05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2227 í B-deild Alþingistíðinda. (3203)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfirl.]:

Ég man ekki eftir aths. hv. 1. þm. Skagf. í n. En það blandast engum hugur um, að 9. gr. á við 8. gr. og að aðeins farseðla þeirra farþega, sem ferðast samkv. 8. gr., á að stimpla. Þetta ætti því ekki að geta valdið misskilningi, að um þessa einu seðla er að ræða, því að það er beinlínis vitnað í 8. gr. En þyki þetta ekki lögfræðilega nógu skýrt, er tækifæri til að koma með brtt.

Um hitt, sem við höfum verið að þrátta um, skal ég vera fáorður, en það var um þessa prósentu til umboðsmanna. Ég sagði ekkert um það í n., hvort umboðsmenn hér tækju 30%, en eins og kunnugt er, hefir því verið haldið fram, en ég gerði það ekki að mínum orðum, að það rynni til umboðsmanna, sem hefðu umboð á hendi fyrir erlendar ferðaskrifstofur. En hinsvegar fell ég ekki frá þeirri skoðun, að óeðlilegt sé að taka hærra fargjald fyrir erlenda ferðamenn.

Viðvíkjandi heildverzlun ríkisins er ég ekki viðbúinn að svara. Hv. þm. (MG) hefir haft betri aðstöðu til að kynna sér það í fjvn. en ég. En því var svarað í útvarpsumr., að þar væri minna lið en áður var við samskonar stofnanir.

Um mismuninn, sem er á skoðunum hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Skagf., er það að segja, að samkv. dagskrártill. vill hv. fyrri þm. Skagf. aðeins láta ríkið semja við útvarpið um útbreiðslu og fréttaflutning, sem gæti komið þessum málum að liði. En hv. 1. þm. Reykv. vill láta alla útbreiðslustarfsemi vera í höndum ríkisins, meira að segja lét hann svo um mælt, að fyrir þetta mál ætti að gera allt, sem hægt væri. En ágreiningurinn á milli hans og okkar í meiri hl. n. er sá, að hann vill láta einstaklingana hafa framkvæmd málsins, en ríkið útbreiðslustarfsemina, en við viljum, að ríkið hafi framkvæmd málsins alveg í sínum höndum.