19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (3355)

173. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfirl.]:

Ég skal reyna að spara fundartímann svo sem ég get. Ég kann ekki við annað en láta nokkur orð fylgja brtt. meiri hluta allshn. á þskj. 899. Minnihluti n. var ekki á fundi n., er mál þetta var afgr., enda gat hann heldur ekki orðið sammála um allar brtt. — Tilefni þess, að brtt. þessar koma fram, byggist á því, að samkv. 1. gr. frv. er svo frá gengið, að allir þeir bílar, sem ekki komast undir skipulagið, eru útilokaðir frá því að vera á þeim leiðum, þar sem einkaleyfi eru veitt. Var erfitt að finna verkefni fyrir þá mörgu bíla, sem hindrunarlaust hafa ekið á þessum leiðum, nema að þeim væri a. m. k. gefið leyfi til að aka á þeim leiðum, þar sem einkaleyfi eru ekki á. Þetta er það, sem fyrsta brtt. fer fram á. Ef það væri ekki gert, mundu allmargir eigendur hinna smærri bíla missa mikla atvinnu. Brtt. þessi er þess vegna nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir allt of mikið misrétti. — Önnur brtt. er um skipun 5 manna nefndar, sem á að gera till. til póstmálastjórnarinnar um fyrirkomulag og rekstur allan á flutningum samkv. lögum þessum. Í 3. gr. l. frá í fyrra er ákveðið, að n. þessi skuli skipuð 3 mönnum eingöngu frá sérleyfishöfum. Nú er þessum mönnum fjölgað um tvo, og skulu nú vera 5 í nefndinni. 4 af þeim eru fulltrúar þeirra aðilja, sem hlut eiga að máli, og virðist með því fundið nokkurn veginn réttlátt fyrirkomulag, þannig að allir þeir, sem hlut eiga að máli, ættu að geta við unað. Í stað 3 manna nefndar frá sérleyfishöfum, á nú að koma 5 manna nefnd frá öllum aðiljum, og er ætlazt til, að póstmálastjórnin fari að till. n. — Ég skal geta þess, að till. þessar eru í fullkomnu samræmi við vilja póstmálastjórnarinnar, sem á að hafa yfirstjórn þessara mála, og einnig hæstv. atvmrh, svo ég býst við, að orðið geti nokkurnveginn friður um fyrirkomulagið. Um frv. sjálft er enginn ágreiningur heldur aðeins um þessa viðbót. Ég hefi átt tal við hv. minni hl. n. (MG: Hver er minnihlutinn?) Það er hv. þm. N-Ísf., og hefir hann, svo ég viti, ekkert að athuga við brtt. annað en sunnudagsferðirnar til Þingvalla.