19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2196 í B-deild Alþingistíðinda. (3177)

190. mál, málning úr íslenzkum hráefnum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég skal ekki teygja mikið lopann, en eftir því, sem mér hefir skilizt, þá hefir verið upplýst, að þeir Pétur Guðmundsson og Trausti Ólafsson efnafræðingur hafi þegar flutt inn vélar, svo miklar, að þær myndu að mestu leyti vera fullnægjandi til að vinna málningu fyrir allt landið, og þær þyrftu ekki nema litla viðbót til að vinna málningu úr íslenzkum efnum. Ég álít, að það væri skaði, ef tveir keppinautar fara að vinna að þessu, svo að hvorugir hefðu kannske nóg að gera og yrðu að reka fyrirtækið með skaða eða selja vöruna með óviðunandi háu verði.

Það er upplýst, að samningsumleitanir hafa farið fram milli þessara tveggja aðilja. Eftir því, sem ég hefi komizt næst, hafa verið gefnar gagnkvæmar yfirlýsingar af aðiljum, sem er byrjun að samkomulagi þeirra á milli. Því álít ég rétt, að í þessu máli sé gert eitt af tvennu, að taka upp nöfn þessara 4 manna í frv., sem veita á einkaleyfið, eða fresta umr. um málið til morguns. Á þeim tíma álít ég, að þessir aðiljar gætu lagt fullan grundvöll undir samninga uni málið, eða mætti ef til vili sleppa hjá því að veita leyfið öðrum en þessum tveim leyfishöfum. Þó að farinn sé að styttast þingtíminn, þá ætti þessi frestur ekki að verða til skaða. Það mætti veita afbrigði um málið, svo að ekki þyrfti að stöðva það þess vegna.

En það var eitt atriði hjá hæstv. forsrh., sem ég vildi aðeins víkja að. Hann sagði, að þó Alþingi veitti leyfið, þá mætti neita um innflutningsleyfi á vélunum. Mér skilst, að þetta sé árekstur, því að um leið og Alþingi veitir mönnunum þetta leyfi, þá ætlast það til, að þeir geti notið leyfisins. Hitt væri að taka það aftur með annari hendinni, sem veitt er með hinni.

Ég tek það fram aftur, að ég held heppilegast að fresta umr. og vita, hvort ekki lægi fyrir heppilegri grundvöllur á næsta degi.