19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (3358)

173. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það er náttúrlega sitt af hverju, sem ástæða hefði verið til að athuga í sambandi við þessar brtt., en þar sem orðið er áliðið dags, mun ég láta nægja með örfá orð.

Þetta er n ú breyting á lögum frá þessu sama ári. Hún gat ekki fyrr komið fram en þetta. Það sem um er rætt, er, hvort skipulagið eigi að ná til smærri bíla en 6 manna. Ég lít svo á, að það sé ekki heppilegt. Ég er enn sömu skoðunar og í fyrra, að ekki sé a. m. k. fyrst um sinn rétt að taka þá undir skipulagið, og ástæða sú, sem færð er fyrir till., er að mínu viti mjög vafasöm. Ég tel því, að smærri bílarnir séu utan við skipulagið, einu trygginguna fyrir því, að fargjöldin verði sanngjörn. Ég skil ekki almennilega, hvaða kvaðir það geta verið, sem eiga að hvíla á stærri bílunum, en hinir smærri komast hjá, nema þá póstflutningarnir og það, að þeir verða að fara fastar ferðir. Ef reynslan er sú, að stærri bílarnir geta ekki staðizt samkeppni við hina smærri, þá virðist það benda til, að ekki sé svo næsta heppilegt að hafa þessa stærri bíla. Ég fullyrði ekkert um þetta, en það er aðalástæðan fyrir því, að ég get ekki verið með þessum brtt. — Um það að láta Alþýðusambandið eiga einn fulltrúa í þessari n. er ég sammála hv. þm. N.-Ísf., að það sé fjarstæða. Sú ástæða fyrir till., að Alþýðusambandið sé fulltrúi landslýðsins er beinlínis hlægileg. Það er fullkunnugt, að Alþýðusambandið er stórpólitískt félag, og er mjög fjarri því, að bílanotendur geti viðurkennt það sem sinn fulltrúa. Það mætti alveg eins koma með till. um það, að láta sjálfstæðisfélögin í landinu nefna fulltrúa í n. fyrir landslýðinn. Nei, í n. eiga ekki að vera aðrir en fulltrúar þeirra aðilja, sem þarna eiga hlut að máli, en það eru náttúrlega sérleyfishafarnir og ráðh. og svo bifreiðastjórarnir. Að fara að bendla fleiri menn eða stofnanir við þessa nefnd, sem hefir þó ekki heldur meira en ráðgefandi vald, er hreinasta fásinna.