02.11.1935
Efri deild: 59. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2281 í B-deild Alþingistíðinda. (3263)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og menn sjá á dagskrá þessa fundar, eru á henni tvö mál um sama efni. Þessi frv. eru, a. m. k. hvað sumar gr. snertir, samhljóða. þetta er þannig til komið, að fyrir landbn. þessarar d. var lagt frv. um þetta efni, samið af n. þeirri, sem margir kalla Rauðku, en mun heita skipulagsn. atvinnumála. Nd var í landbn. nokkur ágreiningur um þetta frv. Einn nm., hv. 2. þm. Rang., vildi ekki taka þitt í að flytja þetta frv. Við hinir tveir nm. vildum að vísu flytja það, en hv. 4. landsk. vildi flytja það óbreytt, eins og það var lagt fyrir n., en ég vildi gera á því nokkrar breyt. Þar sem ekki náðist samkomulag, lagði ég fram frv. með þessum breyt., en hv. 4. landsk. lagði fram frv. óbreytt.

Takmark það, sem ætlað er að ná með báðum þessum frv., er það, að þjóðin fari sjálf að framleiða nóg af kartöflum til neyzlu innanlands. Eins og getið er í grg. annars þessara frv., hafa undanfarið verið fluttar til landsins kartöflur fyrir ca. 350000 kr. á ári, og er enginn efi á því, að þessa upphæð í erlendum gjaldeyri mætti spara, því að þjóðin gæti vel framleitt þessa vöru sjálf. Og ekki aðeins það, heldur verður líka að gera ráð fyrir, að neyzla á kartöflum geti aukizt mikið í landinu frá því, sem er, og myndu þá sparast kaup á ýmsum öðrum vörum frá útlöndum, svo að hér er í raun og veru um miklu meiri upphæð að ræða en þá, sem ég nefndi. Núna í sumar, seinni partinn, eða í haust var skrifað um það, að Íslendingar gætu t. d. framleitt kartöflumjöl það, sem þeir nota, og ef horfið væri að því ráði, væri enn um nýja möguleika að ræða í þessu máli.

Ég ætla ekki að fjölyrða um málið, en eins og menn sjá, eru það einkum þrennar ráðstafanir, sem ætlazt er til, að gerðar verði til þess, að þetta takmark náist. Í 1. lagi að veita verðlaun nú næstu 3 árin fyrir aukna kartöfluframleiðslu, til þess að hvetja menn til að gera sem mest í þessu efni, í öðru lagi að takmarka og banna að nokkru leyti algerlega innflutning á útlendum kartöflum, eftir því sem nauðsynlegt reynist, og að svo miklu leyti sem innlend framleiðsla fullnægir þörfum landsmanna. Þá er í þriðja lagi það atriði, að ríkið reki verzlun með þessa vöru, til þess að greiða fyrir sölu á innlendum markaði, og tryggja hæfilegan geymslustað fyrir kartöflur.

Í sambandi við þetta atriði er rétt að taka það fram, að fyrirkomulagið á þessari verzlun er aðalágreiningsefnið milli mín og hv-. 4. landsk. Mér þykir nægja, að ríkið hafi einkasölu á útlendum kartöflum, sem hingað eru fluttar, en á innlendum kartöflum sé ekki einkasala, heldur verði framleiðendum frjálst að selja hverjum sem vera vill, hvort heldur sem er neytendum sjálfum eða verzlunum. Hv. meðnm. minn vill hafa einkasölu á innlendum kartöflum, að svo miklu leyti sem þar eru hafðar í verzlun.

Ég geri ráð fyrir, að þegar bæði þessi mál koma til n., verði einhver ráð með að steypa þeim saman, svo þau verði ekki tvö að þvælast hvort fyrir öðru. Tel ég því rétt að ræða ekki einstök atriði fyrr en n. skilar málunum frá sér. — Leyfi ég mér svo að óska þess, að frv. verði vísað til landbn.