16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2241 í B-deild Alþingistíðinda. (3226)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Jóhann Jósefsson:

Mér þykir satt að segja dálítið undarlegt, hvað það getur komið miklu róti á hv. sósíalista hér í d., þó að einn þdm. kveðji sér hljóðs í þessu máli. Ég hefi alls ekki tekið til máls hér í d. í dag fyrr en nú, og kl. er orðin 71/2, svo að ég hélt, að það væri ekki dauðasök, þó að ég kveddi mér hljóðs við þessa umr. málsins. Að því, er snertir flokksfundartíma okkar sjálfstæðismanna, skal ég geta þess, að við fengum ekki að nota okkar venjulega flokksfundartíma síðastliðið mánudagskvöld, en þó hefir hæstv. forseti lofað að beita eigi harðneskju við flokkinn í því efni. Hinsvegar vita allir það, að stjórnarflokkarnir hafa tíma til flokksfunda, þegar þeir vilja, og fresta þingfundum til þess, ef svo stendur á. — Þetta er nú annað kveld vikunnar, sem Sjálfstfl. er vanur að hafa sína reglulegu flokksfundi, og verð ég nú að treysta svo sanngirni hæstv. forseta, að hann neiti okkur ekki um þennan fundartíma, þar sem við vorum sviptir síðasta fundardegi okkar. Mér finnst tæplega kominn tími til að beita slíkri hörku, enda ekkert tilefni til þess.

Hv. 2. þm. Reykv. vil ég aðeins segja það, að þar sem ekki er enn búið að breyta þingsköpunum eftir vilja stjórnarflokkanna, þá verður hann að sætta sig við það, að stjórnarandstæðingar kveðji sér hljóðs við umr. mála á Alþingi. Ég fæ ekki séð, að honum hafi gefizt neitt tilefni til þess að vilja beita harðneskju til þess að takmarka málfrelsi andstöðuflokka stj. í þessu máli.