05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2222 í B-deild Alþingistíðinda. (3201)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég skal reyna að takmarka ræðu mína við málið eins og það liggur fyrir, en ég er þó tilneyddur að taka til athugunar það, sem andmælendur frv. hafa sagt um málið.

Hv. 1. þm. Skagf. mælti hér nokkur orð og gagnrýndi frv. þetta eins og það nú liggur fyrir. Það kom mér nokkuð á óvart hvað nál. snertir, að því leyti sem það lýtur að frv. efnislega, því að mér skildist á þeim hv. þm., að hann hefði ekki mikið við samningu þess að athuga.

Hv. þm. vildi gera lítið úr því í grg. frv., sem sagt er um það, að útlendir ferðamenn séu látnir sæta ósanngjörnum kjörum í fargjöldum hér á landi, og að ferðamenn séu nú látnir greiða óeðlilega hátt gjald fyrir þau þægindi, sem þeim eru hér veitt. Um þetta voru nokkurskonar réttarhöld innan n. Menn spurðu og spurðu í þaula. Ég veit þó ekki, hvort n. komst að nokkurri fastri niðurstöðu. En það, sem upplýstist í n., var, að svo virðist sem hér á landi sé tekið óeðlilega hátt gjald fyrir bíla á hinum stuttu leiðum, sem ferðamenn fara oftast um, eins og til Geysis, Gullfoss, Þingvalla o. s. frv. Ég hygg, að það sé nokkurn veginn víst, að fyrir 7 manna bíl sé tekið allt að 105 kr. til Þingvalla. (MG: Nei, nei). Getur verið, að ferð til Grýlu sé þar innifalin í. En það lágu fyrir n. upplýsingar um, að þetta gjald hefði verið 105 kr. fyrir 7 manna bíl til Þingvalla. En aftur, að fyrir 5 manna bíl hefðu verið teknar 70 kr. fyrir svipaða leið. En mér er kunnugt um, að það er alvanalegt, að bílar séu leigðir á helgum til að fara til Gullfoss og Geysis fyrir 70 kr. Þetta mun nú vera það almenna. Og bílastöðvar þykjast sæmilega að því komnar að taka þessa leigu fyrir bílana. En þessar skyndiferðir með ferðamenn munu ekki taka allan daginn. Og miðað við það, sem landsmenn sjálfir greiða hér fyrir bílferðir, þá virðist þetta vera nokkuð há leiga fyrir bílana. Nú hefir því verið haldið fram, að bíleigandi, sem leigir bíl sinn, fái ekki alla þessa upphæð, vegna þess að hann verði að gefa afslátt af þessu, sem nemi 30% af fargjaldinu. Það er ekki alveg upplýst, hvort það er ferðaskrifstofan, sem fær þennan afslátt. Þó virðist sem innlenda ferðaskrifstofan fái mikinn hluta af honum. Ég fullyrði ekki, að hún eigi að fá hann allan.

Í öðru lagi hefir verið bent á það, að ætlazt sé til, að ekki sé öllum bifreiðastöðvum frjálst að annast þessa flutninga, heldur sé sérstakri bifreiðastöð veitt sérstök aðstaða til þess að hafa þetta á hendi. Um þetta er óánægja í bænum, vegna þess að það virðist svo sem það sé ekki nema ein bifreiðastöð, sem eigi að flytja þessa ferðamenn, þegar kannske fleiri skip eru komin með ferðamenn.

Það mun vera rétt, að fyrir bíla sé tekið mikið af erlendum ferðamönnum, alveg óþarflega mikið. Það væri æskilegra að leigja þeim bíla fyrir lægra gjald heldur en þetta, sem ég hefi nefnt. Skal ég í þessu sambandi benda á, að 4 manna bíllinn á að kosta á leið eins og til Þingvalla 120 kr. ... Þetta er fyrirkomulag, sem hefir verið gagnrýnt meðal þeirra, sem áhuga hafa fyrir því, að ferðamannastraumurinn aukist, og sumir hafa jafnvel gengið svo langt að kalla þetta fljótandi hótel, sem menn gætu farið í ferðalög frá út um allt land, og haft með sér nesti frá o. s. frv., til þess að þurfa sem minnst að kaupa af landsmönnum.

Ef það er rétt, sem heyrzt hefir, að óhæfilega hátt gjald sé tekið fyrir bíla, þá er ekki nema eðlilegt, að að því sé fundið, og jafnframt að fram komi raddir um, að sem flestir fái að njóta þess að flytja ferðamennina.

Þá minntist hv. 1. þm. Skagf. á þar, að hér væri allt of lítið til af ferðamannahótelum. þetta get ég viðurkennt. En það er bara engum bannað að reisa gistihús og starfrækja þau. Það eru hvergi ákvæði í frv., sem banna slíkt.

Þá vildi hv. þm. draga í efa, að jafnmikil lipurð væri send ferðamönnum yfirleitt eins og nú er gert, ef þetta kæmist undir ferðamannaskrifstofu ríkisins. Ég fyrir mitt leyti gæti þvert á móti búizt við, að hún yrði fullt eins mikil. Með því er ég þó alls ekki að segja, að þeir, sem tekið hafa á móti gestunum að undanförnu, hafi ekki sýnt þeim lipurð og kurteisi. Auk þessa má gera ráð fyrir, að í höndum skrifstofu, sem rekin er af ríkinu, verði allur aðbúnaður og móttaka ferðamannanna fullkomnari en í höndum einstaklinga.

Þá gat hv. þm. þess, að það væri bágborið, að fara að hækka fargjöldin um 5%. Út af þessum ummælum hv. þm. vil ég taka bað fram, að þessi 5%, sem ræðir um í grg., eru bara gjöld, sem eiga að koma niður á sérleyfishafana, sem þóknun fyrir sérleyfin.

Hvað það snertir, sem komið hefir fram undir þessum umr., að hinn erlendi gjaldeyrir, sem erlendir ferðamenn hafa greitt fyrir sig með hafi ekki komið allur inn til bankanna, vil ég segja það, að ég best við, að allur sá gjaldeyrir, sem komið hefir inn hjá ferðamannaskrifstofunni Heklu hafi komið fram, en hinsvegar man það rétt, að hér er alltaf töluvert af erlendum gjaldeyri, sem ekki er skilað, en á því er ég ekki að gefa ferðamannaskrifstofunni Heklu neina sök. Annars er það líka rétt, að það, sem erlendir ferðamenn greiða fyrir sig, er ekki allt í erlendum peningum. Margir þeirra útbúa sig með íslenzka peninga áður en þeir leggja á stað; fá þeir þá peninga hjá ferðamannaskrifstofum og öðrum stofnunum erlendis. En það eru peningar, sem íslenzkir ferðamenn og aðrir hafa fengið skipt ytra.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að ferðamannaskrifstofa þessi yrði eitthvert feikna bákn með fjölda háttlaunaðra starfsmanna. Um það er vitanlega ekkert hægt að segja fyrirfram, hve margt fólk muni þurfa við þessa stofnun, það fer að sjálfsögðu eftir því, hve ferðamannastraumurinn verður mikill. Og ég býst við, að enda þótt það verði úr, að skipaður verði forstöðumaður fyrir þessa stofnun, þá þurfi tæplega að óttast það, eftir þeim anda, sem nú ríkir um launagreiðslur yfirleitt, að farið verði að troða upp á hann einhverjum óhemju launum.

Að öðru leyti mun ég svo ekki deila við hv. 1. þm. Skagf., hann er beinlínis á móti frv. og vill ekki, að það nái fram að ganga.

Þá kem ég að hv. 1. þm. Reykv. Hann virtist skilja, um hve mikla nauðsyn hér væri að ræða, enda er hann maður, sem ferðast mikið og hefir því aðstöðu til þess að geta dæmt um þessa hluti. Þó var það svo, að enda þótt hv. þm. viðurkenndi nauðsyn þessa máls, þá virtist hann alltaf draga úr því með öðru orðinu, sem hann sagði í hinu. Hann vildi helzt halda því fram, hv. þm., að erlendar ferðamannaskrifstofur myndu verða Þrándur í Götu, ef ríkið tæki þetta í sínar hendur. Um þetta skal ég ekkert segja, þó ég hinsvegar búist við, að hinar erlendu ferðamannaskrifstofur taki mest tillit til þess, sem ferðamönnunum er fyrir beztu.

Þá breiddi hv. þm. sig allmjög út yfir 6. gr. frv., og málaði ákvæði hennar allsvörtum litum. Það hefir víst engum dottið í hug, nema ef til vil þessum hv. þm., að hér væri stefnt að því að reka menn t. d. út úr gildaskálanum á „Hótel Borg“ til þess að rýma fyrir erlendum ferðamönnum. Hér er aðeins séð fyrir gistingu, og að þeir skuli sitja fyrir innlendum, ef hrúsrúm nægir ekki öllum. Annars á að skipa nánar á um þetta með reglugerð.

Þá sagði hv. þm. dálítið, sem mér þótti kynlegt, en það var, að í sumum tilfellum væri bara bölvun að ferðamannastraumnum. Hvað hv. þm. á við með þessum ummælum, fæ ég ekki skilið, því að ég veit ekki betur en flestir ferðamenn skilji eftir í landinu meira og minna af peningum. Væri því gaman að fá upplýst, hvaða tegund ferðamanna það er, sem hv. þm. telur, að bölvun geti stafað af fyrir þjóðina.

Það er alveg rétt, að um vitagjöldin hefir verið kvartað, en það eru ekki ferðamennirnir eða ferðamannaskrifstofurnar, sem hafa gert það, heldur eru það skipafélögin, sem ferðamennina flytja, sem hafa gert það.

Það, sem ferðamennirnir kvarta yfirleitt yfir, eru hin dýru ferðalög. Margir ferðamenn hafa t. d. orðið óánægðir, þegar þeir hafa komizt að því eftir ferðalögin, að ódýrari farkost hafi verið hægt að fá til ferðarinnar en þann, sem þeim var fenginn. Þeir spyrja, hvers vegna þeim hafi ekki verið bent á hann. Það er vitanlega alveg rétt, að það er ekki alltaf ríkt fólk, sem ferðast. Margir, sem litlu fé hafa yfir að ráða, ferðast t. d. í sumarleyfum sínum, til þess að hressa sig upp og víkka sjóndeildarhring sinn um leið. Slíkt fólk þolir eðlilega illa, að á því sé okrað. Aftur á móti er líka margt fólk, sem ferðast til þess að eyða tímanum, með gnægð fjár. Heimsókn þess getur oft haft töluverðan hag í för með sér fyrir okkur, því að umfram það, sem það greiðir fyrir og eyðir til ferðalaga, kaupir það ýmsan varning, sem okkur væri óseljanlegur, eins og t. d. ýmislegar innlendar iðnaðarvörur.

Það hefir verið minnzt á „Eimskip“ í þessu sambandi. Það er vitanlega hárrétt, að það væri mjög nauðsynlegt fyrir okkur að eiga góðan farkost, sem héldi uppi beinum ferðum á milli Rvíkur og Englands. Endirinn á ræðu hv. 1. þm. Reykv. hné að því, að þetta væri stórt og nauðsynlegt mál, sem full þörf væri að vinna að, en hann vildi helzt ekki láta ríkið hafa neitt með það að gera. Þau einu afskipti, sem hann telur, að ríkið megi hafa af því, sé að annast auglýsingastarfsemina, en svo vill hann, að einstaklingar njóti ávaxtanna. Í þessu er fólginn aðalágreiningurinn, sem á milli okkar er í þessu máli, sem jafnframt er mikill stefnumunur, því að ég lét, að ríkið eigi ekki aðeins að annast auglýsingastarfsemina, heldur og að njóta ávaxtanna af henni.