16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2242 í B-deild Alþingistíðinda. (3232)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Ég get í raun og veru að mestu leyti fallið frá orðinu, en ég kunni bara ekki við, af því að ég var búinn að biðja um orðið, að vera sviptur því. (Forseti: Það var ekki meiningin). En hv. þm. Vestm. hefir tekið fram það, sem ég vildi sagt hafa. — Það nær vitanlega ekki neinni átt að ætlast til þess, að við sjálfstæðismenn höfum engan tíma til þess að ráðgast um brtt. okkar við fjárlagafrv. En um það þarf ég ekki að fjölyrða frekar.

En út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sló fram, hvort sjálfstæðismenn vildu lofa að leyfa afbrigði frá þingsköpum um afgr. mála, ef þeir fengju að hafa flokksfundi, vil ég taka það fram, að fyrst og fremst þykist ég ekki eiga að standa honum neinn reikningsskap um það, og í öðru lagi hefir enginn leyfi til þess að svara fyrir Sjálfstfl., formaður hans er ekki við, og hann mundi heldur ekki hafa svarað, nema að ráðgast um það við flokkinn. — Annars vil ég benda hv. þm. á það, að það fer að ganga nokkuð langt úr hófi sú ófyrirleitni, þegar þeir flokkar — þeir menn á þingi fara að tala um það með miklum ofstopa, að sé verið að tefja mál, sem eru orðnir berir að því að margfara í kring um stjórnarskrána með því að hrúga inn málum, sem eru óbeinlínis um afnám laga, og málum, sem varða stórkostlega fjárhag landsins, svo að jafnvel að velti á millj., hrúga þessu inn sem brtt. á síðasta stigi málsins.

Hér er að ske frá hendi þessara manna, sérstaklega hv. 2. þm. Reykv., fullkomið þinghneyksli, að fara í kringum stjórnarlög landsins og knýja fram mál óundirbúin og án þess að mönnum gefist kostur að kynna sér þau á nokkurn hátt og leita álits þeirra manna, sem eru sérfræðingar um ýms þessi efni. Ég held, að það mætti telja frekar til gagns, að það væri tafið fyrir þessum málum, svo sem unnt er, og ég ætla að lýsa því strax yfir, að ég mun ekki með hin stærri mál hér á nokkurn hátt greiða fyrir því, að þau komist í gegn um þingið með afbrigðum.