19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (3123)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Ég ætla að byrja á því, sem reyndar er búið að drepa á af öðrum hv. þm., að þetta mál ber talsvert öðruvísi að heldur en venja er til með mál hér á Alþingi. Það er nokkuð sjaldgæft, að afnám, gerbreytingar og frestun á framkvæmd gildandi l. komi fram á síðasta stigi máls og hljóti þar af leitandi ekki þá meðferð, sem ætlazt er til og beinlínis fyrirskipað í stjórnskipunarlögum landsins, að lagasetning skuli sæta, þ. e. a. s. fari gegnum þrjár umr. minnst í hvorri d. Þetta er ekkert annað heldur en að fara í kringum stjórnskipunarlögin. Hvort það á að liðast og komast hefð á það, er náttúrlega ágreiningur um. Æskilegra væri þá að breyta bara stjórnskipunarlögunum og hætta að fyrirskipa þessar þrjár umr. í hvorri d. Ég hefði farið fram á við hæstv. forseta, að hann úrskurðaði um það, hvort þetta mál skyldi tekið til afgreiðslu hér í d., einmitt út frá því, sem ég hefi nú sagt, að ég tel þetta algerlega að fara í kringum stjórnskipunarlögin, en ég sé ekki, að það þýði neitt, því mér skilst hæstv. forseti vera óbeinlínis búinn að fella úrskurð með því að bera fram brtt. við frv., sem ég býst ekki við, að hann hefði gert, ef hann hefði lítið á þetta sömu augum og ég. Ég kæri mig náttúrlega ekki um að biðja um úrskurð bara til þess að úrskurður sé felldur, heldur vakti fyrir mér, þegar mér datt þetta í hug, að fá málinu hrundið frá.

Það er fleira sérkennilegt við þetta mál, sem gerir það lítt þinghæft að mínu áliti. Hér eru saman komin 16 atriði, sem mörg eru afaróskyld hvert öðru. Þó sú firra væri framin að bræða saman öll þessi atriði í eitt frv., þá átti það að sjálfsögðu a. m. k. að vera í 16 greinum. En þessu er hnoðað hér saman í eina einustu grein með þeim afleiðingum, að ekki er hægt að fella eitt atritið nema fella þau öll. Þessi óskapnaður að frv. er eitthvað því líkur eins og matur sæi 16 óskyld dýr gróin saman á rössunum og orðin að einni flygsu.

En það þýðir víst ekki að fárast um þetta; málinu mun ekki fást vísað frá úr því sem komið er, þó það hefði fyllilega verðskuldað það. Held ég, að verði þá að freista þess, hvort ekki er hægt að leggja óskapnaðinn að velli við atkvgr. Ég hlýt að hlaupa yfir nokkuð mörg atriði frv. Það yrði svo langt mál að tala um þau öll. Ég vil aðeins minnast á þá liði, sem ég tel mestu máli skipta, að ekki verði samþ.

Það er þá í fyrsta lagi 3. liður, um niðurfellingu prentunar umræðuparts þingtíðindanna. Um það atriði hefir þegar verið talsvert rætt, og mætti ætla, ef þm. væru sjálfum sér samkvæmir, að þeir felli þennan lið niður, þar sem komin er fram brtt. í þá átt. En þó nokkuð hafi verið um þetta rætt, hefi ég ekki heyrt bent sérstaklega á það, að það er alveg tvímælalaust falsvon, sem menn gera sér um sparnað af þessari ráðstöfun. Það er hugsanlegur einhver sparnaður á einu einasta þingi, en varla fleirum. Það er skiljanlegt mál, að ef hætt væri að vita ræður þm., og þó ekki væri nema hætt að prenta þær, þá mundi taka við skriflegur málaflutningur á þingi. Breyt. yrði sú, sem orðið hefir á meðferð mála fyrir dómstólum, þar sem skrifleg málafærsla er viðhöfð. Reynslan er sú, að skriflega málfærslan hefir ekki orðið minni fyrirferðar heldur en sú munnlega. Auðvitað mundi svo fara hér, ef hætt væri að rita umr., að menn mundu taka til að skrifa geysilega löng - og þá væntanlega um leit ýtarleg - nál. Með frv. mundu fyrst koma margra arka grg. og svo kæmu nál., sem gætu orðið heilar bækur, og yrðu það eflaust sum. Þetta yrði það reginbákn, sem mundi gera þm. lítt kleift að fara gegnum mál, og það mundi skapa kostnað engu minni heldur en ritun ræðanna og prentun. Sem betur fer verða menn hér leiðir á allt of miklu málæði, og mér sýnist hv. dm. hér séu búnir að finna ágætt meðal til þess að drepa í mönnum löngunina til að tala, því það er farið að ganga svo til hér í fundarsalnum, að hann er venjulega hér um bil mannlaus. Það eru aðeins tveir til þrír smáhópar, sem eru þá á aukafundum og tala svo hátt, að ekkert heyrist til þess manns, sem er að tala um hin svokölluðu þjóðmál. Þessi framkoma, sá óþinglegi bragur, alvöruleysið, hirðuleysið og ókurteisin, sem hér er farin að tíðkast í þingsölunum, getur orðið til þess að drepa löngun manna til þess að tala og stytta þannig ræðurnar. Og ef þannig heldur áfram, er ég ekki í vafa um, að kostnaðurinn við prentun umr. verður minni heldur en kostnaðurinn við þau löngu nál. og grg., sem fæðast mundu, ef prentun ræðnanna væri hætt. Þó það séu ekki annað en líkur, sem hægt er að færa fram fyrir þessu, þá eru þær afarsterkar, og ég vildi gefa hv. þm. tækifæri til að hugleiða þetta atriði.

Ég þarf ekki mikið um það að segja, hvað eðlilegt það er að fara að grafa það, sem þm. segja, og firra sig þannig þeirri ábyrgð, sem ætlazt er til, að hver maður beri á orðum sínum, einkum þó þegar það, sem talað er, snertir úrslit málefna alþjóðar; um það hafa aðrir farið svo mörgum orðum. M. a. kom það skemmtilega fram í sambandi við umr. um þetta í hv. Ed., hvað mikilsvert það getur oft verið að hafa þingtíðindin fyrir sér og geta núið því mönnum um nasir, sem þeir hafa áður sagt og gert, því þar kom fram eftirtektarverð áminning fyrir þá menn, sem nú berjast fyrir niðurfellingu umræðupartsins, þar sem voru mjög harðvítug og markvís orð þess sama hv. þm., sem nú berst mest fyrir niðurfellingunni, um slíka till., sem fram kom fyrir nokkrum árum. Hann sagði eitthvað á þá leið, að undirrót þess, að vilja hætta prentun umr. væri hin sama og undirrót þeirra athafna þjófsins að reyna að fela sig og þýfi sitt. Ég vil nú ekki taka svo djúpt í árinni, en það er gott að hafa þingtíðindin fyrir sér, þegar hægt er að slá þannig niður röksemdir manna með þeirra eigin orðum. (TT: Hver er þessi maður?). Það sest í þingtíðindunum, ef þau verða prentuð, annars er það sjálfsagt tilgangurinn, að það verði gleymt og grafið.

Ég get ekki látið hjá líða að minna á það, að frá sjónarmiði sjálfstæðismanna - og segi ég það ekki af því, að ég hafi neitt umboð til þess að segja það fyrir flokksins hönd, heldur tala ég þar út frá mínu persónulega sjónarmiði - hlýtur að vera mikils virði fyrir þá sem minnihl.flokk, sem er í stjórnarandstöðu, að hafa tækifæri til þess að gagnrýna stjórnaraðgerðir og koma áliti sínu á málunum út til almennings. Í lýðfrjálsu landi hljóta vonir manna um að koma hugsjónum sínum í framkvæmd að byggjast á því, að þeir geti unnið sannfæringu fólksins til þess að vera með málstað þeirra. Það er því eðlilegt, að minnihl.-flokkur, sem er í stjórnarandstöðu, leggi kapp á það, að ekki sé lokuð nein af þeim leiðum, sem hann hefir til þess að koma málstað sínum á framfæri. Það verður því að teljast einkennileg afstaða og varfærni svo fágæt, að ég vonast til, að hún sé óvíða til, því hún gæti orðið að slysi, ef minnihl.-flokkur, sem þarf að sækja mál sín og vinna sér fylgi, til þess að geta hrundið þeim meiri hl., sem hann telur, að ekki fari þjóðhollega með málefni almennings, berst fyrir því, að lokað sé fyrir munninn á honum. Þó er svo mikil varfærni, að ég get ekki ímyndað mér, að flokkur stjórnarandstæðinga leggi því lið, að lokað sé fyrir munninn á honum. Ég get ekki hugsað mér, að nokkur flokkur vilji það, því þá má hann hafa litla trú á sínum málstað eða sínum málflutningi. Ég vil ekki segja það, sem haldið hefir verið hér fram áður, að ástæða til þess, að þessi till. er nú fram komin, sé sú, að stj.-flokkarnir vilji sem minnst láta berast út til almennings af því, sem þeir gera, svo að almenningur geti ekki um það dæmt. En hinu verð ég að slá föstu, að það er óeðlilegt hjá stjórnarandstæðingum, ef þeir telja nauðsynlegt að hefta það, að málstaður þeirra komi fyrir eyru og augu almennings í landinu. Það getur komið til greina sérstaklega rótgróin sparnaðarhvöt, og skal ég ekki lasta það, því að full þörf er fyrir slíkt, en hún getur orðið að slysi, ef girða á fyrir það, að hægt sé að hefta þá eyðslukló, sem nú um stund hefir farið með fé og gæði þessa lands.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þennan lið. Það hefir komið fram brtt. við þennan lið, og verður hún borin upp sérstaklega, eftir því sem hæstv. forseti hefir sagt. Ég vænti þess, að eftir atkvgr. í Sþ. að dæma og eftir þátttöku þessarar hv. d. í henni, verði sú brtt., sem gerir ráð fyrir því, að liðurinn sé felldur, samþ. nú í þessari hv. d. Ég treysti því fastlega, að svo verði.

Það eru nokkrir aðrir liðir, sem ég ætla að minnast á. Ég skal lýsa því yfir um 4. lið, sem er um embættiskostnað presta, að ég mun greiða atkv. á móti honum. Það mun vera komin fram brtt. við hann, og er líklegt, að ég muni greiða henni atkv. Ég verð, að segja það, að þó að ég sé ekki einn af þeim, sem biðjast fyrir á gatnamótum, þá þykir mér það merkilegt, hvað andar kalt til prestastéttarinnar hér á hv. Alþ. Ég veit ekki annað en að kjör þau, sem prestar hafa búið við, séu í engu samræmi við þá menningu, ekki sízt fyrr á tímum, sem þeir hafa breitt út meðal fólksins, sérstaklega í fásinninu. Mér finnst það óviðkunnanlegt að klípa af embættiskostnað presta á sama tíma sem þeim með nýjum alögum er gert dýrara að fá þeim stærra verksvið og erfiðari prestaköll. Ég mun því greiða atkv. á móti þessum lið, því að ég tel þessa lúsaleit eftir sparnaði ekki vera í samræmi við þær stóru sneiðar, sem skornar eru af tekjum manna til þess að auka tekjur ríkissjóðs, því tekjuöflunarleiðir ríkisstj. eru knúðar fram með talsvert miklu forsi.

Þá er till. um að selja 3 af skipum ríkissjóðs, varðskipin Óðin og Þór og svo vitabátinn Hermóð. Það væri í rauninni þörf á að tala nokkuð langt mál um þessa till., og einkanlega þyrfti það að vera kröftugt. Hún kemur úr einkennilegustu átt, því ég held, að flestum sé kunnugt um, hvernig stuðningsmenn núv. stj. töluðu um landhelgisgæzluna meðan hún var í höndum Magnúsar Guðmundssonar. Þá var hann níddur í blöðum núv. stj. næstum vikulega fyrir það, að eitt varðskipið af 3 lá venjulega inni á höfn til sparnaðar fyrir ríkissjóðinn. En samt voru tvö skip venjulega í gangi. Þetta átti að vera sú höfuðbók á hendur Magnúsi Guðmundssyni, að hann var í blöðum núv. stj. talinn óalandi og óferjandi til æfiloka fyrir þetta. En rétt eftir að hann hefir sleppt hendi af þessum málum, þá kemur fram till., ekki um það að láta skipin liggja í höfn, heldur blátt áfram um að selja 2 af 3 skipunum. Það hafði ekki vantað, að eftir að fyrrv. ráðh. lét af embætti lægju skipin í höfn á víxl. Og það, sem verra var, var það, að í meðan annað lá í höfn, þá var hitt í snattferðum, svo að engin landhelgisgæzla var viku eftir viku. Það skipti þannig um, eftir alla skothríðina í fyrrv. ráðh. fyrir það, að 2 af varðskipunum væru að starfi, þó að eitt væri látið liggja, að þá var hætt að verja landhelgina. Það var hér eitt danskt skip, og þekkja nú allir, hve röggsamleg sú gæzla er eða hversu ánægjulegt það er, að landhelgin sé varin undir dönskum fána. En svo á að bæta því ofan í þetta, að nú á að selja skipin. Það var samþ. þál. í þá átt, svo að þetta er í samræmi við hana, en það er jafnfjarstætt fyrir því. Það væri meiri mannræna í, að stefna að því að samþ. till. um það, að Íslendingar tækju landhelgisgæzluna alveg í sínar hendur af Dönum, heldur en að ætla nú eftir öll svigurmælin að bíta höfuðið af skömminni með því að ætla að farga 2 skipunum, og hafa aðallega skip undir dönskum fána til landhelgisgæzlu. Fyrir 18 árum semdu Íslendingar um það við Dani, að þeir skyldu sjálfir taka landhelgisgæzluna að nokkru eða öllu leyti í sínar hendur, þegar Alþ. samþ. það. Þá áttu Íslendingar ekkert varðskip, þegar þeir gerðu þennan samning við Dani, en nú eiga þeir 3. Það er einkennilegt, að ég held, að það hafi aldrei verið ríkari tilhneiging í huga ráðandi manna heldur en nú til þess að hafa skip undir dönskum fána til þess að verja landhelgina. Allir vita þó, að slík gæzla, undir sömu stjórn og verið hefir, gæti aldrei komið nema að litlum notum, því Danir hafa ekki þau tek í landhelgisgæzlunni sem okkar skipstjórar hafa haft. Ég get ekki séð, að þessi mikla löngun til þess að hafa landhelgisgæzluna undir dönskum fána stafi af öðru en því, að þessir sömu menn hafi sérstaka andlega fullnægingu í því, að útlend þjóð hafi lögregluvald hér í landi. En fyrir þá menn, sem eru dálítið þjóðræknislega sinnaðir, er þetta mjög særandi. Ég get sagt fyrir mig, að þó að mér þyki ekkert á móti því, að þeir menn, sem brjóta landhelgislögin, séu dregnir fyrir lög og dóm, þá þykir mér það ekki ánægjulegt að sjá íslenzk skip tekin af útlendu valdi. Ég hefi séð danskan dáta ganga vopnaðan um þilfar ísl. skips og horfa á íslenzka skipstjórann eins og glæpamann. Við þekkjum nú svipinn í Dönum, þegar þeir hafa hremmt slíka bráð. Það er ekki lítið ánægjulegt fyrir Íslendinga, þegar þeir eru búnir að selja íslenzku skipin að horfa á danska dáta standa með byssur yfir höfðum íslenzkra heiðursmanna. Ég vona, að þessi till. verði þessu óskapnaðarfrv. að hana, þó að það verði nú ekki annað.

Ég ætla svo ekki að gera fleiri liði að sérstöku umtalsefni, þó að full ástæða hefði verið til þess. Um síðustu till., sem er um kvennaskólann í Rvík, skal ég líta mér nægja að segja það, að ég er á móti þeim lið, og tel það alveg merkilegt, að hv. Ed. skuli telja það sóma sínum samboðið að samþykkja annað eins, og vænti þess, að þessi hv. d. verði vandari að sóma sínum.