17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2276 í B-deild Alþingistíðinda. (3243)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Hafnf. er ákaflega hróðugur yfir því, að við andmælendur frv. skulum hafa játað það, að ýmislegt í því gæti komið til mála að framkvæma. Ég sagði t. d., að skrifstofa, sem annaðist upplýsingar og auglýsingarstarfsemi, gæti vel komið til mála, ef hún yrði ekki allt of dýr. En ég hafði þann fyrirvara, að það yrði að leggja hæfilega mikið í kostnað, því að ekki væru ótakmarkaðir möguleikar til þess að auka ferðamannastrauminn hingað til landsins.

Þá spurði hv. þm. Hafnf. um það, hvort ég gæti hrakið, að Eimskipafélagsskipin væru of lítil til þess að taka farþega frá útlöndum á sumrin. Ég hefi ekki hrakið það, það vita allir, að þau hafa ekki getað tekið alla þá farþega, sem þeim hafa boðizt. — Í öðru lagi spurði hv. þm., hvort ég gæti hrakið, að þessi 150 manna hópur, sem ætlaði að koma frá Skotlandi til Íslands, hefði ekki getað fengið far. Þetta getur vel verið satt. En ég vil spyrja þennan hv. þm., hvort hann haldi, að þessir menn hefðu siglt á ferðaskrifunni hingað til landsins, ef hún hefði verið komin á stofn. Ég sé ekki, að það hefði verið neitt auðveldara að flytja þá yfir hafið, þó að ferðaskrifstofan hefði verið komin upp. — Hv. þm. Hafnf. var að spyrja mig um, hvort ég heldi ekki, að í Þýzkalandi væru einhverjar ríkisskrifstofur, sem seldu farmiða á staði innanlands. Ég get svarað því, að ég veit ekki til, að í Þýzkalandi sé neinn slíkur central. Menn geta keypt farmiða og kaupa á járnbrautastöðunum á þá staði, sem þeir ætla að fara. Ég get hugsað mér, að höfuð-„kontór“ járnbrautanna selji eitthvað af farmiðum innanlands, en að það sé einhver einokunarstofnun, sem geri það, er fjarri öllum sanni. Það er satt, eins og ég hefi sýnt fram á og hv. þm. Hafnf. ekki reynt til að hrekja, að í öllum nærliggjandi löndum eru starfandi ferðaskrifstofur hver við aðra, án þess að ríkið hindri þær á nokkurn hátt í starfi sínu.

Hv. þm. sagðist vera ágætur að reikna og að hann tæki sessunaut sínum mikið fram í því að eigin áliti. Ég skal ekki rengja það, að þessi hv. þm. sé góður í reikningi, en ég tók eftir því, að hann er slarkfær í fleira. Ég heyri t. d., að hann er ágætur að skálda öðrum upp orð, sem aldrei hafa verið sögð. Hann „brilljeraði“ í því í síðustu ræðu sinni, gekk á röðina og rangfærði orð okkar allra, sem andmælt höfum honum í kvöld. Ég veitti þessu sérstaka athygli af því ég hlustað á allar ræturnar, sem fluttar hafa verið. Um mig sagði hann, að ég hefði farið háðulegum orðum um bílstjóra hér í bænum. Ég fór aðeins kímnum orðum um þennan hv. þm., af því hann kom því upp um sig, að hann var að bera fyrir brjósti aðra bílstjóra en þá, sem venjulega aka ferðamönnunum. Ég fór raunar ekki háðulegum orðum um hann, en það vakti kímni hjá mér, að hv. þm. skyldi gera sig beran að því að bera einhverja sérstaka bílstjóra fyrir brjósti í þessum efnum. Það, sem hann sagði í áframhaldi af þessu, sannaði það, sem ég benti á, að þetta mál mundi ekki öfundarlaust til komið. Hann sagði, að það vari ekki mikið um skiptingu á keyrslunni milli manna; það hefði viðgengizt, að samið væri við sérstaka stöð um flutning hinna erlendu ferðamanna, og svo væri hann ekki boðinn upp. Hvar heldur hv. þm., að það fyrirkomulag sé haft, þar sem erlendir ferðamannahópar stíga á land, að það sé haldið uppboð á keyrslu þeirra. Ein undirrót þessa frv. er sú, að það er lögð öfund á þá menn, sem hafa nú með höndum móttöku og keyrslu ferðamanna.

Hvort hv. þm. Hafnf. vill kalla það róg, eins og ég gerði, þegar sagt er í grg., að orð liggi á, að óhæfilegt verð sé tekið fyrir það sem gert sé fyrir ferðamenn af sérstökum mönnum hér í bænum, án þess nokkrar sannanir séu færðar fram, skiptir ekki máli. Það vita allir, hvaða aðferð það er, þegar viðhöfð eru svona orðatiltæki til þess að vekja grun um ósæmilegt athæfi, hvaða nafn, sem því er valið. Það á dálítið skylt við það, þegar Gróa á Leiti sagði, að ólýginn maður hefði sagt sér.

Að síðustu mótmælti hv. þm., að með þessu frv. væri farið út á það, sem hann kallaði einokunarbraut í þessu máli. Það tjáir ekki fyrir hv. þm. að mótmæla því, að með þessu frv. sé farið inn á einokunarbraut í þeirri starfsemi, sem hér er um að ræða, og að slíka einokunarbraut hefir hvergi verið gengið inn á annarsstaðar, ekki einu sinni í Rússlandi, sem er sjálfsagt stærsta fyrirmynd, sem hv. þm. Hafnf. getur hugsað sér. Það þýðir ekki að standa hér í stóryrðum við þm. Vestm. eða setja upp fermingardrengssvip og segja, að frv. innihaldi ekki það, sem það inniheldur. Það er, eins og ég hefi bent á, ágreiningsatriði í þessu máli að við, sem andmælt höfum því, erum mótfallnir, burt séð frá þeim miður hreinu forsendum, sem fylgismenn þess hafa sjálfir sannað, að fyrir því eru, að ráðizt sé á atvinnu manna í landinu, sem þeir hafa byggt upp á löglegan hátt, og sett í staðinn ríkiseinokun. Við álítum það bæði til skaða fyrir þá menn, sem hér er stefnt að, og fyrir landið og þjóðina í heild.