19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (3116)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það verður vitanlega skoðað sem hæstaréttardómur um afgreiðslu þessa máls sú frásögn, sem fyrir liggur um það í fundarbókun Ed. Mér var sagt það af skýrum manni, sem á sæti í Ed., að þetta frv. hefði verið afgr. þar á þann hátt, sem ég gerði grein fyrir. En það, sem hæstv. forseti og trúnaðarmaður hans segja, ætla ég ekki að rengja. Þó verð ég að láta það í ljós, að mér þykir þetta mjög leyndardómsfullt, og væri full ástæða til að rannsaka það nánar, hvað fundargerðin segir um atkvgr., svo að um það sé enginn vafi. En óþarft er að ræða frekar um það, sem hæstv. forseti skýrði frá, að áður hefði verið mismunandi skilningur hjá forsetum deildanna á þessu ákvæði þingskapanna um úrslit mála. Ég man að vísu eftir líku dæmi um forsetaúrskurð í Ed., sem, fell á þann hátt, að málið var talið samþ., þó að það fengi ekki nema helming atkv. í þd. En það mun ekki hafa gerzt alveg með sama hætti og nú. Ég man ekki betur en að þáv. forseti krefði hlutaðeigandi þm., sem ekki greiddi atkv., um ástæður, en tók þær ekki gildar og felldi svo úrskurð á þá leið, að hann væri ekki atkvæðisbær. En þetta mál kom þá ekki til kasta forseta þessarar d. Nú liggur það aftur á móti í augum uppi, að það hlýtur að koma til kasta forseta þessarar d. að úrskurða um það, hvort þetta mál, sem hér liggur fyrir, ber rétt að. Og ef hann er beðinn um slíkan úrskurð, þá verður hann að úrskurða eftir sinni eigin skoðun, en má ekki láta sér nægja að vísa til úrskurðar forseta Ed.

Að svo mæltu fell ég frá því að krefjast forsetaúrskurðar um þetta atriði, ef svo er sem hæstv. forseti upplýsir, að samkv. gerðabók Ed. sé þetta frv. afgr. þaðan með 9:7 atkv., því að það er náttúrlega lögmætt.