19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2198 í B-deild Alþingistíðinda. (3179)

190. mál, málning úr íslenzkum hráefnum

Frsm. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Ég get verið hv. 1. þm. Reykv. þakklátur fyrir þá umhyggju, sem hann sýndi mér í sinni ræðu fyrir það andstreymi og þá baráttu, sem ég hefði lent í. Ég býst við, að hann kippi sér ekki upp við, því hann mun hafa heyrt það áður, að laun heimsins eru vanþakklæti, og svo mun líka verða nú. En það fór fyrir hv. þm. nú sem oftar, að það er erfitt að vita, hvað hann meinar. Síðar í ræðu sinni sagði hann, að þetta væri ekki hættulegt, ég væri svo sterkur á svellinu, að ég skipti ekki um skoðun, þó að reynt væri að hafa áhrif á mig, enda væri svo yfirleitt með þm., að þeir létu ekki agitera í sér. En því er þá framkvæmd þessi agitation, ef það er ekki til þess, að hún hafi einhver áhrif? Er hún þá bara spaug? Ég held hv. þm. hljóti að skilja, að áróður er gerður í einhverjum tilgangi og til þess að hafa áhrif. Að öðru leyti kom hv. þm. inn á efni frv. og taldi, að hann væri á móti frv., því að það væri svo víðtækt. Ég get ekki séð, að það sé rétt. Frv. gefur ekki einkarétt til annars en vinna efni úr íslenzkum jarðvegi. Það er tekið fram í 2. gr. þess, að meðan leyfistíminn standi, hafi ekki aðrir heimild til að vinna þessi efni úr jörðu í þeim tilgangi að vinna úr þeim málningu til sölu. Það er því öllum heimilt að vinna þau úr jörðu, og nota þau til málningar meira að segja, en þeir mega bara ekki selja hana. Þetta er svo takmarkað sem hægt er, ef á að vera einkaleyfi á annað borð.

Að því leyti, að þetta snerti nokkurn hlut þau fyrirtæki, sem vildu vinna málningu úr erlendu efni, þá er það langt frá, að svo sé. Þetta hefir ekki nokkur áhrif á önnur fyrirtæki, eins og t. d. Málarann. Hið eina, sem hér er gert, er að gefa þeim mönnum, sem hafa fengið einkaleyfið, stuðning til að halda áfram tilraunum í þessu efni. Hinsvegar ef bætt er við nöfnum þessara tveggja manna, forstjóra Málarans og Trausta Ólafssonar, þá er vitanlegt, að einkaleyfið yrði nokkuð víðtækara, því að þeir ætla að hafa með höndum talsvert fleira. Ég sé því ekki ástæðu til að bæta nöfnum þeirra við í frv. Þeir geta átt um það sín á milli, hvort þeir vilja gera með sér félagsskap um einkaleyfið, þannig að aðrir leggi til vinnsluna, en hinn aðilinn áhöldin til að koma á fót fullkominni málningarverksmiðju.

Að því er snertir till. hv. þm. Dal. um að fresta umr. um málið, þá sé ég ekki ástæðu til þess. Vilji hann koma með brtt. við frv., er það nógur tími við 3. umr. Ég álít hyggilegast að ljúka umr. nú, en svo er opin leið fyrir hann og aðra að koma með brtt. við 3. umr.