19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (3128)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég mun að miklu leyti láta nægja að sýna með atkv. mínu afstöðu mína til ýmsra liða bandormsins. Þessi ormur mun vera einn sá undarlegasti hlutur, sem sézt hefir hér á Alþingi, og er því ekkert undarlegt, þó að mönnum verði tíðrætt um hann. Það eru þó aðeins tvö atriði, sem ég vildi minnast á í þessu sambandi. - Eins og frv. hér með sér, er farið fram á, að seld verði tvö varðskipin, Þór og Óðinn, en við það hefir verið flutt brtt. Eins og ég tók fram undir umr. um heimild fyrir stj. til að selja varðskip þessi, þá taldi ég það hið mesta óráð, og ég vil endurtaka það nú, hvers vegna ég lét misráðið að selja þessi skip. Hvað Þór snertir, þá hefir hann, sem kunnugt er, björgunarstarfsemi með höndum ásamt landhelgisgæzlunni, og hefir reynzt vel, a. m. k. eftir því, sem við var að búast. Óðinn er aftur á móti miklu dýrara skip, og mun erfitt að fá gott verð fyrir hann, því að það mun nú vera svo, að þar, sem slíkir strandvarnarbátar eru notaðir sem Óðinn, þá er farið að hafa þá með dieselvél. Óðinn myndi því þykja of dýr í rekstri til slíkra hluta. Ég held því, að það yrði betri lausn á þessu máli, sem hv. 3. þm. Reykv. benti á, að láta bíða með sölu á Óðni nú fyrst og sjá, hverju fram yndi, heldur en fara að rjúka til og selja hann nú fyrir mótorbáta, og það án efa fyrir mjög lágt verð.

Hvað Þór snertir, þá kom hann sem kunnugt er í staðinn fyrir gamla Þór, tók við hans starfi, og hefir reynzt hentugur til þess. Það er nú að vísu svo, að Ægir á ekki að selja, hann á að verða eftir og taka við störfum hinna skipanna. En ég býst við, að ekki verði gott að staðbinda hann á sama hátt og t. d. Þór á vetrarvertíðinni við Vestmannaeyjar. Hann hefir t. d. sérstök björgunartæki og hefir verið notaður af stjórninni til þess að bjarga skipum, sem hann hefir oft verið bundinn við svo vikum skipti. Ég gæti t. d. búizt við, að það þætti súrt í brotið, ef togari strandaði austur með Söndum, að Ægir væri bundinn við Vestmannaeyjar, við það starf, sem Þór hefir nú, og gæti hvergi farið. Í slíku tilfelli myndi það áreiðanlega verða úr, að skipið færi austur til björgunartilrauna, en engin björgunarstarfsemi verða við Vestmannaeyjar á meðan, hvað sem fyrir kynni að koma.

Það hefir mikið verið rætt um, að í stað varðskipanna ættu að koma mótorbátar til gæzlunnar, og hv. þm. Borgf. talaði langt mál um það, að í framtíðinni ætti að sameina landhelgisgæzluna og björgunarstarfsemina. En þetta út af fyrir sig er ekkert nýtt mál. Það er þegar orðið langt síðan við töluðum um þetta í Vestmannaeyjum, enda munum við hafa verið manna fyrstir til þess að vekja máls á þessu. Í þessu sambandi verður að gæta þess, að þau skip, sem ætlað er að hafa eftirlits- og björgunarstarf samhliða, verða jafnan að hafa mikla yfirburði yfir hin, sem þau eiga að vera til aðstoðar. Að halda að smámótorbátar geti veitt hjálp eða bjargað skipum, sem eru miklu stærri en þeir eru sjálfir, er hinn mesti misskilningur. Og hvað gæzluna snertir, þá held ég, að varla geti orðið tiltækilegt að nota vélbáta til gæzlunnar nema á flóum og fjörðum, þar sem þeir geta leitað hafnar þegar þörf krefur. Þau skip, sem björgunarstarfsemi eiga að hafa með höndum, þurfa helzt að hafa sterka gufuvél og vera að öðru leyti vel útbúin. Ég held því, að það sé misskilningur og jafnvel hin mesta fjarstæða að halda, að hægt sé að sameina björgunarstarfsemina og landhelgisgæzluna með því að hafa mótorbáta, og þá sérstaklega fyrir Suðurlandi og við Vestmannaeyjar á vetrarvertíðinni. Um björgunarstarfsemina við Vestmannaeyjar á vetrarvertíðinni er það að segja, að hún er alls ekki fyrir Vestmanneyinga eina, heldur njóta fleiri og færri héruð góðs af henni, því að þau 1600 manna, sem sjó stunda við Vestmannaeyjar á vetrum, eru ekki svipað því allir þaðan, heldur eru þeir komnir til Eyja frá svo að segja öllum héruðum landsins.

Síðan Vestmannaeyjar gerðu samningana við ríkisstj. 1926, um björgunarstarfsemi við Vestmannaeyjar, hefir allt staðið heima frá stjórnanna hálfu. Að vísu vildi hv. þm. S.-Þ., sem var ráðh. þegar gamli Þór fórst, láta þá hætta björgunarstarfseminni, en þingið tók þá svo rækilega í taumana, að skoðanir hans í þessu efni biðu algerlega lægri hlut. Nei, björgunarstarfsemin við Vestmannaeyjar má ekki leggjast niður, hún er svo þýðingarmikil, og það sannast, að enda þótt sumir haldi, að björgunar- og eftirlitsstarfsemina megi sameina, þá verður slíkt aldrei framkvæmanlegt með Ægi einum.

Ég skal svo ekki eyða miklu meiri tíma í þetta, þó aldrei nema um þessa hluti megi mikið segja, þar sem það kom líka fram í ræðu hæstv. fjmrh., að þessir 4 mótorbátar, sem hugsað er að nota til gæzlunnar, eiga ekki alltaf að starfa allir, heldur jafnvel einn í einu. Það er því alveg bersýnilegt, að ef varðskipin verða seld, þá verður stórkostleg afturför í landhelgisgæzlunni frá því, sem nú er.

Þá mun það og sannast, að verði t. d. Óðinn seldur, þá mun ekki fást það verð fyrir hann, að það bjargi fjárhag ríkisins hið minnsta. Hann verður aldrei seldur eins og nú standa sakir, nema fyrir „slikk“verð, en það kalla ég, þó að fyrir hann fengjust 150-200 þús. króna. Hvað Þór snertir. þá mætti kannske smyrja honum út fyrir fiskiskip, en þó fyrir lágt verð, því að skipið er orðið gamalt, og myndi því þykja úrelt. Það, sem fyrir hann fengist, myndi því aldrei hossa háu fyrir ríkissjóðinn.

Þegar Hermóður var keyptur, var hann orðinn gamalt skip, og ekki hefir hann yngzt síðan. Þó að hann væri seldur, tel ég allt öðru máli gegna en um hin skipin. Í sambandi við það, sem ég nú hefi sagt, höfum við hv. þm. Snæf. leyft okkur að bera fram skrifl. brtt., svohljóðandi: „Alþingi heimilar ríkisstj. að selja eða leigja skipið Hermóð með þeim kjörum, sem bezt eru fáanleg“.