05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2227 í B-deild Alþingistíðinda. (3204)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Þorsteinn Þorsteinsson:

Áður en þetta mál kemur til atkvæða, verð ég að standa upp til þess að lýsa vanþóknun minni á ýmsu, sem stendur í þessu frv. Sérstaklega er það eitt ákvæði, sem vekur ógeð mitt, og það er ákvæði 6. gr. um það, þegar rekast á Íslendingar og útlendingar, þá hafi ferðaskrifstofan fullt vald til þess að vísa innlendu mönnunum á bug og láta þá útlendu sitja í fyrirrúmi. Ég held, að hér hafi einna skýrast komið í ljós undirlægju háttur gagnvart útlendingum. Ég get ekki betur séð en í þessu tilliti séu innlendir menn réttlausir gagnvart útlendingum. Þetta verður til þess að innlendir menn þora ekki að treysta þeim samningum, sem þeir kynnu að vera búnir að gera við gistihúsin, því að þeim er skylt að víkja, ef erlendan mann ber að garði. Þetta er þar að auki óþægilegt fyrir gistihúsin sjálf, sem taka á móti ferðamönnum. Verður það sennilega til þess að draga úr aðsókn innlendra manna til gistihúsanna, þegar þeir eiga þar ekki öruggan stað þann tíma, sem ákveðinn er. Það getur komið fyrir, þótt innlendir ferðamenn séu búnir að útvega sér gistingu á gistihúsi og er þeir koma þar að kvöldi, að þeim verði sagt: Hér getið þið ekki fengið gistingu, ferðaskrifstofan skipar okkur að taka útlenda gesti, og ekkert húsrúm er til óskipað. Ég vil svo minnast nokkrum orðum á 8. gr. frv. Þar er ákveðið, að taka eigi 5% af hverjum farseðli með bifreiðum, sem eru í áætlunarferðum. Þegar var verið að koma skipulagi á bifreiðaferðirnar í fyrra, var það látið í veðri vaka, að með því ætti að gera ferðirnar ódýrari. En sú raunin hefir samt á orðið, svo ég taki það, sem mér er kunnugast, að á milli Dala og Reykjavíkur hafa fargjöldin hækkað um 30% við þessa skipulagningu. Ofan á þetta á svo að bæta 5%. Þó að þetta sé ekki mikil upphæð fyrir hverja ferð, dregur það sig saman, og fyrir menn, sem þurfa að fara langferðir til þess að leita sér atvinnu eða til útréttinga fyrir heimili sitt, verður þetta tilfinnanleg upphæð. Ég sé því ekki annað en að þetta ákvæði sé til stóróþæginda fyrir landslýðinn.