20.12.1935
Sameinað þing: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

1. mál, fjárlög 1936

Garðar Þorsteinsson:

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá urðu Ólafsfirðingar fyrir því tjóni síðastl. vor, að óveður skall þar á þeim að óvörum, þannig að þeir gátu hvorki komið bátum sínum inn á Eyjafjörð né náð þeim á land. En eins og menn e. t. v. vita, þá er á Ólafsfirði ákaflega hættuleg höfn að því leyti, að bátar geta ekki legið þar í aftakaveðrum. Það fór því svo, að það rak á land eða eyðilögðust á annan hátt 5 stórir vélbátar og 14 minni bátar. Þetta var á þeim tíma, þegar menn annars hafa aðallega stundað útgerð í Ólafsfirði, þannig að af þessu leiddi stórkostlegt atvinnutjón fyrir þá, sem að útgerð þessara báta stóðu; munu ekki færri en 122 menn hafa misst atvinnu við þetta slys. Tjónið af eyðileggingu bátanna var metið 35 þús. kr., en þar er vitanlega ekki að neinu leyti tekið tillit til þess atvinnutjóns, sem menn urðu fyrir, hvorki beint eða óbeint. Það vildi nú svo illa til, að nær allir þessir bátar voru óvátryggðir, og eins og hefir verið upplýst hér af hv. frsm. minni hl. fjvn., hv. 1. þm. Skagf., þá var ekki hægt fyrir Ólafsfirðinga að hafa bátana vátryggða eins og á stóð. Það hafði verið breytt löggjöfinni, sem um þessi mál fjallar, og Ólafsfirðingar höfðu gert samþykkt um að hafa hjá sér sérstaka vátryggingardeild innan fjarðarins, en til þess að koma því í kring þurfti að fá samþykkta reglugerð o. s. frv. Að vísu hafði verið gert uppkast að reglugerð, en það hafði ekki náð staðfestingu yfirvaldanna. Ólafsfirðingar áttu því ekki sök á því sjálfir, að bátarnir voru óvátryggðir; löggjafarvaldið hafði beinlínis valdið þessu með því að setja ný lög um þetta efni. Þetta tjón Ólafsfirðinga er því alveg sérstakt að þessu leyti, að þeir höfðu það ekki á sínu valdi að hafa bátana vátryggða. Slysið vildi til í júnímánuði, og eins og kunnugt er, þá er mjög óvenjulegt, að slík óveður komi á þeim tíma árs, svo hér er ekki um að kenna neinu fyrirhyggjuleysi, þó bátarnir væru ekki dregnir á land eða komið inn á Eyjafjörð.

Minni hl. fjvn. hefir nú að nokkru leyti orðið við ósk Ólafsfirðinga um að fá þetta tjón bætt, með því að bera fram till. um, að þeim verði greiddar 15 þús. kr. Ég tel nú þessa upphæð allt of lága og geri brtt. um að hækka hana upp í 21500 kr. Miða ég þar við, að greitt verði sem næst 2/3 af hinu beina tjóni, og er þá sleppt öllu tjóni vegna atvinnumissis, bæði beinu og óbeinu.

Síðan ég bar fram þessa till. hefir mér orðið það ljóst, að hún muni ekki geta náð samþykki, en hinsvegar geri ég mér miklar vonir um, að till. minni hl. fjvn. verði samþ. Til þess að verða því ekki að neinu leyti valdandi, beint eða óbeint, að till. minni hl. fjvn. nái ekki fram að ganga, ætla ég þess vegna að taka mína till. aftur. Ég tek það fram, að ég geri það ekki vegna þess, að ég telji ekki fyllilega réttmætt að bæta þetta tjón að sem mestu leyti, heldur aðeins af því að mér er kunnugt um, að mín till. nær ekki fram að ganga, en atkvgr. um hana gæti á hinn bóginn að einhverju leyti truflað framgang till. hv. minni hl. fjvn., sem ég vil mjög eindregið mæla með, að verði samþ.

Ég bar hér fram við 2. umr. till. um það, að manni að nafni Jón Einarsson í Rauðhúsum væri veittur 1000 kr. styrkur vegna kostnaðar af fávita, sem hann hefir á sínum vegum. Þessi till. var felld. Ég hefi nú leyft mér að bera fram aðra till. um að veita þessum manni 300 kr. Það er sú upphæð, sem er mjög algeng, þegar veittur er slíkur styrkur. Sé ég ekki ástæðu til að lýsa högum þessa manns frekar heldur en ég gerði við 2. umr.; ég skal aðeins geta þess, að þessi fáviti er unglingur, sem hann hefir orðið að sjá fyrir, þó hann hafi fleiri börn á heimili sínu og sé bláfátækur. Vænti ég því, að Alþingi hiki ekki við að samþ. þennan litla styrk til manns, sem hefir hingað til frekar kosið að berjast áfram með þennan aumingja heldur en að senda hann á framfæri hins opinbera.