19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (3131)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Árn. getur séð það á andliti mínu, ef hann lítur á mig, hvernig ræða hans hefir verkað á mig. Mér þykir gaman að því að hafa orðið til þess að lyfta undir andríki hæstv. forseta. Mér virtist ræða hans, að því leyti sem hún sneri að mér, gera mönnum mjög létt í skapi, enda held ég, að aðalerindi hans í ræðustólinn hafi verið það að víkja sínu máli til mín. Honum varð mjög tíðrætt um þessi orð, sem ég lét falla, að mér virtist kenna nokkurs yfirlætis hjá honum með þessari brtt. sinni, og fór hann þar að sið prestanna, sem velja sér texta til þess að leggja út af. En það, sem ég átti við með þessum orðum, var það, að ég þóttist fá nokkra sönnun fyrir því, eftir að hæstv. fjmrh. hafði talað, að nú væri stjórnarliðið búið að koma sér niður á hið endanlega form til afgreiðslu þessa frv., sem byggðist á því að skera af því 1/4 part af innihaldi þess, að liðatölu til, og mér virtist, eftir því sem áframhaldið kom hjá hæstv. forseta, að harm ætlaði að leggja þessa till. til grundvallar fyrir atkvgr. hinna till. Ég gat því ekki varizt því að líta svo á, að í þessu fælist nokkurt yfirlæti. Ég skal ekki fara neitt frekar út í þetta; ég ann hæstv. forseta allrar sæmdar af því að hafa sýnt þingheimi það, hversu mikil málsnillingur hann er og hversu andríki hans er ótakmarkað.

Þá gerði hæstv. forseti sér far um að kafa djúpt í sinni orðgnótt og hugsanaauðlegð til þess að snúa út úr minni till. og vildi komast að þeirri niðurstöðu, að ef ætti að skilja hana bókstaflega, þá ætti Ægir að vera alstaðar nálægur, þar sem einhverjir af þessum bátum væru, og þó þeir væru allir úti samtímis. Hæstv. forseti komst þarna svo langt í því að feta í fótspor prestanna, að hann ekki aðeins valdi sér texta til þess að leggja út af, heldur vitnaði hann í guð almáttugan og heilaga þrenningu. Ég skil satt að segja ekkert í þessu. Hæstv. forseti er óvanur því að færa úr lagi rétta hugsun og sæmilega framsetningu, eins og er á þessari till. minni. Ég held, að þetta hljóti að vera einhverjar eftirstöðvar frá því, að við deildum hér á dögunum um till., sem hann var flm. að, og ég var harðorður um, að ekki væri góður frágangur á. En hæstv. forseti viðurkenndi það strax með því að láta meðflm. sinn bera fram brtt. á orðalagi þessarar till. Þetta hefir víst átt að vera nokkurskonar borgun til mín fyrir það, sem hann hefir álitið, að ekki væri að fullu upp gert okkar á milli út af þeim viðskiptum, og eins og ég ann honum ánægjunnar út af hans andríki, eins ann ég honum þeirrar ánægju að hafa nú að fullu kvittað fyrir það, sem hann kynni að hafa átt eftir að kvitta við mig út af þeim viðskiptum.

En ég held, að það sé fullskýrt í minni till., hvað meint sé með henni. Ef hin skipin eru seld þá er vitanlega Ægir eftir, og það, sem ég meina, er það, að til viðbótar við starf Ægis séu 4 bátar og að starfsemi þeirra sé raðað niður eftir því, sem þörf er fyrir þá á hverjum stað. Hitt er vitanlega alls ekki hægt - eins og hæstv. forseti veit - að ákveða Ægi neinn stað. Það verður vitanlega að fara eftir þörfinni á hverjum tíma og eftir því, sem skipstjórinn álítur í samræði við þá menn í landi, sem hafa yfirstjórn landhelgisgæzlunnar á hendi. - Ég held, að ég hafi þá gert full skil á þessari till. minni. Það kann að vanta einhversstaðar kommu í hana, til þess að greina á milli, en það er náttúrlega ekki gott fyrir hæstv. forseta að dæma um það, hvort það er frá minni hendi, sem hefi skrifað þessa till., eða þeirra, sem prentuðu hana og lásu prófarkir.

Þá var það hæstv. fjmrh., sem vék að mér nokkrum orðum áðan. Ég heyrði því miður ekki allt, sem hann sagði, því ég átti annríkt við undirbúning brtt. við annað mál heldur en það, sem hér er til umr. En út af þeirri fyrirspurn, sem hann beindi til mín. hvernig bæri að skilja mína till., þá get ég skírskotað í því efni til till., sem liggja fyrir bæði hér á Alþ. og stjórnarráðinu frá þeirri n., sem kosin var á síðasta þingi til þess að gera till. um landhelgisgæzluna. Þar sem þetta liggur fyrir í stjórnarráðinu, þá getur hæstv. ráðh., ef hann vill kynnast þessu nánar, séð, hvað í þessum till. mínum felst um þetta atriði, en það er það - án þess að taka nokkuð til um tímalengdina, - að haga starfsemi þessara báta þannig, að þeir séu við landhelgisgæzlu á þeim tíma við strendur landsins og á þeim stöðum, þar sem fiskveiðar eru stundaðar, og að starfsemi þeirra sé einkum miðuð við þann tíma, sem aðalvertíðin er á hverjum stað.

Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta. Það má vel sem, að eitthvað hafi komið fleira fram, sem ég ekki heyrði, en ég læt það þá niður falla.