12.12.1935
Efri deild: 93. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (3388)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Frsm. minni hl. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég þarf ekki að tala langt mál. Þegar þetta frv. var á sínum tíma til meðferðar í menntmn., þá lét ég lítillega í ljós skoðun mína á því með dagskrártill., sem ég lagði hér fram í d. á þskj. 176. En ég skal játa, að málið horfir nú talsvert öðruvísi við, þar sem segja má, að nú liggi frv. fyrir í nýrri mynd, fyrir þær víðtæku brtt., sem við það hafa verið gerðar.

Ég hafði þá skoðun áður — og hún er í raun og veru enn sú sama —, að ég kann illa við, að ríkisvaldið sé að skipta sér af útgáfu skólabóka. Mér finnst, að við slíka meðferð á málinu hljóti það að verða pólitískt litað. Þetta er einungis mín skoðun. En þrátt fyrir það er ýmislegt í þessum brtt., sem getur verið nógu gott að gera tilraunir með. Við vitum það öll, að kaup á námsbókum eru stór útgjaldaliður fyrir skólabörnin og heimilin. Og þar sem hér er boðið upp á ódýrari skólabækur, þá lít ég svo á, að það sé þess vert að taka til athugunar og reyna þessa leið, þó að það hefði vitanlega verið miklu æskilegra, að einhver annar en ríkisstj. hefði útgáfu bókanna á valdi sínu. Ég get fylgt þessum till. að svo miklu leyti sem þær snerta aðeins námsbækur barna. En brtt. hv. meiri hl. menntmn. ganga þar nokkru lengra, og þeim get ég ekki fylgt.

Það er náttúrlega mjög æskilegt að geta fengið sem ódýrastar námsbækur fyrir sem flesta í landinu. En meðan ekki er fengin nein reynsla fyrir því, hvernig takast muni um þennan fyrsta lið, útgáfu barnanámsbóka, þá er ekki vert að ganga lengra. Ef það gengur vel, þá er hægara að bæta við síðar, og sjálfsagt að gera það. Þetta er mín afstaða til málsins. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, og tek dagskrártill. mína aftur til 3. umr.