13.12.1935
Efri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (3103)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Guðrún Lárusdóttir:

Ég vil segja fáein orð út af því, sem hv. þm. S.-Þ. sagði hér áðan. Hann hélt því fram, að kvennaskóli Reykjavíkur væri ekki sérmenntunarskóli fyrir konur. Hann vildi gera lítið úr hannyrðakennslu þeirri, sem væri í skólanum, og sagði, að þar hefði verið kennd lítils háttar handavinna. En hvernig stendur í því, að þessi hv. þm. heldur þessu fram, þegar hann veit, að í þessum skóla hefir frá byrjun verið lögð aðaláherzla á hannyrðir og fatasaum, svo að þótt hv. þm. S.-Þ. telji, að handavinnukennsla þar sé lítilsháttar, þá legg ég ekki mikið upp úr því. Hann sagði líka, að kvennaskóli Reykjavíkur væri unglingaskóli fyrir Reykjavíkurbúa. Hvernig á að skilja þetta? Þessi skóli, sem æfinlega, árs árlega, hefir tekið á móti fjöldamörgum sveitastúlkum. Hér liggur fyrir skýrsla um skólann eftir 60 ára starf, og á þeim tíma hafa 4 þúsund stúlkur notið menntunar í skólanum, og mikill hluti þeirra hefir verið úr sveit. (JJ: Hve mikill hluti er það?). Nú stunda 130 stúlkur nám við skólann, og af þeim eru 50 úr sveit. Af 24 stúlkum, sem eru í húsmæðradeild skólans, eru 21 úr sveit. Ef hv. þm. S.-Þ. efast um, að þetta sé rétt hermt, þá er hægt fyrir hann að hringja upp fyrrv. kollega sinn hér á þingi, fröken Ingibjörgu H. Bjarnason og athuga, hvort ég fer ekki rétt með.

Hann sagði ennfremur, að skólinn væri forngripur frá réttleysistímum kvenna. Þessi skóli hefir nú starfað í 60 ár og hann hefir staðið vel í stöðu sinni, undirbúið fjöldamargar konur vel fyrir lífsstöður þeirra og fylgzt vel með öllum nýjungum á sviði menntanna. Og ég spyr hv. þm. S.-Þ„ hvort hann hyggur, að aðrir skólar hafi staðið öllu betur í stöðu sinni heldur en einmitt kvennaskólinn, sem hann kallar forngrip frá réttleysistímum kvenna.

Viðvíkjandi því, að lítið er gert úr handavinnukennslu skólans, þá vil ég láta það koma fram og fá það skjalfest í Þingtíðindunum, að þegar haldin var hér sýning á handavinnu frá ýmsum skólum, þá sóttu sýninguna allmargir útlendingar, og sú handavinna, sem mesta athygli vakti, var frá nemendum í kvennaskóla Reykjavíkur, og vildu ýmsir hinna útlendu gesta fá að kynnast betur þeirri stofnun, sem kenndi þeim nemendum, er höfðu til sýnis jafnfagra handavinnu og vel unna muni eins og voru á þessari sýningu. Þetta bendir á, að það sé enganveginn lítilsháttar kennsla í handavinnu í kvennaskóla Reykjavíkur, enda er sannleikurinn sá, að kennsla í handavinnu er meiri en í bóklegum fræðum; t. d. í 2. bekk eru litlar bóklegar námsgreinar. En hver skyldi annars lasta það, þótt kennslan sé líka bókleg? Er það ekki beinlínis lofsvert að gefa nemendunum kost á að læra sem flest og búa stúlkuna undir það að geta tekið að sér sem flest af þeim störfum, sem snerta daglegt líf?

Í kvennaskóla Reykjavíkur er nú kennd bókfærsla og vélritun; í húsmæðradeildinni er kennt að halda búreikninga; þar er og kennt ýmislegt, er að hjúkrun lítur, svo sem meðferð á ungbörnum o. fl. Til þess að kenna það hefir verið fengin hæf hjúkrunarkona. Kennaraval skólans er yfir höfuð mjög vandað.

Ég þykist nú hafa sýnt fram á það með þessum fáu orðum, að það er ekki rétt, að kvennaskóli Reykjavíkur sé ekki sérfræðiskóli fyrir konur. Það er ekki heldur rétt, að hann sé aðeins unglingaskóli fyrir Reykjavíkurbúa eða að hann sé forngripur frá réttleysistímum kvenna. Hann er lífræn stofnun, sem stendur fyllilega á sporði hvata öðrum skóla í þessu landi sem er, að þeim öllum ólöstuðum. Hv. 4. þm. Reykv. lét svo um mælt, að skólinn væri skóli efnaðra borgara. Ég held, að þær stúlkur, sem sækja skólann. Ég held, að þetta sé alls ekki rétt hjá honum yfirleitt ekki sérstaklega ríkar. Það mun vera alveg upp og ofan. Skólagjaldið er ekki heldur hátt, 100 kr. fyrir allan veturinn, og ég veit til þess, að það eru ekki fá dæmi þess, að sveitastúlkur hafa setið fyrir þeim styrk, sem skólinn hefir yfir að ráða.

Ég ætla ekki að orðengja þetta meira. Ég kvaddi mér hljóðs til þess eins að leiðrétta þessi ranghermi hjá hv. þm. S.-Þ., og í sambandi við það vil ég svo ljúka þessum fáu orðum mínum með því að segja það, að ekki er of mikið gert fyrir sérfræði kvenna og húsmæðraefnin í landinu, þótt ekki sé farið að skera niður þann styrk, sem kvennaskóli Reykjavíkur hefir notið, því ef það er gert, hlýtur skólinn að draga mikið úr starfi sínu og getur ekki komið að jafnmiklum notum og áður. Mér virtist, að ríkið ætti heldur að spara á öðrum sviðum. Þeir peningar, sem lagðir eru til uppeldismála - og ekki sízt þeir, sem lagðir eru til sérmenntunar kvenna -, eru peningar, sem þjóðin tekur inn aftur á öðrum sviðum. Ég hygg, að þær konur, sem menntunar njóta í kvennaskóla Reykjavíkur, komi til met að vinna þjóðinni það gagn, að ekki verði séð eftir nokkrum þúsundum, sem fara til þess að undirbú þær undir lífsstarf þeirra.