12.12.1935
Efri deild: 93. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (3386)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Þetta frv. var upphaflega flutt af stj. á fyrri hluta þingsins, og hafði menntmn. þá gert við það lítilfjörlegar brtt., en minni hl. vildi þá fella það. Síðan hefir þetta langa sumarfrí komið, og eftir að komið var langt fram á þing, komu tveir hv. þm. úr Alþfl. með mjög viðtækar brtt, sem í raun og veru voru fullkomin endursköpun á frv. Það var þess vegna óhugsandi fyrir n. annað en að gera annaðhvort, halda við fyrri ákvörðun og fella allar nýju till., eða þá að taka nýju till. upp og byggja aðallega á þeim, en gera ráð fyrir, að gamla frv. væri þá úr sögunni.

Nú hefir n. athugað þetta mál, og ég fullyrði, að það var minni munur á skoðunum nm. um fyrra frv., þannig, að minni hl., sem stóð ekki að þessum till. og var óánægður með a. m. k. verulegan part af frv., virtist þó standa nær aðalkjarna þessara till. en frv. áður. Meiri hl. n. hefir séð, að ef það átti yfirleitt enn að taka á þessu frv., þá var rétt að taka brtt. og byggja á þeim, en hefir gert nokkrar minni háttar brtt. við þær. Það er ein prentvilla í brtt. Þar stendur „útgefendum“, en á að vera: útgefanda. — Er þar átt við ríkið. Mun það verða leiðrétt í meðferð skrifstofunnar.

Ég ætla þá að gera grein fyrir, eins stuttlega og ég get, hverjar aðalbreyt. eru frá upphaflega frv. Þar er gert ráð fyrir því, að ríkið byrji á að gefa út kennslubækur eins og hver annar útgefandi, og taki það fyrir hægt og hægt, og sé lögð fram árlega úr ríkissjóði nokkur fjárhæð, og smátt og smátt yrði þetta sjálfstætt fyrirtæki, sem stæði undir sér sjálft. En eins og það er í þessum nýju till., þá er það í raun og veru til að tryggja þeim bækur, er eiga börn í barnaskólum, og gert ráð fyrir, að það nái einnig til unglingaskóla og hugsanlegt, að það nái líka til sérskóla að meira eða minna leyti, en það er atriði, sem liggur í framtíðinni, og fer ég því ekki út í það nú. En það, sem frv. gefur beinlínis tilefni til, er, að það er byrjun á að fullnægja þörf kennslubóka í barnaskólum og unglingaskólum að nokkru leyti.

Með þessum till. er gert ráð fyrir því, að það muni taka 3 ár með þessu 5 kr. gjaldi á hvert heimili, þar sem skólaskyld börn eru, að fá nægilegt fé til að koma upp þessu kennslubókaforlagi fyrir heimilin. Þessi mikla verðlækkun, sem á bókunum á að verða, byggist á því, að samkv. þessu skipulagi verður meira gefið út af hverri bók og mikill kostnaður sparast við sölulaun og þess háttar, þar sem þessum bókum mundi verða útbýtt í barnaskólunum, en foreldrar borga bókagjaldið til ríkisins.

Nú þótti mér það í sjálfu sér æskilegast, þó að farið væri inn á þessa leið, að gert hefði verið ráð fyrir því, að þetta gæti staðið undir sér sjálft, þannig, að ekki yrði gefið meira út á hverju ári en hægt væri fyrir þennan skatt. En á því er sá annmarki, að þá gæti farið svo fyrst, að foreldrar, sem borguðu þennan skatt, fengju ekki þær bækur, sem gefnar væru út, en yrðu að kaupa þær sérstaklega. Ég gekk því inn á aðra leið, en hún er sú, að hækka þennan skatt upp í 8 kr. En svo framarlega sem útreikningur hv. flm. er réttur, ætti þetta hærra gjald ekki að þurfa að vera nema tvö ár, og það gera heldur betur en 3 ár gerðu áður, en annars er það ekki stórt atriði, því að jafnvel þó að bækurnar héldust í 8 kr. á ári, þá væri samt um mikinn sparnað að ræða fyrir foreldrana, en ég vil þó gera ráð fyrir, að eftir 2 ár yrði hægt að færa gjaldið niður í 5 kr.

Eins og gengið er frá þessu frv., þá er gert ráð fyrir því, t. d. ef það næði fram að ganga nú, að þá mundi verða að gefa út nokkuð af bókum á þessu ári, en aðallega mundi þetta fyrirtæki verða að kaupa bækur, sem nú eru til, og mundi sjálfsagt þykja sanngjarnt að kaupa eins mikið og væri hægt af þeim bókum, sem nú eru til, til þess að gera bókaútgefendum þær ekki ónýtar. Má segja, að hagsmunir bókaútgefenda séu ekki vel tryggðir í þessu efni, en í 5. brtt. felst þó lítilsháttar bót frá n., þar sem það er lagt til, að ekki skuli vera farið eftir kostnaðarverði bókanna eins og það yrði í ríkisprentsmiðjunni, heldur mundi verða farið eftir því, þegar þær yrðu keyptar, hvað þær hafa kostað. Þetta er ekki stórt atriði, og það má auðvitað halda því fram, að það sé hægt að fara hér ósanngjarnlega að þeim, sem hafa gefið út þessar bækur, en ég vona, að ekki sé ástæða til að vantreysta því, að þetta verði framkvæmt á sanngjarnan hátt.

Ég hefi þá gert grein fyrir þeirri fjárhagslegu hlið málsins. Ég vil svo bæta því við, að eins og þetta hefir legið fyrir okkur í n., þá hlýtur það að verða þannig, að ríkið mundi þurfa, ef þetta næði fram að ganga, að leyfa þessu fyrirtæki að taka lán, sem svarar til eins árs tekna, þ. e. a. s. að ef ætti að vera hægt að láta foreldra barnanna fá bækur undir þessu fyrirkomulagi næsta haust, þá þyrfti að taka lán eitt ár, það sem kæmi inn á árinu 1937. Í stuttu máli, það er gert ráð fyrir, að fyrirtækið sjálft mundi taka lán, en það þyrfti ekki að vera mikið, því að það þyrfti ekki að kaupa af eldri forlögum allt, heldur aðeins það, sem þyrfti til ársins. En eftir þessum útreikningi má gera ráð fyrir, að tvö fyrstu árin yrðu nægileg til að koma þessu af stað, svo að ríkið þyrfti ekki að taka lán eða standa í skuld fyrir það.

Eina breyt. viðvíkjandi útgáfunni er það, að útgáfustjórnin er sú, sem tekin er fram í 2. gr. í brtt. okkar meiri hl. hefir verið gert ráð fyrir því, að þingflokkarnir skuli tilnefna sinn manninn hver, og svo væri forstjóri Gutenbergs fastur maður í n. En að nokkru leyti með tilliti til þess, að slíkar samsettar framkvæmdarstjórnir hafa ekki alltaf gefizt sem bezt — ég vil að vísu ekki fara út í það, en það eru dæmi í okkar sögu í þá átt, — og ennfremur af því, að þetta mætti mikilli mótspyrnu frá barnakennurum, fyrir það, að þeir hefðu misst þar sinn mann, sem upprunalega var talinn með, þá var hugsað til að breyta þessu svo, að barnakennarar fengju sinn mann inn þarna.

Þetta bókaútgáfukerfi hlýtur fljótt að ná til ungmennaskólanna í landinu. En þeir eru mjög fjölmennir og eru smám saman að taka við vissum þáttum af barnafræðslunni. Ég hugsa, að það séu ekki færri en 1600 nemendur samtals í öllum ungmennaskólum landsins, héraðsskólum og gagnfræðaskólum. Þess vegna töldum við rétt, að ef barnaskólarnir ættu að hafa mann í útgáfustjórninni, þá yrðu unglingaskólarnir líka að hafa þar mann. Okkur fannst ekki ástæða til, að forstjóri ríkisprentsmiðjunnar Gutenbergs væri form. útgáfustj. frekar en fræðslumálastjórinn. Þeir eru báðir ákaflega nákomnir þessum fyrirhuguðu framkvæmdum, og yrðu þar samningsaðilar hvor á sinn hátt. Þess vegna hefir menntmn. gert það að till. sinni, að í útgáfustj. ættu sæti 2 fulltrúar fyrir þá, sem eiga að nota bækurnar, og að ríkisstj. skipi 3. manninn, sem yrði formaður. Ég get látið það í ljós, án þess að nokkuð sé sveigt að þeim framkvæmdarstjóra, er ég áður nefndi, að ég tel ekki heppilegt að skipa menn samkv. stöðu sinni í nefndir eins og þessa; það mun réttara, að þeir komi ekki inn í slíka nefnd í embættisnafni, heldur einungis með fullum vilja og einlægum ásetningi til þess að vinna saman. Þetta hefir reynslan kennt okkur, sem störfum í menntamálaráðinu.

Svo er það ein röksemd enn, sem ég vildi bæta við. Það eru talsvert miklar líkur til, að breytt verði um skipulag á barnafræðslunni í landinu, jafnvel á næsta ári. Við, sem störfum í fjvn., höfum á prjónunum bráðabirgðatillögur, sem gætu orðið grundvöllur undir áframhaldi í sömu átt síðar. Við gerum ráð fyrir, að farkennurum verði fækkað í dreifbýlinu. Í ýmsum fræðsluhéruðum hafa þeir ekkert verkefni, en sitja máske yfir því allan veturinn að kenna 7—10 börnum. Þessi till. okkar verður sennilega rædd hér í þd. á morgun. Við gerum ráð fyrir að sameina fræðsluhéruð, og að barnakennarar verði ekki fleiri en það, að þeir geti haft fullkomið verkefni. Till. gengur út á það, að fækka kennurum, auka störf þeirra, en bæta launakjörin, og ennfremur að fá börnin til þess að lesa sem mest sjálfstætt og af eigin áhuga. Það eru ýms þekkingaratriði, sem nú er ranglega krafizt af börnum á skólaskyldualdri að þau leysi úr í barnaskólunum. Slík atriði eiga aftur á móti að koma til greina í unglingaskólunum.

Það þarf náttúrlega mikla góðvild til þess að koma þessu frv. ásamt brtt. í gegnum þingið, þar sem orðið er svo áliðið þingtímann. Það hefir orðið óheppilegur dráttur á afgreiðslu þess frá menntmn., og stafar það m. a. af önnum mínum í fjvn., og einnig af því, að mig hafði rangminnt um það, hvað frv. þetta, um ríkisútgáfu skólabóka, væri langt komið í þinginu. Ég hélt það væri búið að ganga í gegnum Nd. og ætti aðeins eftir tvær umr. hér í d. og eina í Nd. á eftir, en það á alveg eftir allar umr. í Nd. En ég treysti því nú, að þessi hv. d. geri málinu greið skil. Mun ég svo ekki tefja umr. meira, nema sérstakt tilefni gefist til.