27.11.1935
Neðri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (3162)

190. mál, málning úr íslenzkum hráefnum

Frsm. (Guðbrandur Ísberg) [óyfirl.]:

Frv. þetta er flutt af iðnn. og gengur út á það, að tveim tilteknum málarameisturum verði veitt einkaleyfi um næstu 5 ár til að vinna málningu úr íslenzkum hráefnum. Vil ég í þessu sambandi geta þess, að til landsins munu nú vera fluttar málningarvörur fyrir um 1/2 millj. kr. í ári. Það er augljóst, að það væri ákaflega æskilegt, ef hægt væri að losna við þennan innflutning að sem mestu leyti. Það er að vísu ekki hægt að búast við, að þetta takist fljótt, eða að þeim mönnum, sem lagt er til hér, að veitt verði einkaleyfi þetta, takist það í næstu á árum að framleiða málningarvörur þær, sem við þurfum að nota. En þessi viðleitni getur orðið spor í þá átt að gera þjóðina óháða erlendum innflutningi á þessum vörum.

Talið er víst, að hér á landi finnist ýms litunarefni í jörð, steinefni, sem megi nota til framleiðslu á málningarvörum. Það er æskilegt, að hafizt verði handa sem fyrst í þessu augnamiði, og þetta frv. er borið fram til þess að gera tilraun í þá átt og gefa tilteknum mönnum, sem hafa áhuga á málinu, tækifæri til þess að koma þessum iðnaði af stað.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Það miðar í áttina til þess, að við getum orðið sjálfum okkur nógir, og ég vænti, að þeir, sem bera iðnaðinn fyrir brjósti, fylgi þessu frv.