30.11.1935
Efri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2285 í B-deild Alþingistíðinda. (3273)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 599, þar sem ætlazt er til, að hverjum einstaklingi verði veitt verðlaun fyrir alla árlega aukningu á kartöfluframleiðslu, ef hún nemur 3 tunnum eða meiru. Ég hefi litið svo á, að stefna bæri að því, að landsmenn yrðu sjálfum sér nógir að því er kartöfluframleiðslu snertir, og að hvert heimili, sem land hefir til umráða, geti framleitt nógar kartöflur fyrir sig. Það hefir verið gert töluvert að því að styrkja garðyrkju í sveitum, og hafa búnaðarsamböndin gengið á undan í því, með því að veita verðlaun fyrir aukningu matjurtagarða, en nú lítur út fyrir, að búnaðarsamhöndin hafi ekki framvegis yfir eins miklu fé að ráða til þessara hluta eins og undanfarið, og væri því æskilegt, að styrkur í þessu skyni felli ekki niður, þótt ekki sé um stórframkvæmdir að ræða.

Hvað frv. þetta snertir, þá virðist mér, að ákvæði þess um verðlaun fyrir kartöfluframleiðslu gætu nokkuð hjálpað, ef lágmark tunnufjöldans fyrir verðlaununum væri fært niður frá því, sem það er sett í frv. Ég geri nfl. alls ekki ráð fyrir, að það verði nema stærri framleiðendurnir, sem hefðu tök á að auka framleiðslu sína um 10 tunnur og meira á ári; myndu verðlaunin því ekki ná til smærri framleiðenda.

Ég átti að sjálfsögðu kost á að fylgjast með félögum mínum úr fjvn. um brtt. á þskj. 645. Hvað 1. brtt. snertir, bæði a. og b. lið, get ég tekið það fram, að ég tel hana til bóta. Aftur á móti skildi á um aðra brtt., 2, a. og b. Hana tel ég síður en svo til bóta við frv. eins og það er nú, því að með henni er mörgum gert erfiðara um að fá verðlaunin, og ákvæði hennar geta einnig orðið til þess, að verðlaunin komi ranglátlega niður, þar sem svo er ákveðið í henni, að framleiðandi fái engin verðlaun, enda þótt hann auki árlega framleiðslu sína til heimilisnota um 10 tn. eða meira, en auki hann hana um 5 tunnur til sölu, fær hann verðlaunin. Þetta finnst mér ekki réttlátt, því að ég tel, að á sama megi standa um það, hvort framleiðslan er aukin til neyzlu heima eða til sölu út af heimilinu. Ég vildi svo að síðustu mega leggja það til, að brtt. mín verði samþ., því að ég er alveg sannfærður um, að frv., ef að lögum verður, kemur ekki almenningi að notum nema því sé breytt í það horf, sem brtt. mín fer fram á.