19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2179 í B-deild Alþingistíðinda. (3132)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Thor Thors:

Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. muni síðar verða álitið eitt af furðuverkum þessa þings, þó að þar megi eflaust finna hvert furðuverkið öðru merkilegra, þegar fram líða stundir og reynsla tímans er á fallin. Eitt þeirra var frv. til l. um bráðabirgðabreyt. nokkurra l. í 8 liðum, sem lagt var fram á fyrri hluta þessa þings. Nú á að bæta þar við nærri bráðabirgðabreyt. í 16 liðum um óskyldustu efni. Lagabreytingin, sem samþ. var á fyrra hluta þingsins, fjallaði m. a. um bifreiðaskatt og tóbak. Nú á að bæta við prestum, kvennaskólanum, tilbúnum áburði, búfénaði o. s. frv. Hér er hrúgað saman í eitt frv. brtt. um svo að segja allt milli himins og jarðar. Hefir verið á það bent af ýmsum hv. þm., hve óviðurkvæmilegt það er að blanda þannig saman óskyldustu málum, að láta brtt. við margskonar l. koma fram sem brtt. við einstakt frv.

Ég ætla nú ekki að fara að ræða um alla þessa 16 liði, vil aðeins minnast á fáein atriði, til þess að gera grein fyrir atkv. mínu. 3. liðurinn er um það að fella niður prentun á umræðuparti Alþt. Árin 1935 og 1936. Ég er þessu algerlega mótfallinn. Það er látið í veðri vaka, að þetta eigi aðeins að vera bráabirgðabreyt. En reynslan af þeim bráðabirgðabreyt. á l., sem gerðar hafa verið undanfarin ár, hefir verið sú, að þessar breyt. hafa verið teknar upp aftur frá ári til árs. Nær allar breytingarnar frá fyrra hluta þessa þings hafa verið endurtekningar á bráðabirgðabreytingum frá 1933. Og ég er hræddur um, að eins myndi fara um þetta atriði, að haldið yrði áfram að framlengja breytinguna.

Þetta myndi því ekki vera annað en fyrsta sporið að því að hætta með öllu prentun þingtíðindanna og loka þar með að miklu leyti þinginu fyrir þjóðinni. Þetta væri því stórkostlegt spor í afturhaldsátt, ef fram næði að ganga. Alþingi hefir nú staðið hér frá því 1845, en þótt oft hafi á þeim tíma árað illa hjá íslenzku þjóðinni, hefir aldrei verið sýndur slíkur vesaldómur og kotungsháttur, að ástæða hafi þótt til að varna þjóðinni að fylgjast með því, sem gerzt hefir á Alþingi. Nú ætla svokallaðir framsóknarmenn að fara að innleiða þetta nýja tímabil. ýmsum óhlutvöndum mönnum kann að vísu að koma það vel, að ekki sé hægt að sýna skjallega, hvað sagt hefir verið á Alþingi, og þeir hlakka eflaust til, ef þessi breyting skyldi komast á. En það fer illa á því, að þeir, sem þykjast vilja halda á lofti lýðræðishugsjóninni, skuli gerast forgöngumenn að lokun Alþingis. - Þó að sporið væri né ekki stigið allt til að byrja með og haldið áfram að skrifa ræðurnar, þá væri það lokuð bók öllum almenningi, og jafnvel líka þm. að miklu leyti. Það er reyndar sagt, að þeim fækki, sem þingtíðindin lesa, og efast ég ekki um, að það sé rétt, en þó eru áreiðanlega fjölmargir menn hér á landi, sem ánægju hafa af því að fylgjast með því, sem á Alþingi er sagt. Og það verður að segja, að prentuð þingtíðindi eru til ómetanlegs gagns í stjórnmálabaráttunni, ekki sízt hér á landi, þar sem mönnum hættir svo mjög til útúrsnúninga og rangfærslu. Lokun Alþingis myndi því stuðla mjög að því að færa stjórnmálabaráttuna hér heima í átt skrælingjaháttarins. Ég mun því hiklaust greiða atkv. gegn þessu tilræði við lýðræðið, sem till. felur í sér, eins og ég greiddi atkv. á móti till. um að hætta að skrifa ræðurnar.

Þá er 4. liður þessa frv., sem fer fram á að spara að nokkru leyti við prestastéttina greiðslu embættiskostnaðar, að fresta að nokkru framkvæmd l. nr. 36 frá 1931. Þar segir í 1. gr.:

„Sóknarprestar frá greiddan ferða- og skrifstofukostnað embættis síns, með 500 eða 700 kr. hver, og fer upphæðin eftir stærð prestakalla, erfiðleikum og kostnaði við þjónustu þeirra.“

Hér er um að ræða örlitla launauppbót hjá þeim starfsmönnum ríkisins, sem einna lægst eru launaðir, og er þó ekki hægt að kalla þetta hreina launauppbót, þar sem prestar hafa oft mikinn kostnað af ferðum og skrifstofuhaldi. Sjá allir, hver höfðingsskapur felst í því að ætla að klípa þannig nokkrar krónur af prestum, þeirri stétt, sem einna smánarlegast er launuð af starfsmönnum þjóðfélagsins. Það getur verið, að ýmsir hv. alþm. séu á móti launagreiðslum til presta, en þá væri karlmannlegra og heiðarlegra að koma með till. uni að afnema alveg prestastéttina. Það væri a. m. k. ákveðin stefna. En hér er verið að vega aftan að ákveðinni stétt manna. Það er ekki ástæða til að þessu sinni að fara til í almennar umr. um prestastéttina eða það, sem hún hefir unnið í þágu íslenzkrar menningar. En ég held, að þeir, sem vilja leggja til atlögu við prestastéttina, ættu að fresta atlögunni, þangað til þeir geta vegið stærra en gert væri með því að samþ. þessa till.

Þá er liðurinn, sem snertir landhelgisgæzluna.

Hv. þm. Vestm. hefir rætt allrækilega um brtt., sem við berum fram sameiginlega við þennan lið. Við viljum ekki, að varðskipin séu seld. Það þótti ekki svo lítill viðburður, þegar þjóðin eignaðist varðskip, ekki sízt meðal sjómanna. Hvert varðskip þótti nýr fengur og vegsauki, tákn þess, að þjóðin væri að verða sjálfri sér nóg. Nú vilja framsóknarmenn stíga spor í þessu máli, ekki fram, heldur aftur, þeir vilja fækka varðskipunum og taka upp smábátarekstur í staðinn. Mun síðar verða litið svo á, að hér sé verið að stíga spor til vansæmdar, sem orðið geti þjóðinni dýrt. Það er öllum vitanlegt, að smábátar geta ekki í óveðrum og stórsjó, sem oft geisar hér við strendurnar, annast gæzluna á við eimskipin. Alþingi eru alltaf að berast óskir frá sjómönnum um bætta landhelgisgæzlu. Það verður því að teljast einkennilegt svar, sem Framsókn er að veita sjómönnum með þessari till., og því einkennilegra, ef þess er gætt, að meðan andstæðingar framsóknarmanna fóru með stjórn, voru þeir látlaust svívirtir fyrir að halda ekki uppi nógu öflugri landhelgisgæzlu. Ef það kom fyrir, að varðskipin urðu að liggja í höfn lengur en venja var til, voru stöðug klögumál í blöðum þeirra. En slíkar eiga svo að verða aðgerðir þeirra, sem nú fara með völdin.

Þá er 16. liður þessarar halarófu um kvennaskólann í Rvík. Þar er verið að gera tilraun til að leggja hann að velli, án þess að nokkuð hafi verið ráðgazt um við skólastjórnina. Skólinn hefir nú starfað í 60 ár, og verður ekki um það deilt, að hann hefir átt mikinn þátt í því að mennta íslenzku kvenþjóðina. Flestum sanngjörnum mönnum mun þykja leitt, ef þessi stofnun verður niður lögð, en með þessari till. er beinlínis stofnað til þess. Ég vænti þess, að þeir hv. þm. verði ekki margir, sem greiða þessari till. atkv. sitt.

Um einstaka liði þessa frv. mætti margt fleira segja, en flest af því hafa aðrir þegar tekið fram. Ég vil aðeins láta það álit mitt í ljós að lokum, að slík afgreiðsla mála sem þessi muni verða þinginu til lítils sóma. Ég hygg, að slíkur sparðatíningur og nánasaháttur geti ekki orðið Alþingi til annars en vansæmdar.