16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (3233)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Þetta, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði hér, hefir víst átt við hv. þm. S.-Þing., og er það nær öðrum að taka hans svari heldur en mér, enda mun ég ekki gera það að þessu sinni, einkum þegar þess er gætt, að þær brtt, sem hann hefir borið fram og greitt var atkv. um í Ed. í dag, hafa verið samþ. með sameiginlegum atkvæðum sjálfstæðismanna og framsóknarmanna og á móti atkvæðum jafnaðarmanna. — En það fór, eins og mig varði, að mundi sýna sig, hvernig sjálfstæðismenn verða við afgreiðslu mála hér á þingi, og það mun undra mig mikið, ef þeir halda ekki uppi þeim sið, sem þeir hafa haldið á undanförnum þingum, að reyna að tefja mál með því annaðhvort að greiða ekki atkv. eða vera ekki viðstaddir. Það fer illa á því hjá hv. þm. Snæf. að vera að tala um fjarveru annara þm., þegar hann dögum saman hefir verið fjarverandi, eftir að hann kom heim, og það að ástæðulausu. Aftur á móti hafa Alþýðuflokksmennirnir setið betur á þingi en flestir aðrir. Það hefir sýnt sig á næturfundunum, hverjir hafa átt flesta þm. hér að tiltölu, en þá hafa sjálfstæðismenn kannske verið á flokksfundum eða a. m. k. ekki verið viðstaddir af einhverjum ástæðum, nema þá einn eða tveir.