13.12.1935
Efri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2131 í B-deild Alþingistíðinda. (3099)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Það lítur út fyrir, að þetta litla frv., sem lagt var fyrir þingið í upphafi, hafi vaxið alveg óvenjulega mikið í meðferð þessarar hv. d.

Ég skal ekki ræða um þær brtt., sem eru á þskj. 779, - við 2. og 3. lið þeirra till. hefi ég ekkert að athuga og mun ekki blanda mér í umr. um þá.

En þá kem ég að brtt. 5 þskj. 794, og hafa þær valdið mér nokkurra hugleiðinga. Ég verð að segja, að mig furðar dálítið á þessum till. Fljótt á litið virðast þær mjög lauslega hugsaðar og undirbyggðar, að því er snertir fyrstu till., þá er ekki sýnilegt, að hún hafi nokkurn sparnað í för með sér, enda hygg ég, að það verði mjög torvelt að framkvæma hana. Ég sé ekki annað en að ætlazt sé til, að gerðar verði miklar breytingar á fræðslulögunum, eða gengið á snið við þau, svo að hægt sé að framfylgja þessari till. Sá sparnaður, sem gert er ráð fyrir, er líka ákaflega vafasamur, þó að honum yrði fram komið. Það er ekki hægt að fækka föstum kennurum, en í flestum fræðsluhéruðum eru skipaðir kennarar. Farkennarar eru að vísu óskipaðir og aðeins ráðnir af skilanefndum. Þessi till. ætlast til þess, að skólahéruðum verði mikið breytt frá því, sem nú er, og jafnvel að tvö eða fleiri héruð verð sameinuð í eitt skólahérað; vegalengdir aukast, svo að það verður mjög torvelt víða í sveitum að sameina börnin til þess að þau geti notið kennslunnar.

Til þess að samfærsla fræðsluhéraða geti farið fram, þá þarf að vera fyrir hendi skólahús með heimavistum, þar sem börnin geti dvalið um kennslutímann. Ég hygg, að þó að þessi till. verði samþ. nú, þá verði enginn teljandi sparnaður að henni, og sízt á næsta ári. Auk þess er á það að líta, að á næsta þingi er búizt við, að fram komi frv. til víðtækra breyt. á fræðslulögunum, sem sérstök n. hefir unnið að undanfarin missiri, og virðist mér að þessi till. megi bíða eftir því.

Um 2. lið á þessu þskj. var mikið mætt á síðasta þingi. Annars er mjög auðvelt að leiða rök að því, að það leiðir ekki til sýnilegs sparnaðar að leggja eftirlit með raforkuvirkjum undir landssímann. Sami maðurinn verður að hafa forstöðu fyrir þessu starfi eftir sem áður. Hvort eitthvað megi spara í húsaleigu frá því, sem nú er, skal ég ekki um segja.

Að því er snertir 3. liðinn á þessu þskj., um að ríkisstj. verði heimilað að selja skipin Óðinn, Þór og Hermóð, þá þykir mér það nokkuð mikið, að veita heimild til að selja þrjú skip á einu bretti. Ég vil fyrir mitt leyti stuðla að því, að fyrst verði athugað, hvaða breyt. beri að gera á landhelgisgæzlunni, og mér lízt vel á að sameina björgunarmálin þeirri gæzlu. Það má væntanlega leggja niður eitthvað af varðskipunum. En að selja bæði Óðinn og Þór tel ég mjög vafasamt. - Ég er ekki við því búinn að fallast á, að Hermóður verði seldur fyrr en betri skýringar hafa fengizt á því máli, þar sem vafasamt er um framtíð Skaftfellings.

Samkv. 4. lið er ætlazt til þess, að felldur verði niður 1. bekkur kennaraskólans frá 1. okt. næstk. - Í þessu sambandi vil ég benda á það, að hér liggur fyrir d. frv., þar sem í er skilyrði um það, að eigi megi aðrir fást við barnakennslu hér á landi en þeir, sem hafa kennarapróf frá kennaraskóla Íslands. Ég ætla, að það vanti árlega um 100 kennara, með kennararéttindum samkv. þessu skilyrði, í kennarastöður hér á landi, ef alstaðar ætti að vera fullskipað. Að vísu eru fleiri með kennaraprófi hér í bænum en þarf til þess að fullnægja eftirspurninni þar, en þeir eru þá til vara, ef starfandi kennarar falla frá hér í bænum eða annarsstaðar. Auk þess held ég, að sparnaðurinn af þessu yrði ákaflega lítill. Hv. þm. sagði, að hægt væri að spara einn kennara, og er það þá það eina, sem sparast. Hann sagði, að kennslan væri nú að sumu leyti úti um bæ. Ef svo er, hygg ég, að megi kippa því í lag þegar gagnfræðaskólinn er farinn úr húsinu, svo það valdi engu hér um.

Þá er 6. till. viðvíkjandi prófdómendum. Ég álít það mjög misráðið að láta kennarana yfirleitt vera prófdómendur. Ég álít, að það komi ekki til mála að því er snertir burtfararpróf, auk þess sem það er áreiðanlega mjög óheppilegt að loka þannig inni kennsluna í skólum, að kennaraliðið eitt sé prófdómendur og dæmi þannig um niðurstöðu kennslunnar, sem koma á fram við próf á vorin.

Í sambandi við það, sem hv. frsm. sagði eftir rektor menntaskólans, að hann áliti, að vetrarpróf gætu fallið niður, get ég sagt það, að ég tel það a. m. k. athugandi. Þó býst ég við, að það yrði að vera skilyrði, að nemendur hefðu náð svo góðri einkunn við bekkjarpróf, að sæmilega örugg gæti talizt yfir veturinn. En þetta hefir aðra hlið, nefnilega þá, að hjá nemendum, sem eru götóttir og hafa lesið stopult, bætir próflesturinn það oft upp og hjálpar mönnum til að fá heildarsýn yfir námsefnið. Það má að vísu athuga þetta, en að slá því föstu, tel ég ekki rétt að svo stöddu.

Þá er 7. till. um kvennaskólann í Reykjavík. Ég heyrði henni andmælt af samherja hv. þm. um þessar till., og get því látið hana hjá liggja í bili. Ég vil bara benda á í þessu sambandi, að ég teldi eðlilegt, að sett væri heildarlöggjöf um húsmæðra og kvennafræðslu í landinu yfirleitt, hliðstæð l. um héraðsskóla og gagnfræðaskóla. Meðan það er ekki gert finnst mér sjálfsagt að athuga a. m. k. vel áður en ráðizt er í verulegar breyt. á þess konar skólum frá því, sem nú er.

Þar sem hér er um svo mikilvægt efni að ræða, vil ég vænta þess, að menn fallist á að fresta umr. og skjóta málinu til athugunar hlutaðeigandi n. (JJ: Það er alveg sjálfsagt).