19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2200 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

190. mál, málning úr íslenzkum hráefnum

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki deila lengi um þetta mál; það eru örfá atriði, sem ég þarf að svara. Hv. 1. þm. Reykv. benti á, að það væri ósamræmi í að veita einkaleyfi í fyrra fyrir vikurvinnslu, ef svo ætti að neita um annað nú, en síðan samþ. þetta. (MJ: Ég var ekki með því). Við skulum athuga ósamræmið í þessu. Í öðru tilfellinu, þegar um vikurinn var að ræða, var einkaleyfið veitt manni, sem sérstaklega hafði unnið mikið að þessu máli undanfarið, og þeirri stefnu hefir verið haldið að láta menn fá einkaleyfi um stuttan tíma. Í hinu tilfellinu var maður, sem sótti um einkaleyfi til að starfrækja aðferð, sem húsameistari ríkisins hafði fundið upp, og hann var, í vafa, hv. þm., hvort rétt væri að láta það daga uppi. Ég tel engan vafa, hvað er rétt í þessu efni. Það var rétt, og er rétt, að láta það daga uppi, af því það er í fyllsta samræmi við þá stefnu, sem haldið hefir verið, en alls ekkert í samræmi að veita manni einkaleyfi til að starfrækja aðferð, sem embættismaður ríkisins hefir fundið upp. Þá er annað atriði, hvort ekki muni hægt að sjá, hvað mikið er notað af innlendu efni, þó það sé framleitt hér. Því er til að svara, að það er mjög auðvelt að fylgjast með því af innflutningsskýrslunum, og ef innflutningurinn minnkar ekkert, þá er auðséð, að einkaleyfið er ekki notað. Það var fært fram af hv. 1. þm. Reykv., að þetta væri of víðtækt leyfi. En hverskonar röksemd er það að ef tveimur mönnum er bætt við í þetta einkaleyfi, þá eru allir gallar roknir út í veður og vind og sjálfsagt að flýta fyrir málinu með því að veita afbrigði? Eða m. ö. o. síðari hluti ræðu hv. þm. hrakti öll þau mótmæli, sem komu fram í fyrri hluta hennar, en aðalrökin áttu að vera þau, hvað einokun væri hættuleg. Auðvitað sér þessi hv. þm. enga hættu við hina dásamlegu samkeppni. Mér finnst þetta vera brosleg rök hjá hv. þm. - Og hvernig var með hv. 4. þm. Reykv. Var hann ekki samþykkur frv. um vikurinn í fyrra? Og hver er munurinn? Þetta ósamræmi er komið inn í deiluna m. a. hjá þessum hv. þm., að það, sem sjálfsagt var að samþ. í fyrra, þykir jafnsjálfsagt að fella nú. Hann var að ræða um að 4 menn væru að vinna að þessu sama, og því væri ekki rétt að veita 2 leyfið Ég held, að það væri ástæða til að knýja þessa menn til að vinna saman alla. Viðvíkjandi 5. manninum, sem hann var að tala um, að hefði að þessu unnið þá lít ég svo á, að honum sé það heimilt að vinna þessi efni og selja þau hrá, eða þannig skil ég þessi lög, og er ástæða til að taka það fram.

Hv. 4. þm. Reykv. færði það fram sem aðalrök gegn frv., að verðhækkun myndi verða hræðileg, og heldur svo, að hann eyðileggi rök okkar hinna með þessu. En hafa menn ekki séð, hvernig verið hefir rokið upp úr öllu valdi, og hafa þeir ekki gáð að því, að það hefir verið í frjálsri samkeppni? Við getum nefnt t. d. smjörlíkið eða ölið, og fleira má nefna, og þetta fór svona þrátt fyrir frjálsa samkeppni. Þegar hv. 4. þm. Reykv. ætlaði að nota frjálsa samkeppni sem rök, fór það honum því hörmulega í munni, eins og við var að búast. Það eru einmitt sterk rök með málinu, að beztu kraftarnir standi sameinaðir að því, svo að ekki fari eins og t. d. um ölið, að um leið og við greiðum fyrir ölflöskuna erum við að borga tómt hús, sem stendur ónotað inn við Rauðarárstíg.

Hvar er tekið verðið fyrir smjörlíkið? Hér eru reknar nú 4 verksmiðjur með dýru fólki. (SÁÓ: Verðið hefir lækkað síðan þær fjölguðu). Það eru engin rök til að styðjast við, þó að verðið hafi lækkað á einni eða annari vöru, sem til þessarar framleiðslu eru notaðar.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar. Það sýnir sig, að rök þau, sem færð hafa verið gegn málinu, hafa ekki við mikið að styðjast, þegar þeir menn, sem rökin flytja, voru með samskonar máli í fyrra.