30.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2316 í B-deild Alþingistíðinda. (3305)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti. Hér er rétt eitt einkasölufrv. á ferðinni, og á nú að snúa sér að því að koma á ríkisrekstri á jarðarávöxtum, kartöflum og grænmeti, taka í hendur ríkisins allan innflutning á þessum vörum og sölu á öllu því vörumagni, sem framleitt er innanlands af þessu tægi, sem ekki tekst að selja til neytenda strax, þegar uppskeru er lokið. — Þetta frv. er nú í aðaldráttunum ósköp svipað öðrum einkasölufrv. að því leyti, að það stefnir að því fyrst og fremst að taka umráðarétt af þeim, sem með þessa vöru fara og hingað til hafa haft til sölu og lagt fram fé til þess að geyma innlenda uppskeru frá því, að uppskeru er lokið og þangað til þessi vara kemst til neytenda. Þetta liggur náttúrlega í eðli málsins. En það eru mörg og merkileg atriði í þessu frv., sem vissulega er ástæða til að gera glögga grein fyrir. Ég þykist hafa séð mörg atriði í frv., sem bera vott um ónóga athugun á því, hvað verið er að gera með slíkum lögum sem þessum. Til frv. hefir verið kastað höndum svo gersamlega, að ekki er hirt um, að nein meining sé í ákvæðum um svo stórkostlega ákvörðun ríkisvaldsins um að grípa fram í þau viðskipti, sem byggjast á framleiðslu þessarar nauðsynjavöru og þeim innflutningi, sem verið hefir.

Höfuðatriði frv. er nú það, að grænmetisverzlun ríkisins á nú að hafa allan einkarett til innflutnings á kartöflum og grænmeti til landsins. Hún á og að hafa skyldu til að kaupa allt, sem fram er boðið af innlendri framleiðslu þessara jarðarávaxta. Í þessu skyni er ætlazt til, að þessi stofnun setji upp geymslur og hafi útibú víðsvegar á landinu, þar, sem forstöðunefnd stofnunarinnar akveður. Og mér þykir líklegt, að það verði að vera á segjum tíu stöðum á landinu. því að vitanlega koma fram kröfur um það að fjölga slíkum stoðum, og það innan skamms, þegar það kemur í ljós, að mikilsvert er fyrir framleiðendurna að hafa þessa ríkisstofnun nærri, til þess að geta fært henni þá uppskeru, sem þeir nota ekki sjálfir. Þá er eðlilegt, að undan þeirri kröfu verði látíð, að hafa upplagspláss og forstöðunefndir og forstöðumenn fyrir þessar birgðir, sem ríkið verður að taka að sér að kaupa og geyma. Nú segir ennfremur, að geymslurúm skuli vera á hverjum stað þar, sem hentugt þykir að hafa það, og er skylt að kaupa þær innlendar kartöflur, sem berast að, eftir því, sem geymslurúm og markaðsþörf leyfa. Ég á erfitt með að gera mér grein fyrir, hvernig á að samræma þetta tvennt, að grænmetisverzlunin kaupi allar kartöflur fyrir gildandi innkaupsverð, og svo þetta: eftir því, sem geymslurúm og markaðsþörf leyfir“. Ég veit ekki, hvort þetta á að skilja svo, að hér sé um tvær sambærilegar stærðir að ræða, sem ákveða eigi verðið eftir. Geymslurýmið fer auðvitað alveg eftir því, hvað forstöðumennirnir leigja eða byggja það stórt. En að fara eftir markaðsþörfinni — hvað þýðir það? Er það söluþörf framleiðendanna? Ef svo er, þá takmarkast innkaupin af allt öðru en geymslurúmi. Ég fæ ekki séð, hvernig þessar tvær línur skerast. (SK: Ætli það sé ekki átt við magarúm?). Ekki eftir orðanna hljóðan. — En sé hér átt við söluþörf framleiðendanna, er eðlilegra að staðið hefði: „markaðsþörf krefst“. Mér er annars hulin ráðgáta, hvaða vit er í þessu. Ef til vill er það tilætlunin, að stjórn fyrirtækisins gangi út frá markaðsþörfinni og reikni til með hana fyrir augum, hve mikið geymslurúm þurfi, en í frv. er þetta allt í þoku. Ég gæti bezt trúað, að stjórn þessarar verzlunar botnaði ekkert í því, hvað þessi fyrirmæli þýða. Ég hefi viljað sýna, hvaða hugrenningar þau vektu hjá mér sem leikmanni, og þætti gott ef aths. mínar gætu orðið n. að liði. — Þá er það ákvæði, að hver landshluti sé látinn fullnægja sinni neyzluþörf, eftir því, sem því verður komið við. Það er skynsemi í þessu, að spara þannig flutninga á kartöflum og tryggja það, að þeir, sem næstir búa markaðinum, njóti hans fremur en þeir, sem fjærst búa. En ég held þó, að erfitt verði að koma mati á þetta, hvenær landshluti fullnægir sinni neyzluþörf. Það þarf glöggan mann til þess að vita fyrirfram uni neyzluþörf og framleiðslu í hverju héraði og landshluta. — Ég sé á 12. gr., að tilætlunin er að fela S. Í. S. einokun á allri grænmetisverzluninni, og má þá gera ráð fyrir, að það verði kaupfélagsstjórarnir, sem ákveði „markaðsþörfina“, neyzluþörf og geymsluþörf, eins og vikið er að í 3. gr. Ég skal ekki draga speki kaupfélagsstjóranna í vafa, en ég held, að það geti þó verið varhugavert, að þeir megi vaða í ríkissjóðinn eftir geðþótta eftir því, hve mikið þeir, vilja kaupa, geyma og selja af kartöflum. Ég tel alveg óforsvaranlegt að fela hvaða kaupfélagsstjóra sem er í holu úti á landi annað eins vald yfir ríkissjóðnum. — Þá er enn ein setning í 3. gr., sem vert er að athuga betur. Hún er svona: „Eftir því, sem fært þykir, skulu þeir framleiðendur látnir sitja fyrir um kaup að haustlagi, sem erfiðast eiga um flutninga að vetrarlagi“. — Hvert þá að vetrarlagi? Líklega á aðalmarkaðinn í Rvík, því sennilega færi „yfirproduktionin“ á þann markað. — Ég vil skjóta því hér inn í, að hér er sjálfsagt átt við sölu, en ekki „kaup“, þó að svo standi í frv., og er þetta enn eitt dæmi þess, hve þetta frv. er ljóst hugsað, eða hitt þó heldur. — Ef hér er átt við flutninga til markaðsskálanna innanhéraðs, sem ætla má, að verði nægilega margir, sé ég ekki neina þörf á þessu ákvæði né neina sérstaka sanngirni í því. Mér finnst, að báðir þeir framleiðendur, sem búa fjarri og nærri útibúi (og um geysimikinn aðstöðumun ætti aldrei að vera þar að ræða), eigi jafnan rétt á að selja það, sem umfram er þörf heimilisins. því eru öll líkindi til þess, að hér sé miðað við aðalmarkaðsstaðinn, sem er Rvík. Nú er t. d. framleitt mjög mikið af kartöflum á Akranesi, sem hingað til hafa að miklu leyti verið einar á innlenda kartöflumarkaðinum í Rvík. Ef aðrir eiga nú að fara að öðlast forgangsrétt um sölu á kartöflum hingað, af því að þeir búa lengra frá, þá er komið á sama fyrirkomulag og í mjólkurmálunum, sem sé það, að láta þá, sem bezta aðstöðu hafa gagnvart markaðinum, bíða þangað til hinir eru bunir að selja. Hér er auðsjáanlega alveg um hið sama að ræða, og ég á bágt með að trúa því, að nokkur hv. þm. greiði slíkri fásinnu atkv., að menn séu látnir gjalda hinnar góðu markaðsaðstöðu sinnar með því að vera látnir bíða, þangað til þeir, sem verri aðstöðu eiga, eru búnir að selja upp. En ef þetta felst ekki í till., þætti mér gaman að vita, hvað það er. Afleiðingin af samþykkt slíks ákvæðis hlýtur að verða sú, að Akurnesingar og aðrir framleiðendur í nágrenni Reykjavíkur verða að bíða þangað til t. d. Eyfirðingar og Þingeyingar hafa selt sínar kartöflur!

Auðvitað er innflutningsbann í sambandi við hina nýju einkasölu. 4. gr. hljóðar svo: „Heimilt er landbrh. í samráði við Búnaðarfélag Íslands og grænmetisverzlun ríkisins að banna innflutning á þeim tegundum garðávaxta, sem framleiða má í landinu sjálfu og grænmetisverzlun ríkisins annast ekki innflutning á, eftir því, sem nauðsynlegt kann að vera til þess að tryggja markað fyrir innlenda framleiðslu“. Ég býst við því, að flestum muni þykja þetta nokkuð torskilið, svo að ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það aftur (Endurtekur greinina.) Hér er svo mörgum atriðum hrúgað saman, að þörf er á að greina allt í sundur. Fyrst er þá það, að landbrh. sé heimilt að banna innflutning á þeim tegundum garðávaxta, sem framleiða má í landinu sjálfu og grænmetisverzlun ríkisins annast ekki innflutning á. Ég vil biðja hv. frsm. landbn. að upplýsa mig og aðra jafnfáfróða um það, hvaða tegundir koma hér til mála. því að í 2. gr. stendur: „Stofnun, sem nefnist grænmetisverzlun ríkisins, annast innflutning og verzlun kartaflna og annara garðávaxta samkv. lögum þessum“. Mér þykir svo gaman að vita, hvaða tegundum garðávaxta grænmetisverzlunin annast ekki innflutning á, eftir að búið er að ákveða í lögunum, að hún skuli annast innflutning á kartöflum og öðrum garðávöxtum. — Þá kemur merkileg grein, sem mun vera 5. gr. Þar segir svo, í 1. mgr.:

„Grænmetisverzlun ríkisins er heimilt að leigja eða láta reisa í Reykjavík geymslu og markaðsskála fyrir kartöflur og aðra garðávexti, sem framleiddir eru í landinu og ætlaðir eru til sölu innanlands“.

Þarna hefir það alveg gleymizt, að verzlunin á. samkv. 2. gr., að annast ein innflutning á kartöflum og öðrum garðávöxtum. Hér er hinsvegar aðeins talað um geymslu og markaðsskála fyrir þær kartöflur og garðávexti, sem framleiddir eru í landinu, og þar með óbeinlínis bannað að leigja eða láta reisa hús í Reykjavík undir þær vörur, sem verzlunin flytur inn í landið. Annars væri alveg óþarft að taka það fram, að vörurnar skuli vera framleiddar í landinu sjálfu, ef leyfilegt væri að reisa eða leigja skála fyrir hinn erlenda varning líka. Ég veit ekki, hvernig stjórn grænmetisverzlunarinnar fer í kringum þetta ákvæði. Auðvitað hlýtur hún að hafa það að engu í framkvæmd, en eftir orðalagi gr. er grænmetisverzluninni alveg óheimilt að geyma erlenda garðávexti í skálum sínum. Hinsvegar má grænmetisverzlunin reisa slíka geymslu- og markaðsskála úti um land eftir þörfum, án þess að tekið sé fram, að þeir séu eingöngu fyrir innlenda framleiðslu, svo að þar er geymslan á erlendum garðávöxtum heimiluð óbeinlínis.

Þá eru ákvæði um það, að skipaðir skuli kartöflumatsmenn allsstaðar þar, sem til greina getur komið, að kartöflutunna verði seld. Þeir eiga að fá erindisbréf, og skal verzlunin greiða allan kostnað við matið að svo miklu leyti sem framleiðendur og neytendur hafa verið ánægðir með viðskiptin sín á milli hingað til, án þess að til matsmanna kæmi, er þetta alveg óþarft. Ég vil ekki fullyrða, að það sé óþarft, ef svona milliliður kemur inn á milli framleiðanda og kaupanda, eins og hér er talað um, sem er grænmetisverzlun ríkisins. En það er fyrst vegna þessarar tilhögunar, að það verður verulegur kostnaður að þessu atriði — sem sé mati á grænmeti.

Þar að auki á náttúrlega að skipa n., sem situr hér í Reykjavík og á að ákveða verðlag á grænmeti víðsvegar um land. Það verður náttúrlega 5 manna n. og ríkisstj. skipar form. en ýmsir aðiljar skipa hina nm. En þeir eiga að vísu að starfa kauplaust í þetta sinn, og er það merkileg nýjung í þessari löggjöf, að það er talað um, að það sé borgaraleg skylda að vera í þessari n. Líklega þýðir þetta sama sem að þessir nm. verði valdir úr hópi starfsmanna ríkisins, sem ekki eiga að sér þetta verk fyrir ríkisvaldið. Og þá fyrst og fremst vegna þess, að þeir geta átt á hættu, ef þeir neita að taka þetta að sér, að sæta afarkostum af ríkisvaldinu. En mér þykir líklegt, að það verði torvelt að neyða aðra til þess að taka þetta að sér heldur en þá, sem ríkisvaldið hefir einhver slík tök á. Ég segi heldur ekki, að ekki megi finna menn til þess úr hópi starfsmanna ríkisins, og er það merkileg nýjung, að þeim er ætlað að leggja fram krafta og tíma kauplaust.

Svo kemur í 10. gr. ákvæðið um verðið. Það eru ákaflega merkileg ákvæði, sem þar er að finna. Þar segir í tveimur stöðum, að tryggt skuli framleiðsluverð svo kallað. Það er mikið tönnlast á framleiðsluverði nú á dögum, sem að vísu er eins margskonar og framleiðendurnir eru margir. Það er það merkilega við framleiðsluverðið, að það þýðir eftir eðli málsins það verð, sem framleiðslan endanlega kostar, og þess vegna er það eins margvíslegt og framleiðendurnir eru margir. En náttúrlega má finna út meðalverð á framleiðslu allra framleiðenda, en það verður aldrei nákvæmt. Þess vegna er það dálítið út í hött að tala um framleiðsluverð, það verður aldrei annað en innihaldslaust orð, sem hefir enga meiningu. En hitt er annað mál, að í daglegu tali þýðir framleiðsluverð almennt það verð, sem framleiðendur koma sér saman um að segja, að þeir þurfi að fá fyrir vörur sínar til þess, að borgi sig að framleiða þær. En í gr. segir meira. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðskráning garðávaxta skal aðallega miða við markaðsverð garðávaxta í nálægum löndum, að viðbættum flutningskostnaði. Þó skal þess gætt jafnframt, að framleiðendum sé tryggt hæfilegt framleiðsluverð“.

Þarna er um tvær ósambærilegar stærðir að ræða, þar sem sagt er, að verðskráningu skuli miða við markaðsverð erlendis, að viðbættum flutningskostnaði, en í framhaldi gr. segir, að þess skuli jafnan gætt, að framleiðendum sé tryggt hæfilegt framleiðsluverð. Hvers vegna á að miða við markaðsverð erlendis og framleiðsluverð hér? Það er stórmerkilegt, að ekki skuli vera miðað við framleiðsluverð erlendis, því að það er ekkert víst, að markaðsverð þar komi neitt nærri því að vera framleiðsluverð Mér þykir ákaflega furðulegt, að sá, sem samið hefir frv., virðist ekki hafa tekið eftir þessu. Það hefði þó verið samræmanlegra að segja, að innkaupsverð hjá grænmetisverzluninni skyldi miðað við framleiðsluverð erlendis, að viðbættum flutningskostnaði, og framleiðsluverð innanlands. Nei, það er ekki. Það er markaðsverð erlendis og framleiðsluverð hér. Þetta tvennt vísar sitt í hvora áttina, svo að það er engan botn hægt að finna í þessum fyrirmælum. Hugsa mætti, að nú ætti að taka meðalverð af þessum tveimur ólíku verðum. En ekki dugir það, því að þá er engin vissa fyrir því, að tryggt sé hæfilegt framleiðsluverð hér. Ég þori að fullyrða, að hverjir sem skipa stjórn þessa verzlunarfyrirtækis, er alveg ómögulegt fyrir þá að fullnægja ákvæðum gr. og taka fullt tillit til hvorutveggja. Með öðrum orðum, þetta er eintóm grautargerð og vitleysa, nema ef gera ætti ráð fyrir, að til grundvallar fyrir þessu lægi, að það ætti að segja við neytandann: Þessi löggjöf er ágæt fyrir þig, því að verðlagið á að miða við markaðsverð erlendis að viðbættum flutningskostnaði. En svo á að segja við framleiðandann: Ekki þarft þú að kvarta, því að þér er tryggt framleiðsluverð fyrir þínar afurðir. Svona mætti nota þessi ákvæði. En til framkvæmda eru þau ekki annað en hugsanagrautur og bull. Hér er líka ákaflega þægileg gjöf til neytendanna, ef maður athugar kringumstæðurnar hér á landi. Hér segir: „lnnflutta garðávexti má aldrei selja hærra verði enn innlenda, miðað við sömu gæði“. En það vita allir, að innlendir garðávextir eru svo dýrir, að dæmi eru til, að þeir hafa verið allt að því fimmfalt dýrari en erlendir garðávextir, sem hingað hafa verið fluttir á sama tíma.

Í 11. gr. frv. eru ákvæði um það, að ágóðanum, sem kynni að verða af þessari verzlun, skuli varið til þess að byggja markaðsskála og stofna varasóði. Heldur þykir mér það óvarlegt, ef mikill ágóði verður af þessari starfsemi, að byggja stóra markaðsskála víðsvegar úti um land, vegna þess að hv. frsm. landbn. sagði áðan í umr., að það væri engin hætta á, að þessi stofnun stæði lengi. Hann sagði, að eftir 2 eða 3 ár mundi stofnunin lögð niður, því að þá yrði framleitt nóg af garðávöxtum í landinu sjálfu og tilgangi laganna væri þá fullnægt. Ef hv. frsm. hefir meint þetta, já þykir mér hann ekki hafa gert sér nægilega grein fyrir þessu máli. Ég er sannfærður um það, að þá fyrst þykir ástæða til þess að halda þessari stofnun áfram, þegar framleiðslan er orðin meiri en svo, að markaður sé fyrir hana innanlands. Hvernig er með kjötið? Var það ekki þess vegna, að kjötlögin voru sett, að ekki var nógur markaður í landinu? Hvernig færi þá með kartöflurnar? Nú eru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að auka kartöfluframleiðsluna, og eftir því, sem lýst er, hvernig þessi framleiðsla hefir aukizt á síðustu árum. Þykir mér ekki ótrúlegt, að það mundi takast áður en mörg ár líða að auka svo framleiðsluna, að hún verði um of. En ég held, að framleiðendur megi vara sig, þegar að því er komið, að framleiðslan er orðin of mikil, til þess að markaðurinn innanlands nægi, því að sannleikurinn er sá, að ástandið getur ekki verið betra en það er fyrir þessa framleiðendur, því að þeir losna við alla framleiðsluna strax. Þess vegna er svo langt frá, að þetta sé hagsmunamál fyrir kartöfluframleiðendur, að kartöfluframleiðslan sé aukin og að því komi, að markaðurinn verði of þröngur, því að það þýðir óhjákvæmilega, að verðið fari niður úr öllu valdi, nema með því móti að halda grænmetisverzlun ríkisins áfram og aðstoða framleiðendur til þess að halda uppi óeðlilega háu verði á framleiðslunni. Þess vegna er það svo mikil fjarstæða, að þessi stofnun muni aðeins standa um fá ár, því að þá fyrst er ástæða að styðja framleiðendur, þegar markaðurinn er orðinn of þröngur. Og ríkisvaldið er að vinna að því, að markaðurinn verði of þröngur, nema að eigi að snúa því við, sem upp er komið nú, að hvetja menn með verðlaunum til þess að auka framleiðsluna, að í staðinn verði farið að eins og Roosvelt gerir í Ameríku, að kaupa menn til þess að hætta við framleiðsluna. Ég held, að það sé alveg óþarft að hvetja menn með verðlaunum til þess að auka kartöfluframleiðsluna, því að eftirspurnin og bættar aðgerðir sjá fyrir því, að framleiðslan eykst af sjálfu sér.

Þetta mál er eitt af þeim málum, sem ber ljósan vott þess, hvað meiri hl. hér á Alþingi hefir litla tilfinningu fyrir því að vernda okkar íslenzku krónu. Það er eitt af því, sem séð verður af þessu frv. Það er sama hugsunin og kemur fram vita, að það geri í sjálfu sér ekkert til, hvað kosti að framleiða þarfir landsmanna, bara að spara gjaldeyrinn. Þeir segja, að það borgi sig betur að framleiða poka af kartöflum, þó að þið kosti 10 kr., heldur en að kaupa hann frá útlöndum fyrir 1 krónu. Þetta ber vott um fyrirlitningu fyrir þeim mikilsverða hlut í okkar þjóðarbúskap, sem heitir íslenzk króna. Þessi fyrirlitning, sem hér kemur fram á íslenzkri krónu, að íslenzk mynt eigi alltaf að vera undirlægja allra erlendra mynta, er dauðadómur yfir fjárhag þessa þjóðfélags. — Ég þykist hafa sýnt fram á með þessum fáu orðum, að þetta frv. er að mörgu leyti vanhugsað, og ég hefi spáð því, að það muni hafa allt aðrar afleiðingar heldur en menn hafa gert sér grein fyrir. Framsóknarmenn hafa neytt sósíalista til þess að hjálpa sér til að koma þessu máli fram, svo að þeir geti komið að við þessa ríkisstofnun ýmsum af þeim mönnum — bitlingaliði —, sem þeir hafa á vegum sínum, og til þess að geta tekið þetta af þeim mönnum, sem nú hafa verzlun þessa með höndum, bæði til þess að spilla fyrir þeim og líka til þess að gleðjast yfir því að fara með slík völd í þjóðfélaginu. En ég held, að það verði stutt þangað til það kemur í ljós, að að þessu verði engin gleði. hvorki fyrir framleiðendur eða neytendur þessara vörutegunda.