30.11.1935
Efri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2286 í B-deild Alþingistíðinda. (3275)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Ágreiningurinn, sem varð í landbn. um þetta mál, var út af verzluninni með innlendar kartöflur. Í frv. því, sem ég ber fram um þetta mál, var svo ákveðið, að framleiðendum kartaflna og grænmetis væri ekki heimilt að selja öðrum framleiðslu sína en grænmetisverzlun ríkisins, og í samræmi við það hefi ég komið fram með brtt. á þskj. 602, þar sem eru ákvæði um það, að hina umræddu innlendu framleiðslu megi ekki selja hverjum sem er. Ég vil ekki banna, að framleiðendur megi selja framleiðslu sína beint til neytenda, en eigi að lofa þeim að selja hana hverjum, sem hafa vill, má búast við, að meiri glundroði geti orðið á verzluninni með þessar afurðir, sem geri hana yfirleitt áhættusamari. Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta atriði, en vil aðeins undirstrika það, að ég tel frv. skemmt frá því, sem það átti að vera, nema brtt. þessi verði samþ.

Út af brtt. á þskj. 599 vil ég segja það, að mér finnst afaróhyggilegt, ef fara ætti að lækka lágmark þess, sem veitt eru verðlaun fyrir, því að með því er farið að verðlauna framleiðslu til heimilisnotkunar, farið að borga fyrir að afla sjálfum sér matar. Að vísu kemur fjvn. með brtt., sem bæta nokkuð úr þessu og ég fyrir mitt leyti get því fallizt á. Verði framleiðslan til heimilisnotkunar ekki alveg felld niður, svo hún geti ekki komið til greina við úthlutun verðlaunanna, og markið um aukna framleiðslu sett nokkuð hátt, þá verður svo lítið að keppa að. Væri lágmarkið fyrir verðlaununum t. d. sett við 10 tunnur, miðað við aukna framleiðslu til sölu, þá gæti keppnin orðið nokkuð almenn, og gæti þá farið svo, að á ekki mjög löngum tíma næði framleiðslan því að fullnægja þörfinni innanlands fyrir þessa vörutegund, en það er vitanlega það, sem okkur ber að keppa að.