30.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (3298)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Það var borin fram við 2. umr. þessa máls rökst. dagskrá í sambandi við það, að n., sem um málið fjallaði, klofnaði, og var ég einn algerlega á móti málinu og vildi ekki láta afgr. það. Mín rök voru fyrst og fremst þau, að um þetta mál voru afgr. lög á fyrri hluta þessa þings, og mér virtist þá sæmilegt samkomulag um þá afgr., sem þá fór fram og gekk í þá átt að létta undir með og tryggja sölu á kartöflum innanlands, greiða á þann hátt fyrir sölu þeirra, að kaupendurnir gætu verið öruggir um, að þeir fengju góða vöru, og einnig voru gerðar ráðstafanir til þess að auðvelda flutning á innlendum kartöflum, og kom það ekki aðeins fram í frv. sjálfu, heldur var líka í sambandi við afgreiðslu frv. talað við Skipaútgerð ríkisins um flutning á kartöflum hafna á milli fyrir tiltekið mjög lágt flutningsgjald, sent Skipaútgerðin gekk inn á að ákveða.

Nú er, hér farið fram á að einoka þessa vörutegund og selja hana eingöngu í ríkisverzlun. Þetta fyrirkomulag er mér mjög mótfallið. — Ég tel mjög óheppilegt að fara á einoka sérstaklega þá vörutegund, sem æskilegt er, að sem allra flestir noti og sé sem ódýrust. Nú er það vita, að eins og kartöfluframleiðslu hefir verið háttað hér á landi, þá hefir þessi vara orðið að vera fremur dýr, vegna þess hve kaupgjaldið í landinu hefir verið hátt. Jafnframt er það vitað, að útlendar kartöflur hafa verið seldar hér með mjög skaplegu verði miðað við þá áhættu, sem sú verzlun hefir í för með sér. Þeir, sem með þessa vöru verzla, vita vel, að á henni er mjög hætt við skemmdum, bæði við flutning og geymslu, og að þeir verða að leggja á hana með tilliti til þess, og ég hygg, að álagningin hafi ekki verið um of, þegar þessa er gætt. Nú hefir reynslan orðið sú, að flest eða allt, sem tekið hefir verið í ríkiseinkasölu, hefir hækka? mjög í verði. Ríkiseinkasölur verða að leggja á fyrir sama kostnaði eins og kaupmenn almennt og auk þess mun meira fyrir mannahaldi, sem hefir reynzt meira og dýrara hjá ríkisverzlunum heldur en hjá öðrum verzlunum. Auk þess er, því oftast þannig farið, að þeir menn, sem með þessa vöru verzla, verzla líka með fleiri vörutegundir, og miða því ekki álagningu á þessa vöru nema að litlu leyti við það mannahald, sem þeir hafa. Það er sannfæring mín, og það ræður mestu um afstöðu mína til málsins, að þetta fyrirkomulag leiði til þess, að kartöflur stórhækki í verði. Fyrst og fremst er það, að ríkiseinkasalan hækkar verðið, en auk þess er í frv. gert ráð fyrir, að ekki sé eingöngu lagt á til þess að standa straum af rekstrarkostnaðinum, heldur einnig til þess að ýta undir framleiðsluna innanlands. Allt þetta hlýtur að verða til þess að hækka verðið. Eins getur þá svo farið, að innlendir framleiðendur fari að koma og tilgreina framleiðsluverð, sem á mörgum stöðum er hægt að sýna nokkuð hátt, og þetta verð vilja þeir fá .

Og það mun verða erfitt fyrir ríkið að standa gegn þeim kröfum. — Það væri sannarlega ástæða til að taka frv. Þannig lið fyrir lið, en ég held, að ég hafi gert það við 2. umr. og vil því ekki lengja umr. nú. Ég vil aðeins benda á sérstöðu mína í þessu máli og undirstrika það álit mitt, að lögfesting frumvarps þessa mundi verða til þess að hækka vörurnar í verði, sem ég tel alveg óforsvaranlegt, jafnvel þótt löggjöfin kunni með því að ýta eitthvað undir innlenda framleiðslu. En hina innlendu framleiðslu væri hægt og er rétt að styðja á annan hátt, svo sem með því að sjá svo um, að þeir, sem búa við beztu skilyrðin, séu örvaðir til framleiðslu vörunnar, t. d. með styrk í einhverri mynd, og þá sérstaklega í því formi, að, létt yrði undir með flutning uppskerunnar til markaðsstaðar, en hinir, er við lakari framleiðsluskilyrði búa, létu sitja við að framleiða handa sjálfum sér. Ég vil vísa til dagskrár minnar frá 2. umr. um það, að málið verði látið bíða.