18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2293 í B-deild Alþingistíðinda. (3289)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Pétur Ottesen:

Ég sé, að hér vantar 3 hv. þdm., sem skrifað hafa undir nál. með fyrirvara, og býst ég við, að það sé vegna þess, að málið er neðarlega á dagskrá og þeir hafi því búizt við, að önnur mál yrðu tekin á undan. Ég vil þó minna á vafaatriði í sambandi við frv. og beina fyrirspurnum til hv. frsm. viðvíkjandi ákvæðum 10. gr. frv. En áður en ég geri þetta, vildi ég benda á það, að þetta er ekki í fyrsta sinn, sem fram kemur á Alþ. till. viðvíkjandi verzlun með innlendar kartöflur, sérstaklega að því, er snertir fyrirgreiðslu með að koma innlendum kartöflum á stærstu og beztu markaðssvæðin, bæði til Rvíkur og á aðra staði. Ennfremur hafa komið fram till. um að koma upp geymslustöðum fyrir innlendar kartöflur í stærstu markaðsstöðunum, og þá fyrst og fremst í Rvík. Við hv. þm. Mýr. höfum oftast verið tillögumennirnir og komið okkur allvel saman um það, hvaða leiðir væru líklegastar til að greiða fyrir framleiðslu þessarar vörutegundar. Þessar leiðir hafa verið þær, sem ég minntist á áðan, að greiða fyrir að koma vörunni á markaðsstaði með ívilnun á flutningsgjöldum og koma upp góðum geymsluhúsum fyrir kartöflurnar, en þetta hefir verið á öðrum grundvelli, að því, er til framkvæmda kemur, heldur en hér er ætlazt til, að verði samkv. þessu frv. við höfum ætlazt til, að allar framkvæmdir yrðu í höndum framleiðenda sjálfra eða þess félagsskapar, sem þeir mynduðu með sér í þessu augnamiði, og að það yrðu þeir, sem verzluðu með kartöflurnar. Við höfum hugsað okkur á undanfarandi þingum, að í markaðsstöðunum yrðu geymsluhúsin byggð þannig, að myndaður væri samfélagsskapur kartöfluframleiðenda, sem verzluðu með kartöflur og byggðu þessi hús, en nytu styrks frá hinu opinbera til þess að koma þessu í framkvæmd. Höfuðatriðið var, að allar till. stóðu á þeim grundvelli, að framleiðendur sjálfir beittu sér fyrir þessum málum og hefðu allar framkvæmdir með höndum. Mín aðstaða er sú, að ég álít heppilegast, að málið sé leyst á þennan hátt. Hinsvegar hefir hv. þm. Mýr. horfið að því að láta ríkið taka að sér verzlun með þær kartöflur, sem innfluttar eru, og að nokkru leyti með innlendar kartöflur, og að ríkið hafi forgöngu með að koma upp geymslu- og markaðsskála. Þetta er áframhald af þeirri hröðu sókn sósíalista í áttina til allskonar einokunar, sem þeir nú hafa hafið í samvinnu við framsóknarflokkinn og knúið fram svo hröðum skrefum sem raun ber vitni um. Hv. þm. Mýr. hefir við það að komast í þessa nánu samvinnu við sósíalista horfið af þeim grundvelli, sem hann áður áleit heppilegastan. Um þetta hefi ég ekki annað að segja en að ég harma það, að hann skuli hafa horfið frá sinni fyrri stefnu, því ég tel þessa leið sízt til bóta frá þeirri, sem við áður vorum sammála um, að mundi vera líklegust til að greiða fyrir málinu. Frv. er allt byggt upp á þeirri hugmynd að láta ríkið eitt hafa framkvæmdarvald til þess að flytja inn kartöflur og hafa hagnað af því að verzla með þær og láta þennan verzlunarhagnað renna til þess að koma upp geymsluskála og bera verzlunina uppi. Það getur verið rétt að leggja nokkurt gjald á kartöflur í þessu augnamiði, en það bar enga nauðsyn til þess fyrir hv. þm. Mýr. að hverfa til ríkiseinokunar, til þess að fá skatt af kartöflum til fyrirgreiðslu innanlands ræktunar. Það var hægt að leggja verðtoll á innfluttar kartöflur og láta þann skatt renna til þeirra hluta, sem þessi verzlunarágóði á að renna til. Það var mjög einföld leit ef heppilegt þótti að leita þessum málum stuðnings, að leggja þá gjald á aðfluttar kartöflur. — að vísu er bat svo, að unnt á að vera að verzla með innlendar kartöflur, án þess að það sé rígbundið við þetta kartöfluverzlunarfyrirtæki ríkisins. Kartöfluframleiðendum á þó að vera frjálst að selja framleiðslu sína hverjum, sem vera skal. Þó mun þetta frjálsræði bundið við, að þeir selji beint til neytenda, en bundið af ákveðnu verðlagi. Nú hefir það til þessa fyrst og fremst verið gildandi lögmál um verðlag á innlendum kartöflum, að það skapaðist af hlutfalli á milli framboðs og eftirspurnar. Hins vegar hafa oft verið uppi till. um það, og seinast samþ. frá síðasta þingi, sem réttmætt er til stuðnings þessu máli, að takmarka eða banna innflutning á erlendum kartöflum á þeim tíma, sem nógar birgðir af innlendum kartöflum eru til í landinu. Aðalástæðan fyrir því er sú, að greiða fyrir því, að menn geti selt afurðir sínar á þessum tíma. Víða eru erfið skilyrði fyrir því að geyma kartöflur og þess vegna var á þennan hátt nokkuð aukin trygging fyrir því, að framleiðendur gætu fengið það verð fyrir vöru sína, að þeir stæðust kostnaðinn við framleiðsluna, en það þarf ekki að grípa til neinnar einokunar til þess að ná þessum tilgangi. Í lögum frá síðasta þingi er ríkisstjórninni heimilat að láta gjaldeyrisnefnd banna innflutning á erlendum kartöflum á þeim tíma, sem nógar innlendar kartöflur eru á markaðinum. Þarna er ekki farið inn á einokunarbrautina en spursmálið er leyst á þennan hátt. —Þótt nú framleiðendur eigi að fá að selja vöru sína og selja hana beint til neytenda, þá á vertið ekki að vera byggt á samkomulagi milli framleiðenda og neytenda, eins og verið hefir, heldur verður hér sett á stofn ein af þessum n., sem við höfum búið við nú um nokkurt skeið og eiga að vera til þess að verðleggja afurðir bænda, hliðstæð n. við þá, sem verðleggur kjöt, og við þá n., sem ákveður verð á mjólk, og þessa n. á að byggja upp á svipuðum grundvelli. Með þessum nefndarskipunum er horfið inn á þá braut að fela neytendum að ákveða, hvaða verð framleiðendur fái fyrir vöru sína, en hingað til hafa það verið framleiðendur, sem hafa ákveðið verðlagið, og hefir það ekki valdið neinum árekstri í viðskiptum. Hér er svo haldið lengra inn á þá braut með því að láta umboðsmenn neytendanna líka ákveða verð fyrir kartöflur. Ef reynslan hefði sýnt, að framleiðendur væru ánægðir með verðskráningu á kjöti og mjólk, þá væri síður hægt mikið við því að segja, þótt þetta væri fært út á víðara svið, en reynslan hefir orðið sú, að það liggja frammi áskoranir frá bændum um, að þessu verði breytt og það fært í fyrra horf og þeir látnir um að ákveða verð á sinni vöru, eins og verkalýðsfélögin ákveða, hvaða kaups verkamenn skuli krefjast fyrir vinnu sína. Þetta tvennt er hliðstætt og eðlilegt, að það haldist í hendur, og reynslan í þessu efni að undanförnu er sú, að þetta hefir ekki valdið erfiðleikum á nokkurn hátt, að því, er afurðasöluna snertir, en hvað hið nýja skipulag snertir, er óhætt að segja, að bat hefir þegar reynzt svo illa, að það er stórum varhugavert að halda lengra inn á þá braut. Ég er þess vegna andvígur því, að þetta sé tekið upp í frv., að fulltrúar neytendanna ákveði verði á kartöflum, sem einstakir framleiðendur selja einstökum viðskiptavinum sínum, þótt þat jafnvel sé ekki meira en 1/2 tunna. Ég held, að þetta sé óheppilegt fyrirkomulag, og ég vil vekja athygli þeirra hv. þdm., sem á mál mitt hlusta, á því, að bat er varhugavert að fara út af þeirri braut, sem farin hefir verið að undanförnu. Ég vil vekja athygli á því, að það er varhugavert að fara þannig með allskonar verðlagsákvæði, og að fara með verðlag á kartöflum inn á þessa braut uggir mig, að gæti orðið til þess að verka gagnstætt þeim góða tilgangi hv. þm. Mýr. að greiða fyrir sölu á kartoflum og bæta úr á þessu sviði framleiðslunnar, en ég þekki það frá fyrra samstarfi, að hann hefir áhuga fyrir því, að fyrir þessu verði greitt.

Næst kem ég svo að þeim grundvelli, sem ætlazt er til, að verðlagsnefndin byggi verðlagsákvæði sín á. það kann að vera, að ég hafi ekki sett mig nógu vel inn í tilhögun þá, sem gert er ráð fyrir í 10. gr., en mér finnst, að það geti orkað tvímælis, sem þar segir, og að það geti valdið óþægilegum árekstrum við framkvæmd verðskráningar. Það segir hér fyrst í 10. gr. orðrétt þannig: „Verðlag á innlendum garðávöxtum skal ákveðið þannig, að verð um uppskerutímann, frá 15. sept. til 1. nóv., skal lagt til grundvallar“. — Hvaða verð er það, sem nefndin á að leggja til grundvallar? Mér skilst helzt, að n. eigi sjálf að skapa það. (BÁ: Það kemur fram síðar í greininni). — Svo er haldið áfram og ekki um annað talað en nefndin ákveðið verðið, en sagt, að eftir þennan tíma eigi verðið að fara hækkandi, og er það rétt í sjálfu sér, þar sem hæfa verður við geymslukostnaði á þeim kartöflum, sem síðar eru seldar, svo að hann gangi ekki út yfir verðlagið. En átti ekki líka að haga þessu þannig til með kjötið? Hvernig fór það í höndum kjötverðlagsnefndarinnar? (PZ: Í hvaða gr. kjötsölulaganna er talað um það?). — Ég veit ekki, hvort það er í kjötsölulögunum, en ef það er þar ekki, þá hefir n. ákveðið það heimildarlaust, og er bat því verra. Annars er ég hissa á því, að hv. 2. þm. M.-M. skuli nú minnast á kjötsölulögin, því við háðum nokkra sennu um þau nú á dögunum, og ég hélt, að hann fýsti ekki að halda þeim orðaskiptum áfram eða fá gleggri mynd af aðstöðu sinni í kjötverðlagsnefnd heldur en þá kom fram. En þar sem nú kemur fram nýtt frv. um annað hliðstætt mál og sporin virðast stefna inn á sömu braut, þá minntist ég á þetta hliðstæða mál til þess að minna á, hvernig leiðin hefði reynzt. — Svo stendur hér: „Nýir innlendir garðávextir, sem koma á markaðinn fyrir 15. sept„ skulu skráðir hærra verði, því fyrr sem þeir eru afhentir til sölu“. Um þessa nýju garðávexti er svo sagt: „Skal verðlagið miða að því, að tryggð verði framleiðsla snemmvaxinna garðávaxta“. Þarna er það skýrt tekið fram, að verðlagið eigi að miða að því að tryggja framleiðsluna, þannig að framleiðslukostnaðurinn fáist uppborinn í verðlaginu á snemmvöxnum garðávöxtum, en svo koma almennu ákvæðin, sem eiga að tryggja framleiðendum, sem selja á almennum markaðstíma, að þeir fái uppborinn framleiðslukostnað sinn, og þar virðist mér, að ákvæðin stangist allmikið og að óvíst sé, hvað verður ofan á í höndum hinnar væntanlegu verðlagsnefndar. Þar segir svo: „Verðskráning garðávaxta skal aðallega miða við markaðsverð garðávaxta í nálægum löndum, að viðbættum flutningskostnaði“. — Það á að fara að miða verðlag aðallega við það, sem er markaðsverð á garðávöxtum í nálægum löndum. Það er það fyrsta, sem á að leggja til grundvallar, þegar verðið er ákveðið, en svo kemur hitt atriðið, sem nefndin á aðeins, að því er virðist, að líta á sem nokkurskonar aukaatriði, nefnilega þetta: „Þó skal þess gætt jafnframt, að framleiðendum sé tryggt hæfilegt framleiðsluverð“. Aðallega á að miða við verðlag í nálægum löndum, en svo má n. rétt gjóta augunum út undan sér til framleiðslukostnaðarins. Nú skulum við líta á aðstöðuna, sem er til ræktunar í nágrannalöndunum, og þá aðstöðu, sem hér er, og athuga, hvort réttmætt er að leggja verðið í nágrannalöndunum aðallega til grundvallar, og er þá auðsætt, hve fjarstætt það er, þar sem öll framleiðsluskilyrði eru margfalt betri hjá nágrannaþjóðunum heldur en hér á landi. Ég vildi benda á þann reginmun, sem er á því, sem aðallega á að leggja til grundvallar fyrir verðlaginu, og á hinu, sem á að hafa til hliðsjónar, og ég er hræddur um, að verðlagsnefndin eða fulltrúar neytendanna þar geti fest fætur sína svo vel í því bili, sem þarna er á milli, að ekki verði gott að krefja hana reikningsskapar um það að tryggja framleiðsluna, þegar þess er beinlínis krafizt í lögunum, að fyrst og fremst sé miðað við markaðsverð í nálægum löndum. Við stöndum höllum fæti með að segja, að nefndin hafi gengið í berhögg við lögin, þótt verðið sé sett fyrir neðan það, sem framleiðendur þurfa að fá, til þess að þeir beri uppi þann kostnað, sem þeir hafa af framleiðslunni. Það er fullkomlega ástæða til að taka þetta grundvallaratriði nánar til athugunar.

Ég hefi sýnt fram á það, að þótt þessu máli hefði verið haldið á þeirri braut, sem við hv. þm. Mýr. höfum verið með það á að undanförnu, þá hefði mátt ná þeim sama tilgangi, að greiða fyrir sölu á þessari vörutegund og efla framleiðslu hennar innanlands. Þessum tilgangi var hægt að ná, án þess að fara með málið inn á þá braut, sem það nú hefir verið fært á, og án þess að raska því heilbrigða fyrirkomulagi, að láta verðlagið liggja í samkomulagi milli kaupenda og seljanda, með þeim stuðningi, sem felst í því að offylla ekki markaðinn með erlendum kartöflum á þeim tíma, sem nóg er til af innlendum kartöflum, og það er hægt að gera samkvæmt heimild í núgildandi lögum.

Þá er aðeins eitt atriði eftir, sem er nýtt og við hv. þm. Mýr. höfum ekki verið með í þessari mynd, en á að miða að því að ýta undir kartöfluframleiðsluna í landinu, og það eru verðlaunin, sem á að veita í þessu skyni. En ég þykist sjá, að þetta muni bera að sama brunni og þær till., sem við hv. þm. Mýr. höfum verið með áður, og að þetta sé ekki alveg viðbót við það, sem í þeim till. hefir falizt; því jafnframt því, sem þetta ákvæði hefir verið tekið upp, hefir verið fellt niður það ákvæði, sem við höfðum áður verið með, að létta undir með flutning á kartöflum frá framleiðslustöfnum til sölustaðanna, og það ákvæði var mikilsvirði fyrir þá, sem langt þurfa að flytja framleiðslu sína. Ég skal ekki um það dæma, hvort muni vera betra til þess að ýta undir kartöfluframleiðsluna, þau verðlaun, sem hér er gert ráð fyrir, að séu veitt, eða sá stuðningur, sem fólst í till. okkar um að greiða fyrir flutningi vörunnar á sölustaði, því einn aðalþröskuldurinn í vegi fyrir dreifingunni úti um land er vitanlega það, hve kostnaðurinn er mikill við flutninginn bæði á landi og með ströndum fram. Sá kostnaður er meiri heldur en við að flytja vöruna frá öðrum löndum, og þetta gerir aðstöðuna innanlands svo erfiða í samkeppninni við erlendar kartöflur. Ég skal ekkert um það dæma segi ég, hvort muni verka betur þessi verðlaun eða sá léttir, sem fólst í till. okkar áður, en það er áreiðanlegt, að í þeim fólst mikill léttir fyrir framleiðendur og mikil orvun til aukinnar framleiðslu. Mér er nær að halda, að till. okkar um flutningsgjöldin séu meira virði en verðlaunin.

Ég mun við 3. umr. athuga frv. nokkru nánar og bera þá fram brtt. við þau atriði, sem ég hefi nú minnzt á, að mér þættu varhugaverð. Ég álít ólíklegra til úrlausnar og fyrirgreiðslu á kartöfluframleiðslunni í landinu að færa þetta mál inn á þá braut, sem hér er gert, heldur en að halda því á þeirri braut, sem við hv. þm. Mýr. höfum verið með það á á undanfarandi þingum.