17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (3241)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Emil Jónsson:

Ég get að því leyti tekið undir með hv. 6. þm. Reykv., að af því nú er orðið svo áliðið nætur, þá sé sjálfsagt að reyna að vera sem fáorðastur. Þetta er líka nálega það eina, sem ég er honum sammála um. Hann talaði mikið um þann ofsahraða, sem væri á þessu máli í gegnum þingið, og að sósíalistar vildu keyra það fram með miklu offorsi. Svona voru rök hv. þm. — Ég get nú upplýst það, að á þingi 1934 var lagt fram frv. um þetta efni, að vísu í dálítið annari mynd. Það frv. var afgreitt hér í Nd., en tími vannst eigi til afgreiðslu þess í Ed. Málið var þá mikið rætt í Nd., og komu fram brtt. við frv. í þá átt að beina því í það horf, sem það nú er í.

Þá sagði hv. 6. þm. Reykv., að þetta mál hefði ekki fengið þann undirbúning, sem því hæfði, og ég hefði enga þekkingu á þessu máli. (SK: Þetta eru ósannindi). Það lá í orðum hv. þm. Hann sagði, að það hefð ekki verið leitað til þeirra manna um undirbúning málsins, sem hefðu þekkingu og kunnáttu í þessum efnum og sett hefðu sig inn í þau. (SK: Þetta eru hrein ósannindi). Ummæli hv. þm. gátu ekki skilizt öðruvísi. Annars er hv. þm. svo espur, að ég hygg, að hv. þm. Vestm. þurfi að taka hann til uppfræðslu og tyftunar. — það er ekki satt, að ég haft talið mig aðalhöfund þessa frv., eins og hv. þm. Vestm. sagði, það er samið af öðrum mönnum, sem eru mér færari í þessum málum, en ég hefi aðeins átt lítinn hlut að því og unnið með öðrum að undirbúningi þess. — Þá sagði hv. 6. þm. Reykv., að sósíalistar hefðu unnið með svigurmælum að því að hespa þetta mál gegnum þingið. Þetta er auðvitað tilhæfulaust. En hverjir eru það, sem hafa verið með svigurmæli í þessum umr.? Engir aðrir en hv. þm. Vestm. og 6. þm. Reykv. (JJós: Þetta er ósatt). Ég skal sanna það á hv. þm., með því að hafa upp eftir honum það, sem hann sagði í ræðu sinni. Hann sagði, metal annars, að sókn þessa máls væri mest byggt á rógi og öfund til þeirra, sem hefðu gert sér aðatvinnu að taka á móti erlendum ferðamönnum. Frv. væri borið fram af miður hreinum hvötum og undirbúið af mönnum, sem væru ókunnugir öllu, sem þessu máli tilheyrir. Þá sagði hann líka, að þetta væri heimskuleg og illgjörn lagasetning, sem hefði af þjóðinni stórfé. Og ennfremur að aðstandendur þessa frv. væru að troða sér og sínum að embættum, en að enginn áhugi væri meðal þjótarinnar fyrir slíkri skaðræðislöggjöf. Þessi svigurmæli og aðdróttanir endurtók hv. þm. Vestm. í ræðu sinni og klykkti út með því, að hann hefti ekkert sagt annað en það, sem hann vissi um. Svo kemur hv. 6. þm. Reykv. á eftir þm. Vestm. og segir að við Alþýðuflokksmenn séum með svigurmæli í garð annara út af þessu máli. Ég hygg, að sá hv. þm. hefði heldur átt að skjóta þeim ásökunum í aðra átt og snúa þeim til annara en okkar, að minnsta kosti ef hann vill vera óhlutdrægur.

Að því, er snertir kostnaðinn af rekstri ferðamannaskrifstofunnar, sem hv. 6. þm. Reykv. var að tala um, að ætti að taka með refsiskatti á saklausan almenning í landinu, þá er þar nú ekki um annað að ræða en það, að ætlazt er til, að nokkur hluti kostnaðarins verði greiddur af þeim bílaeigendum í landinu, sent njóta tekna af ferðamannastraumnum. Þetta gjald á að greiðast af ferðalögum á landi, þannig að 5% falli á farseðla með áætlunarferðum. Það er í raun og veru ómögulegt annað, en að taka að einhverju leyti skatt í þágu skrifstofunnar af þeim aðilum, sem njóta hagnaðar af ferðalögum útlendinga. Það kom til álita, að taka einnig gjald af hótelum í því skyni, en það var þó ekki gert í þetta sinn. Annars hefir mér verið sérstök ánægja að því að hlusta á ýmislegt í þessum umr., t. d. þegar hv. 8. landsk., og hinir andmælendur frv. að nokkru leyti líka, viðurkenndu ýms grundvallaratriði frv. og höfuðástæðurnar fyrir því, að það er fram komið. Þeir hafa viðurkennt nauðsyn þess, að ferðamannaskrifstofa væri starfrækt hér á landi og að hafin yrði öflug auglýsingastarfsemi til þess að kynna landið út á við og laða hingað erlenda ferðamenn. Hv. 8. landsk. viðurkenndi ennfremur nauðsyn þess, að eftirlit væri haft með gistihúsum og að túlkar erlendra ferðamanna yrðu að ganga undir próf o. s. frv. Hann sagðist vera reiðubúinn til samkomulags um að haft væri eftirlit með ferðamannabifreiðum og farþegatöxtum þeirra. (GÞ: Nei, það er ekki rétt). — Þetta sagði hann líka. Ég skrifaði þetta upp eftir hv. þm. Allt þetta staðfestir það, sem ég hefi haldið fram, hversu mikil nauðsyn er á því að stofna ferðamannaskrifstofuna nú þegar.

Síðast í ræðu sinni varpaði hv. 8. landsk. fram þeirri staðhæfingu, að það væri fyrir fram búið að ráða menn í þær stöður, sem ákveðnar væru í sambandi við ferðamannaskrifstofuna. Þessir menn mundu nú vera atvinnulausir, og þess vegna væri málinu hraðað svo mjög. Nú er þessi atvinnulausi maður, sem hv. þm. segir, að eigi að verða forstjóri ferðaskrifstofunnar, allt í einu orðinn sænskur! Ég kannast ekki við, að þeir, sent stóðu að samningu þessa frv., hafi haft nokkurn sérstakan mann í huga til þess að vera forstjóri ferðaskrifstofu ríkisins, og að hann sé sænskur, það hygg ég að engum hafi komið til hugar. (GÞ: Hvar er hæstv. forsrh? Mér skildist þetta á honum nýlega). Ég veit ekki, hvað þeim kann að hafa farið á milli, hæstv. forsrh. og 8. landsk. En höfundum frv. hefir aldrei dottið í hug neinn sérstakur maður í þessa stöðu, og allra sízt útlendur maður. Enda hygg ég að þetta sé slúður úr hv. þm.

Þá kem ég að því, sem hv. 8. landsk. lagði mesta áherzlu á í ræðu sinni, en það var um fargjöld erlendra ferðamanna til Íslands og Noregs. Hv. þm. fór þar með svo miklar fjarstæður og hagaði sér svo ósæmilega, að hæstv. forseti fann ástæðu til að vita hann. (GÞ: Það var ekki af því). Máske hv. þm. vilji neita þessu. (GÞ: Vill ræðumaður spyrja hæstv. forseta? — Forseti Ekki samtal!). Hv. þm. vill máske aftur fá víti. Hv. þm. sagði, að ég hefði farið með andstyggilegustu blekkingar um fargjöldin. Ég tók þær tölur, sem ég nefndi, upp úr pésa, sem ég hefi hér í höndum, frá erlendum ferðaskrifstofum. Það er rangt hjá hv. þm., að ég hafi neitað honum um að sjá hann. Hv. þm. gat bara ekki lesið rétt; hann fór rangt með þær tölur, sem hann tilgreindi úr pesanum. Það er ekki allur fararkostnaður innifalinn í því fargjaldi til Íslands, sem getið er upp í pésanum, fæðiskostnaður á leiðinni til landsins er þar ekki talinn með. Hv. þm. getur sennilega reiknað, hvað sá mismunur nemur miklu. Fæðispeningar á skipinu eru 8 kr. á dag í 10 daga, eru það samtals 80 kr. Það eru líka peningar eins og fargjaldið sjálft. Svo þegar þessi ráðvandi maður(!) ætlar að fara að bera saman hvað kosti jafnlangar ferðir til Noregs og Íslands, þá telur hann ferðina til Íslands £ 22, en til Noregs £ 24. Nú vill hann með þessu gefa það til kynna, að ferðirnar séu ódýrari til Íslands. En ég vil biðja hv. þdm. að taka eftir því, að hv. þm. hefir enga hugmynd um, hvað fólgið er í þessari ferðakostnaðarupphæð £ 24 til Noregs. Hvað það er, sem verið er að selja ferðamönnum fyrir þetta fé. Fæðiskostnaðurinn er innfalinn í þessari upphæð til Noregs, en aftur á móti er hann ekki talinn með fargjaldinu til Íslands. Það stafar af þessu, að ferðirnar eru talsvert mikið dýrari hingað en til Noregs. Hv. 8. landsk. getur ekki neitað því að ferðakostnaður til Íslands er reiknaður 84 kr. á dag, en 60—70 kr. á dag, ef fleiri eru saman. (GÞ: Þetta er alrangur útreikningur). Ég get sannað þetta. Ég get lesið það, sem um þetta stendur í bókinni, en hv. þm. virðist ekki geta lesið það. Ferðin kostar £ 54 og 15 sh. hingað til lands. Ef reiknað er, hvað það nemur miklu í íslenzkum krónum, þá eru það sent næst 1210 kr. Sé frá þeirri upphæð dregið fargjaldið frá Englandi til Íslands og aftur frá Íslandi til Englands, það eru 270 kr. báðar leiðir, þá verða eftir um 910 fyrir þessa 10 daga dvöl í landinu. — Ég bið hv. þdm. að taka eftir því, að fyrir £ 54 og 15 sh. fá ferðamenn 10 daga viðdvöl hér á landi, að frádregnu fargjaldinu. (GÞ: Ef ég má taka fram í, þá lýsi ég þetta alrangt). Mér er alveg óskiljanlegt, hvernig hægt er skýra þetta á annan hátt en ég geri. Upphæðin er alls 1210 kr., og þar af 940 kr. til ferða- og dvalarkostnaðar innanlands. Ég sagði, að dvölin hér væri 10 dagar og að hún kostaði ferðamennina 90—100 kr. á dag. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. fer að því að reikna þetta á þann hátt, sent hann gerir. Ég best við, að það sé rétt, sem hv. þm. Ísaf. segir um hv. 8. landsk., að hann beri aldrei við að reikna, heldur slumpar hann til. Mér hefir ekki verið kennt að reikna þannig, og ég hélt, að ég kynni betur reikning en hv. þm. — Vill hv. þm. ekki láta blöðin afskiptalaus á borðinu, meðan ég er að tala!

Við hv. þm. Vestm. hefi ég ekki annað að segja en það sama, sem ég nú hefi vikið að í stórum dráttum í svari mínu til hv. 6. þm. Reykv. og hv. 8. landsk. Um ræðu hans er það eitt að segja, að hann gat ekki hrakið með rökum neitt af því, sent ég hafði sagt. — Hefir hv. þm. Vestm. brakið það, að Eimskipafélag Íslands hafi ekki getað flutt með skipum sínum erlenda ferðamenn, en frekar orðið að biðjast undan því? Hefir hann afsannað það, að 150 manna hópur erlendra ferðamanna hafi orðið að hverfa frá för til Íslands, af því að þá vantaði skip til fararinnar? Hefir hann afsannað það, að hin útlenda valúta frá erlendum ferðamönnum hafi ekki komið til skila hér í bönkunum? Hefir hann afsannað, að það hafi verið beitt okri í viðskiptum við erlenda ferðamenn hér á landi? Ekkert af þessu hefir hv. þm. Vestm. afsannað. En það var eitt annað hálmstrá, sem þessi hv. þm. hélt í, að ferðaskrifstofum væri hvergi í heiminum veittur einkaréttur til þess að taka á móti ferðamönnum. Og hann tók til dæmis og til sönnunar sínu máli ferðaskrifstofu í Berlín og víðar þar, sem hann sagðist vera kunnugur. En ég greip fram í og spurði, hvort þær seldu farmiða innanlands, en hv. þm. sneri út úr og sagði, að hver maður gæti fengið farmiða hvert, sem hann vildi. Þetta er að vísu rétt. En ef um fyrirgreiðslu innanlands er að ræða, er hún þá ekki veitt á þessari ferðaskrifstofu og fær hún ekki greiðslu fyrir? Það er alls ekki ómögulegt, að útlendur ferðamaður, sem kemur til Íslands, geti farið hvert á land, sem er, án þess að ferðaskrifstofan skipti sér af honum. En sú fyrirgreiðsla erlendra ferðamanna, sem fer fram gegnum þessa central-organisation, er samskonar og er í nágrannalöndum vorum.

En ég kann illa við, þegar hv. 6. þm. Reykv. er að tala um, að við séum með svigurmæli um að koma þessu máli áfram, en hann minnist ekki á ofstopafull orð þeirra sjálfra og staðlausar blekkingar hv. 8. landsk., þegar hann var að bera saman ferðakostnaðinn frá Englandi til Noregs og frá Englandi til Íslands. Hv. 8. landsk. reyndi ekki að tiltaka, hvað menn fengju fyrir sína peninga.

Ég býst ekki við að taka frekar til máls við þessa umr., en vil að lokum undirstrika það, að höfuðatriði í þessu máli er, að við fáum einhverja sterka stofnun til þess að taka þetta mál að sér, annast auglýsingastarfsemi erlendis, sjá um fyrirgreiðslu og leiðbeiningar innanlands og ennfremur að sjá um að bjóða út fargjöld innanlands, þannig að bifreiðastjórum sé gefinn kostur á að koma með tilboð um þau. Hv. þm. Vestm. vildi fara háðulegum orðum um að ekki væri hægt að taka mark á bifreiðastjórunum í þessu efni. En það er misskilningur hjá hv. þm. Bifreiðastjórarnir hafa viljað gera tilboð. En það eru ekki þeir, sem hafa fengið að aka með þessa erlendu ferðamenn. Það eru fyrirfram ákveðnir menn, sem fá það, án þess að nokkuð sé leitað tilboða annarsstaðar frá. Hv. 8. landsk. vildi halda því fram, að úr því að fargjöld væru dýr í London, þá þyrftu þau að vera það líka hér. En ég sé ekki ástæðu til þess. Hv. þm. sér það kannske. Yfirleitt finnst mér, að ekkert hafi komið fram, sem geti hrakið réttmæti þess að mál þetta er fram komið. Hér er ekki nein central-organisation til þess að taka að sér þessa auglýsingastarfsemi. Þess vegna þurfum við að setja á stofn sérstaka skrifstofu í þessum tilgangi, í svipuðu formi og hér er gert ráð fyrir. En að með þessu sé verið að fara inn á einkaleyfisbrautina, því mótmæli ég alveg. Það er ekki rétt, að menn séu teknir og skilyrðislaust neyddir til að fara um landið, en vilji þeir fá fyrirgreiðslu og leiðbeiningar verða þeir að snúa sér til skrifstofunnar. Það ætti að verða einhver munur fyrir erlenda ferðamenn að snúa sér til þessarar skrifstofu, sem hefir alla þessa starfsemi með höndum. Það ætti ekki að verða til þess að fæla útlendinga frá því að koma hingað til landsins.

Ég skal svo ekki vera að skattyrðast frekar við hv. þm. út af þessu máli. Þeir mega þjóna sinni lund og tala um það eins og þeim þóknast, eins og t. d. hv. þm. Vestm., sem viðhafði sérstök stóryrði um málið, sem hans er líka vandi um öll svipuð mál þessu. En ég set það ekki fyrir mig. Ég veit, að það sem kemur fram í þessu máli, verður tekið aðallega til greina málefnislega, en ekki stóryrðin.