18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Jón Pálmason:

Það eru nokkur atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl. og í síðari ræðu hv. þm. V.- Húnv., sem ég vil fara um nokkrum orðum.

Það kom í ljós hjá hv. frsm. meiri hl., að hann skildi vel, hve það er óviðfeldið að nema úr gildi lög á sama þingi og þau eru sett, en út í það skal ég ekki fara, en ég hygg, að það hefði mátt með tiltölulega litlum breytingum bjarga þessu við. Ég vil víkja að hinu, að hv. frsm. meiri hl. virðist alls ekki ánægður með ýms ákvæði frv., en virðist hallast að sumum atriðunum í mínum brtt., jafnvel þó hann ekki vildi ganga inn á þær af ótta við það, að nýjar breytingar á frv. kynnu að verða því að falli, er svo mjög er áliðið þings. En hitt atriðið, hvort styrkveitingin frá ríkisvaldinu á að notast sem ræktunarverðlaun eða sem flutningastyrkur, tel ég stórt atriði í málinu. Ég er ekki í neinum efa um það, að flutningastyrkur er miklu affarasælli heldur en ræktunarverðlaun, eins og frv. ætlast til. Þá viku þeir báðir, hv. frsm. meiri hl. og þó sérstaklega hv. þm. V.Húnv., nokkuð að því, er hlýtur að verða stórt deiluatriði, sem sé einkasalan. Frsm. 1ýsti því yfir, að því er verzlunina snertir, að hann væri mótfallinn því, að ríkið hefði hana alla, eins og hv. þm. Hafnf. vill, og virðist honum vera það ljóst, sem öllum ætti að vera, að slíkri verzlun hlýtur að fylgja geysimikil áhætta vegna sjúkdóma og skemmdahættu, sem fylgir þessari vöru. Auk þess, sem gera má ráð fyrir eyðileggingu mikilla verðmæta af þeim sökum, mundi tað kosta geysimikla vinnu að sortera vöruna, þegar líður á sölutímann, svo að hagnaðurinn af sölunni mundi allur fara í þann kostnað. En hv. frsm. meiri hl. virðist ekki vera það ljóst, að allir hinir sömu annmarkar fylgja því, að einkasala hefði með höndum verzlun á útlendum kartöflum, ef nokkuð til drátta verður innflutt af þeim. Það mun eftirleiðis verða fylgt sömu reglu og hingað til, að verzlanir úti um land panta ekki nema lítið af þessari vöru í hvert sinn. Þó einkasalan flytti ekki inn í einu nema litla slatta, miðað við verzlunina á landinu öllu, þá yrði það samt svo mikið, að það verður allt önnur aðstaða heldur en nú er. Þar að auki hefir ekkert komið fram, sem sýnir það, að nauðsyn sé, að einkasala verði tekin á útlendum kartöflum. Hv. síðasti ræðumaður mælti kröftuglega með einkasölu á útlendum kartöflum og tók til samanburðar áburðareinkasöluna, en hér er svo ólíku saman að jafna, að það er ekkert líkt. Áburðarverzlunin er í höndum stórra verzlunarhringa, og áburðarvörurnar eru ekki notaðar nema á vissum tíma ársins og eru mjög lítilli skemmdarhættu undirorpnar. Þarna er því um enga áhættu að ræða, alveg gagnstætt því, sem er með kartöflurnar; auk þess þarf að nota þær á öllum tímum árs. Annars ætti það að vera öllum ljóst, að kaup á útlendum kartöflum ættu ekki að eiga sér stað nema til bráðabirgða, og þau ætti stj. að geta haft með höndum, án þess nokkur einkasala kæmi til. Styður því allt að því, að samþ. beri brtt. mína um að fella niður einkasöluheimildina.

Ég ætla svo ekki að lengja umr. fremur en orðið er. Þetta er ekki svo flókið mál, að þess þurfi, enda virðist tilgangslítið að þreyta hér langar ræður, þegar komin er hánótt og hv. þm. flestir horfnir af fundi og farnir að halla sér á vangann og njóta hvíldar.