25.11.1935
Efri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2284 í B-deild Alþingistíðinda. (3270)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Magnús Guðmundsson:

Ég vona, að hv. 1. þm. Eyf. lifi það að sjá álit fjvn., og það áður en langur tími líður.

Ég vil taka það fram, að ég er ekki sérstaklega að álasa hv. landbn. fyrir að hafa ekki leitað álits fjvn. í þessu máli. En ég vildi minna á þessi ákvæði þingskapanna, sem að vísu hafa verið látin sofa að undanförnu. Og þegar svo er fyrir mælt í þingsköpum, að leita skuli álits fjvn. um öll fjárhagsatriði, er ekki hægt að mæla á móti, að því sé hlýtt, ef farið er fram í það í einhverju máli.

Það má vera, að þetta verði ekki stórt fjárhagsatriði, en það getur þó orðið nokkuð stórt. Hefir hv. landbn. gert sér grein fyrir, hvað mundi kosta að reisa skála hér í Reykjavík yfir 6 þús. í. af garðávöxtum? Það er dýrt að byggja hér í Reykjavík, svo slík bygging kostar alltaf töluvert. Einnig er heimilt að byggja a. m. k. tvo skála annarsstaðar, og það kostar þó eitthvað.