12.11.1935
Efri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (3381)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Sigurjón Á. Ólafsson:

Þar sem þetta mál liggur fyrir til 2. umr. og nál. er fram komið í þskj. 125, frá meiri hl. menntmn., hafði ég búizt við, að frsm. n. kveddi sér hljóðs. Úr því að svo varð eigi, vildi ég ekki láta hjá líða að kveðja mér hljóðs út afbrtt. þeim, sem við hv. 4. landsk. höfum leyft okkur að bera fram.

Það er rétt, að ég fari örlítið aftur í tímann, þegar ég minnist í þetta mál. Þetta frv. mun fyrst hafa komið inn í Alþingi árið 1929, og var þá mitt hlutskipti að hreyfa málinu. Það mætti andúð og náði ekki fram að ganga, og svo hefir verið fram á þennan dag, að ekki hefir blásið byrlega fyrir því. Nú er það loks búið að ganga gegnum Nd. og komið hér til 2. umr.

Ég verð að segja það, að eins og frv. er nú úr garði gert tel ég litla framför að, þó það yrði að l., ef litið er á það, að markmið frv. er fyrst og fremst að létta undir með þeim, sem kosta eiga börn til náms í þessu landi, að því er bókakaup snertir. En út í það skal ég ekki fara frekar nema tilefni gefist til. Þetta er aðeins minn persónulegur dómur um, hvernig frv. er nú orðið og hvaða hlutverk því var ætlað að hafa.

En nú liggja hér fyrir brtt. á þskj. 509. sem ég og hv. meðflm. minn höfum leyft okkur að bera fram. Ég skal fúslega játa, að þessar brtt. eru allmiklar, bæði að efni og vöxtum, og gerbylta frv. Við töldum þó rétt upp á framgang málsins að bera þetta fram í brtt.formi í stað þess að bera fram nýtt frv., þar sem það ætti að hraða gangi málsins, að gamla frv. átti aðeins eftir að fara gegnum 2 umr. hér í d. og þá eina í Nd. En efni þessara brtt. er þess eðlis, að full ástæða er til, að frv. nái lögfestingu þegar á þessu þingi, því í stórum dráttum er það það, að látnar skuli í té ókeypis skólabækur til þeirra barna, sem lögum samkv. eru skyld til að ganga í skóla. Sú hugsun vakti þegar í upphafi fyrir mér og öðrum, sem að málinu stóðu, að þetta væri markmiðið, sem keppa bæri að, þó ekki væri frekar á stað farið en það, að ríkið skyldi gefa út bækurnar og útbýta gegn kostnaðarverði.

Nú hefir einn hagkvæmur maður í okkar landi þegar bent á leið til þess, sem sjá má í grein í Alþýðublaðinu, hvernig þetta megi gera vitaókeypis. Sú leið er í raun og veru svo einföld sem frekast getur verið. Hér á að leggja skatt á þau heimili, sem börn hafa í skóla, án tillits til barnafjölda, sem reiknað er til, að ekki þurfi að nema meiru en 5 kr. á hvert heimili. Nú telja fróðir menn, að hér séu um 8000 heimili í landinu, sem eigi börn í skólaskyldualdri. Er þá fljótreiknað dæmi, að þau myndu greiða um 40000 kr. Fyrir þá upphæð telja sérfróðir menn, að megi gefa út allar þær skólabækur, sem yfirleitt er krafizt að börn noti í skólum landsins. Hvað er þá unnið með þessu, munu menn spyrja. Ég get sagt mína sögu, og ég veit, að það eru hundruð heimila, sem geta sagt sömu sögu, að skólabókabyrðin er afskaplega þung þar, sem mörg eru börnin. Hér er ekki um að ræða neitt, sem menn geta komizt undan. Lögin heimta, að börnin séu í skólum og hafi bækur, hvernig sem gengur að láta þær í té. Í grg. brtt. er komizt að þeirri niðurstöðu, að lögboðnar skólabækur kosti um 11 kr. á ári á hvert barn, miðað við 4 ára skólaskyldu. Hygg ég, að hér sé ekki of djúpt tekið í árinni, a. m. k. bendir mín reynsla á, að um stærri upphæð sé að ræða. En slái maður föstu, að þetta sé það almenna, að hvert heimili greiði 11 kr. á ári fyrir skólabækur handa hverju skólaskyldu barni, þá sjáum við, hvað mikill hagnaður það yrði fyrir öll heimili, rík og fátæk, ef hægt væri að fullnægja þessari skyldu með einum fimm kr. á ári.

Með þessu er ég eiginlega búinn að lýsa efni brtt. Ég get að vísu farið út í einstakar greinar þeirra, en í raun og veru skýra þær sig sjálfar.

1. gr. fjallar um það, að gera skuli skrá yfir þær námsbækur, sem nauðsynlegar eru til barnafræðslunnar í landinu samkv. fræðslulögum, og hverjar kröfur skuli gera um efni þeirra.

2. gr. ákveður, að ríkið skuli gefa út þessar bækur og dreifa þeim út eftir ákvæðum þessara laga.

Þá kemur 3. gr., sem ákveður, hver skuli annast ritstjórn kennslubókanna. Er það n., með fræðslumálastjóra sjálfkjörnum form. og tveimur öðrum mönnum, annar kosinn af Sambandi ísl. barnakennara, en hinn af ráðherra. Hér er fyrir því séð, að bækurnar, sem valdar eru, séu í samræmi við anda fræðslulaganna og það, sem stjórn fræðslumálanna og kennarastéttin telur rétt vera á hverjum tíma. Tel ég ekki þörf á að fara ýtarlegar út í það.

4. gr. ræðir um, hver á að annast prentun og útgáfu skólabókanna. Liggur nærri, þar sem ríkið sjálft á prentsmiðju, að hún annist útgáfuna. En hún á að gera meira. Hún á einnig að annast heftingu eða band bókanna og útsendingu þeirra til hinna ýmsu skólahéraða landsins.

5. gr. fjallar um útsendinguna og hvernig fá skal nokkurnveginn vissa tölu þeirra barna, sem útbýta þarf til.

Í 6. gr. er gert ráð fyrir, að ríkið greiði allan kostnað við útgáfu og útsendingu bókanna. Þennan kostnað á svo að fá inn með skatti þeim, sem ég minntist á áðan, 5 króna nefskatti á hvert heimili, sem skólaskyld börn hefir, er innheimtist með öðrum opinberum gjöldum. Um það ræðir í 7. gr. Hinsvegar er gert ráð fyrir, að fyrsta árið þurfi e. t. v. að gefa út fleiri bækur heldur en skattgjaldið hrekkur fyrir, e. t. v. tryggja sér upplög, sem til eru, o. s. frv. Því er gert ráð fyrir, að ríkið geti þurft að sjá fyrir lánsfé fyrstu árin, sem greiðist svo síðar með skólabókagjaldinu.

8. gr. gerir ráð fyrir, að skóla- og fræðslunefndir feli skólastjórum og umferðakennurum útbýtingu bókanna á meðal skólaskyldra barna. Ætlazt er til, að hér sé engin bruðlun höfð í frammi og fullkomið eftirlit sé haft með því, að ekki sé látið úti meira af bókum heldur en hæfilegt og nauðsynlegt þykir.

9. gr. fyrirskipar, eins og sjálfsagt er, að þessar bækur megi ekki ganga kaupum og sölum. Þær eiga að sjálfsögðu að vera eign þeirra, sem þær eru fengnar í hendur, og ekki annara.

Þá er 10. gr. Hún fjallar um, að leggja megi fyrir ríkisprentsmiðjuna að útvega og útbýta á sama hátt og þeim bókum, sem rætt hefir verið um, öðrum skólanauðsynjum, svo sem forskriftabókum, vinnubókum, ritföngum o. s. frv., ef fé er fyrir hendi til þess.

Ég tel ekki þörf að ræða meira einstakar gr. brtt. Þetta er aðalkjarni þeirra, sem ég hefi nú lýst. Ég vil aðeins benda á það, að ef hnigið væri að því ráði að hækka skólabókagjaldið, þá er sennilegt, að afla mætti allra þeirra kennslubóka, sem notaðar eru í barnaskólum, gagnfræðaskólum og menntaskólum, eða m. ö. o. öllum almennum skólum upp að æðsta skóla þjóðarinnar, háskólanum, fyrir 10 kr. gjald á heimili. Sú leið er ekki farin í frv., þó aðeins sé bent á hana. Það mætti segja, að þá væru lagðar kvaðir á heimili, sem engin börn eiga í þessum skólum, en í frv. er gert ráð fyrir, að þau heimili greiði skólabókagjald, sem eiga börn á skólaskyldualdri, en önnur ekki. Ég hefði þó fyrir mitt leyti að ýmsu leyti getað fallizt á, að barnlausu heimilin greiddu gjaldið líka og styrktu þannig barnaheimilin.

Það er rétt að geta þess, að samkv. þessum till. er heimilt fyrir einstaklinga að hafa frammi til sölu kennslubækur í þeim fræðum, sem kennd eru í barnaskólum. Ef foreldrar og kennarar kynnu að vilja nota aðrar bækur heldur en úthlutað er, þá er ekki af neinum tekinn rétturinn til þess að bjóða þær fram.

Ég hefi orðið var við það síðan farið var að ræða um þessar till., að þær vekja almennan fögnuð á meðal almennings. Ég hefi náttúrlega fyrst og fremst kynni af fólki hér í Reykjavík, en ég hefi þó líka átt kost á að tala við fólk utan af landi, og ég hefi ekki orðið var við annað en þessi hugmynd hafi vakið almennan fögnuð. Mönnum finnst, að hér muni vera fundin heppileg leið til þess að létta undir með barnafólki. Vænti ég því, að málið geti gengið fram þegar á þessu þingi, þar sem það liggur mjög ljóst fyrir.

Ég hefi lauslega bent á, hvað það er afskaplega þung byrði fyrir barnmörg heimili að afla þeirra bóka, sem heimtað er, að börnin noti. Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að fara út í þá stóru ágalla, sem ég veit, að eru á skólabókaskyldunni, eins og t. d. hin tíðu bókaskipti, sem yfirleitt eru heimtuð. Maður gæti búizt við, að þegar búið væri að kaupa bækur handa einu barninu, þá gæti það næsta tekið við þeim. En, nei — takk! Þá eru komnar nýjar bækur eftir nýja höfunda. Þetta gerir barnmörgum heimilum erfiðara fyrir heldur en þyrfti að vera.

Það er rétt að athuga þegar, hvaða menn það eru í þjóðfélaginu, sem hugsanlegt er, að gætu haft óhag af því fyrirkomulagi, sem hér er stungið upp á. Ég sé ekki, að þar geti verið nema um eina stétt að ræða, og það eru bóksalarnir. Það er eina stéttin, sem ég get séð, að missi nokkurs í við það, að þetta fyrirkomulag væri tekið upp. En ég verð að segja það, með allri virðingu fyrir þeirri ágætu stétt, að ef hennar tilvera byggist á því að þurfa að taka svo og svo mikið í sölulaun af þeim bókum, sem fátækum börnum er lögboðið að nota, ef þeir geta ekki verið án þeirra tekna, þá verður að finna einhverja aðra lausn á því að útdeila bókum í voru landi. Sá skattur, sem þannig er tekinn af almenningi, er ranglátur, og það er sjálfsagt fyrir þjóðfélagið að gera allt, sem það getur, til þess að létta honum af. Við lifum á öld mennta og menningar, þegar öllum er gert að skyldu að nema, svo að segja frá því að þeir geta skilið, hvað stafróf er og fram á fullorðins ár. Þetta er á vorum tímum álitið óhjákvæmilegt til þess að ala upp nýta þjóðfélagsborgara. En þá megum við ekki heldur gera nemendunum svo þröngt fyrir dyrum, að þeir geti ekki notið þeirrar menntunar, sem fram er boðin, m. a. með því að gera þeim næstum ókleift að afla sér þeirra kennslubóka, sem nauðsynlegar eru við námið.

Þá ætla ég aðeins að minnast á, hvaða meðferð ég tel æskilegast, að þetta mál fái. Mér er ekki kunnugt um, að hv. menntmn. hefi tekið brtt. til athugunar. Og af því að hér er allmikið mál á ferðinni, teldi ég rétt, að þessari umr. væri frestað og hv. menntmn. gefinn kostur á að taka það til gaumgæfilegrar meðferðar. En ég vil eindregið óska þess, að hv. n. taki málið mjög fljótlega fyrir, til þess að það þurfi ekki að daga upp á þessu þingi. Veit ég, að á bak við þessi orð mín standa fjöldamargir í þessu landi, sem vænta, að þetta mál verði nú leyst að fullu.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð fyrir þessum till., nema sérstakt tilefni gefist til.