19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (3127)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Eiríkur Einarsson [óyfirl.]:

Ég ætla að drepa á tvo liði þessara till., og álít ég þá báða skipta miklu máli. Annar er prentun þingtíðindanna. Þegar greidd voru atkv. um þennan lið við 2. umr. fjárl., þá var ég einn af þeim, sem greiddu atkv. gegn niðurfellingu á prentun á umræðuparti þingtíðindanna. Það gerði ég þó ekki af því, að ég áliti, að þetta skipti ríkissjóð engu, því að vitanlega yrði þessi prentunarsparnaður talsverður, heldur af öðrum ástæðum, sem ég met meira en þennan sparnað, og skal ég ekki endurtaka þær ástæður nú. En ég vil minnast á eitt atriði, sem ég lét skipta mjög miklu máli í þessu efni, og það er gildi umræðuparts þingtíðindanna fyrir framtíðina, svo framarlega sem hún lætur sig nokkru skipta rannsókn á pólitískri sögu þjóðarinnar. Nú á tímum verjum við fé úr ríkissjóði til þess að vernda frá glötun ýms forn gögn og skjól, sem varða sögu þjóðarinnar og við teljum ómissandi sagnfræðilegar heimildir. Hvað gæti þá verið því til fyrirstöðu, að framtíðin líti sömu augum á þetta mál eins og við nú gerum? Er ekki sennilegt, að umræðupartur þingtíðindanna verði, engu síður en nú, merkilegt rit með tilliti til pólitískrar sögu þjóðarinnar? Þegar tekið er tillit til þessa sjónarmiðs, álít ég mikils virði að vernda umræðupart þingtíðindanna frá glötun.

Þá hefir og á það verið bent, að ríkisprentsmiðjan myndi óhjákvæmilega bíða fjárhagslegt tjón við að missa þetta starf. Það viðurkenndi hæstv. fjmrh. líka. Ég vil því spyrja: Er ekki skynsamlegt að gera samning um þetta mál, fara hér milliveg, og fá prentsmiðjuna til að inna þetta starf af höndum fyrir lægra gjald en verið hefir? Slíkt hefir oft viðgengizt, þegar um deilumál hefir verið að ræða, og gefizt vel. Læt ég svo útrætt um þennan lið, og samkv. því, sem ég hefi tekið fram, þá treysti ég mér ekki til að ljá atkv. mitt með þessum sparnaði.

Þá er eitt enn, sem ég vildi minnast á, en það er lækkunin til landbúnaðarframkvæmda. Þó að hinir ýmsu liðir frv. feli í sér nokkra lækkun til þeirra framkvæmda, eins og t. d. lækkun á framlagi til verkfærakaupasjóðs og lækkun til búfjárræktar, þá tel ég samt, að takmarkanir í kaupum á erlendum áburði muni geta haft hvað alvarlegastar afleiðingar. Ég held hreint og beint, að Alþingi geti ekki réttlætt þá lækkun, þegar litið er til annara gerða þess. Það afgreiðir hin gjaldahæstu fjárlög, sem nokkru sinni hafa verið afgr. frá Alþingi, og leggur á geysiháa nýja skatta, sem nema hundruðum þúsunda. Þá er býsna hart, að það skuli ganga inn á þá braut, að fara að lækka styrk til jafnnauðsynlegs hlutar sem ræktunar landsins. Að till. þessi hefir komið fram, hlýtur að vera sökum þess, að ekki hefir verið nægilega rannsakað, hver áburðarþörfin sé í raun og veru hjá okkur. En um það mun hinsvegar ekki deilt, að búpeningsáburður landsmanna er ekki svo mikill, að hann dugi einvörðungu til fitunar jörðinni, bæði því landi, sem þegar hefir verið ræktað, og einnig til aukinnar ræktunar. Frá mínu sjónarmiði séð lét ég þessa lækkun í styrk til áburðarkaupa mjög misráðna, m. a. sökum þess, að bændur hafa þegar notað tilbúinn áburð um nokkurt skeið, og eru því farnir að miða ræktun sína við notkun hans að meira og minna leyti. Eigi því að fara að drags úr styrknum til áburðarkaupanna og knýja bændur að einhverju leyti til þess að draga úr notkun áburðarins, og um leið að draga úr auknum ræktunarframkvæmdum, væri það sama og kallað er í sveitinni að gefa til hors.

Ég vil svo að síðustu endurtaka það, að af öllum styrkjum til búnaðarframkvæmda lét ég, að síðast megi skerða styrkinn til áburðarkaupanna, svo fremi menn hugsa að vernda afkomumöguleika bandanna. Hver sá, sem vill telja sig fulltrúa bændastéttarinnar hér á Alþingi, má síðast grípa til þess úrræðis.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég taka það fram að því er snertir sparnað við þinghaldið, að mér virðist, að Alþingi ætti fyrst og fremst að reyna að spara sjálft, eyða ekki allt af miklum tíma í þinghaldið. Það munar t. d. miklu, hvort prentuð eru þingtíðindi eftir tveggja mánaða þinghald eða eftir þinghald allan þann óratíma, sem Alþingi hefir átt setu nú. Nú liggur fyrir þinginu frv. til laga um breyt. á þingsköpum Alþingis, sem ég skal ekki fara að ræða nú. Hvort þau ákvæði, sem frv. það hefir að geyma, geti orðið til þess að stytta þingtímann, skal ég ekkert segja um á þessu stigi málsins, en hitt lét ég, að þingtíminn geti verið styttri, og prentunarkostnaður Alþt. Þá mun minni en hann er nú.

Skal ég svo ekki að svo stöddu fara lengra út í þetta mál, en vænti, að þessar bendingar mínar megi verða til athugunar framvegis.