ekki eina einustu ræðu, og svo á aðalgagnið af prentun þingtíðindanna, samkv. því, sem hv. 4. landsk. segir, að vera það, að menn geti sótt þangað skýringar á lögum. En hvað verður úr því, þegar menn leiðrétta ekki það, sem skrifararnir hafa skrifað? Afleiðingin verður vitanlega sú, að þeir eru ekki ábyrgir fyrir því, að þar sé rétt frá sagt. Það fer mikið í vöxt, að menn leiðrétti ekki ræður sínar, og áhuginn fyrir þingtíðindunum hefir farið mjög minnkandi upp á síðkastið, bæði af þessu, sem ég drap á, og eins af hinu, hversu seint þingtíðindin kom, út. Ég held, að það sé ekki enn farið að prenta neitt af umr. frá fyrri hluta þessa þings, sem byrjaði 15. febr. síðastl. Og nú flytur útvarpið daglega nákvæmar fréttir af þinginu og úrslitum mála. Heldur hv. 4. landsk., að eins sé ástatt í þessu efni og áður? Hans afstaða er ekki annað en afturhaldssemi hjá hv. þm., hann fylgist ekki með tímanum í þessu efni. Fólkið úti um landið er búið í lok hvers þings að fá miklu greinilegri fréttir af þinginu heldur en áður tíðkaðist, bæði í blöðum og sér í lagi í útvarpinu. (JBald: Menn kvarta nú undan því, að útvarpið flytji ekki alltaf greinilegar þingfréttir). Svo koma þingtíðindin 1-2 árum á eftir. Ég skal viðurkenna, að mér þykir leiðinlegra að þurfa að leggja til, að þingtíðindin verði ekki prentuð. Ég vildi helzt, að þau væru prentuð jafnóðum meðan þing situr, en ég lít svo á, að sá sparnaður, sem af þessu leiðir, sé talsverður og að tiltölulega fáir muni sakna þingtíðandanna. Það er í rauninni ekki annað en hégómaskapur að vilja endilega prenta allt, sem sagt er á þingi. Undir niðri virðist hv. 4. landsk. játa þetta, því að hann nefndi í þessu sambandi frv. um þingskapabreytingu, sem nú er til meðferðar í Nd. Þar mun vera gert ráð fyrir að skerða talsvert málfrelsi þingmanna, m. a. í þeim tilgangi að gera umræðupart þingtíðindanna styttri. Ég efast um, að sú aðferð mælist betur fyrir. Ég hefi að vísu ekki kynnt mér þetta frv. rækilega, en ef ég man rétt, getur forseti ákveðið, að umr. um mál skuli ekki taka meira en 2 klst. við hverja umr. Stórum málum er ekki hægt að ljúka á svo skömmum tíma. En annars er það alveg ljóst, að annaðhvort verður að gera, að takmarka verulega ræðutímann eða hætta að prenta þingtíðindin. Hvort vinsælla verður, skal ég láta ósagt. Það er nokkuð til í því, sem hv. 4. landsk. sagði, að hægt væri að koma ýmsu að á skjalapartinum, jafnvel þótt ekki í væri farin sú öfgaleið, sem hv. þm. talaði um, að nefndir heimtuðu sérstaka skrifara, sem hraðrituðu allt, sem gerðist á fundum. Það yrði fallegt, ef fjvn. léti hraðrita allt, sem þar er sagt, og gefa það svo út. Þetta er náttúrlega ekkert annað en firra, sem hv. þm. er með til þess að reyna að gera afleiðingarnar af samþykkt þess, að felld verði niður prentun á þingtíðindunum, sem allra ægilegastar. En það, sem er aðalatriði fyrir mér í þessu máli, er það, að landsmenn fái sem greinilegastar fregnir af þinginu, og svo hitt, að þingtíðindin eru engin sönnunargögn, nema í einstaka tilfelli, fyrir því, sem fram fer á þingi, eftir að fjöldi manna er hættur að leggja verk í að leiðrétta ræður sínar.