21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

1. mál, fjárlög 1936

Frsm. 1. kafla (Jónas Guðmundsson):

Það er hvorki langt né merkilegt, sem ég hefi að segja að þessu sinni. Ég vil þó segja það um allar brtt., sem fram hafa komið frá einstökum þm., að n. hefir ekki sem slík tekið afstöðu til þeirra. þm. hafa því óbundnar hendur um þessar till., og það verður að fara um þær eins og þingheimur vill vera láta.

En það, sem ég vildi helzt víkja að, eru nokkur atriði í ræðu hv. 1. þm. Skagf., sem hann flutti hér fyrir stuttu sem frsm. minni hl. fjvn. Að vísu hefir form. n., hv. þm. S.-Þ., tekið mörg þeirra atriða til athugunar, svo ég tei ekki ástæðu til að minnast á nema fáein. — Hann minntist fyrst á samvinnu þá, sem verið hefði í n., og taldi hana góða. Ég er honum alveg sammála um það, að ólíkt skárra samkomulag hafi verið nú í n. heldur en í fyrra, enda bera fjárl. þess vott, og sérstaklega umr. andstæðinga stjórnarliðsins. En hv. þm. minntist á það, að þessi stefna, sem stjórnarflokkarnir hefðu fylgt, leiddi að algerðu hruni og að þeir „flytu sofandi að feigðarósi“. Það hefði verið meiningin að spara á fjárl., en svo þegar búið hefði verið að færa þau niður um 1 millj., þá hefði aftur verið rokið til að hækka þau. En þetta er dálítið villandi hjá hv. þm. Það var sem sé þannig, að þó ekkert nýtt væri tekið inn í fjárl., þá bar samt fulla nauðsyn til þess að lækka útgjöldin um 1 millj. kr., ef ekki ætti að verða fyrirsjáanlegur tekjuhalli á ríkisbúskapnum. gangandi út frá því, að svipaðar tekjur yrðu á árinu 1936 eins og á árinu 1935. Þess vegna var þessi niðurskurður gerður. Svo var hitt annað mál, hvort heppilegt væri nú á þessum tímum að ráðast í að setja löggjöf um alþýðutryggingar og nýbýli og annað slíkt, sem hefði í fór með sé aukin útgjöld upp á fleiri hundruð þús. kr. — Um benzínskattinn, sem líklega er sérstakur liður í ollu þessu og mikið er búið að ræða um, er það að segja, að hann er fyrst og fremst settur til þess að geta aukið atvinnu á þeim tíma, þegar atvinnureksturinn dregst saman hjá einstaklingunum, bæði fyrir utan að komandi áhrif og eins fyrir það, að þegar erfiðir tímar eru um sölu á afurðum, þá dregur ósjálfrátt úr öllum atvinnurekstri. Atvinnurekendur draga saman seglin til þess að forða sjálfum sér frá tjóni, og verður ekkert við því sagt. Hin hliðin er sú, að bættir vegir á þeim slóðum, og sem bifreiðaumferðin er mest, er beinlínis gróði fyrir þá, sem bifreiðar eiga. Þessi skattur er því í rauninni einskonar utanveltuskattur á fjárl., kemur að vísu inn sem tekjur, en gengur út upp í gjöld ákveðinna framkvæmda, sem hafa þetta tvennt sem hlutverk. Ég skal ekki segja, hvort hv. 1. þm. Skagf. telur það að „fljóta sofandi að feigðarósi“ að gera þær tilraunir, sem hægt er að gera til að auka atvinnu fólksins, en það er í raun og veru ekkert annað, sem verið er að gera með þeim útgjaldahækkunum, sem gerðar eru á fjárlfrv., en að auka atvinnuna annarsvegar og tryggja fólkið hinsvegar. Allar hækkanir n. ganga út á þetta, og það má vel vera, að það sé að „fljóta sofandi að feigðarósi“ að fylgja þessari stefnu, sem hv. 1. þm. Skagf. segir, að leiði að hruni. En hvorki ég eða meiri hl. n. hefir getað fallizt á, að þetta sé röng stefna. Þetta er sú stefna, sem þessir flokkar hafa fylgt frá því þeir tóku við völdum, og hún kemur skýrast fram í þessum till.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að ef við ættum eftir að vera nokkur ár saman. þá mundu allir vera komnir á sama mál, og færði þar til, að í fyrra hefðu þeir viljað draga úr strandferðastyrknum. Ég get sagt það sama; ég hefi ekki orðið var við neinn sérstakan mótþróa hjá n.-mönnum minni hl. við þær till., sem við höfum komið inn í fjárl. um tryggingar og aukna atvinnu af hálfu ríkisins. En þetta er stefnumál þeirra flokka, sem nú standa að stj., og mér finnst það ákaflega gleðilegar framfarir hjá sjálfstæðismönnum að fallast nú á þetta. (MG: Höfum við fallizt á þetta?). Já, með því að gera ekki neinn ágreining. Hitt hafa þeir sagt, að það gæti orkað tvímælis, hvort ráðlegt væri að byrja á þessum framkvæmdum á þeim tímum sem nú eru. Ég hefi a. m. k. ekki skilið þá svo, að þeir væru á móti því, að teknar væru inn í fjárl. stórar fjárhæðir til alþýðutrygginga. Þeir hafa bara haldið fram, að það væri óheppilegt að gera það á þessum tíma. Þetta hefir komið fram í umr. í fjvn., í umr. í Nd. og jafnvel í umr. hér í Sþ.

Hv. 1. Þm. Skagf. minntist á áfengistekjurnar og hækkunartill. n. við þann lið. Það er gert ráð fyrir að hakka verðið á áfengi, og stafar hækkunartill. fyrst og fremst af því.

Þá skal ég minnast á nokkrar af till. hv. þm. En ég vil taka það fram, að ég tala ekki um þær í nafni n., heldur aðeins sem þm.; þó geri ég ráð fyrir, að skoðanir meiri hl. n. séu svipaðar mínum.

Það hafa komið fram á tveimur þskj. till. um að bæta nokkrum mönnum í Ólafsfirði bátatjón. Það væri ákaflega æskilegt, að hægt væri að bæta slík tjón, en ef fara á út á þá braut að bæta yfirleitt tjón einstakra manna af völdum náttúrunnar, þá getum við fengið inn í fjárlögin allóþægilegan lið. Það er ekki lengra síðan en í haust, að 10 bátar brotnuðu og sukku á Norðfirði, og voru sumir óvátryggðir. Ég hefi eigi leyft mér að fara fram á, að þetta væri hætt. Mér er og kunnugt um, að á sveitabæjum hér í Borgarfirði hrynur svo niður bústofn bænda, að nú eru orðnir nær félausir menn, sem áttu fleiri hundruð fjár. Væri minni ástæða til að bæta þeim tjónið heldur en þessum mönnum í Ólafsfirði? Þannig mætti lengi telja, og ef fara ætti inn á þessa braut, mundi oft illt að gera upp á milli manna. Ég veit, að hv. þm. munu svara, að hér hafi átt sér stað sérstakt tjón vegna þess að ekki hafi verið búið að koma í lag vátryggingu. En fyrir öllu svona er hægt að færa einhverjar sérstakar ástæður; hvort þær eru meiri í einu tilfelli en öðru er ekki svo gott að dæma um, þó ég viðurkenni þörfina á að hjálpa þessum mönnum, vil ég samt ekki fallast á að fara inn á þessa braut, því það væri þá eftir að bæta margan skaðann.

Þá minntist hv. þm. á kjötuppbótina og meðferð þess máls í fjvn. Ég skal ekki fara langt út í það efni, en það er náttúrlega með þetta eins og hvert annað mál, sem fær heldur ógreinilega afgreiðslu í n., að það má segja á eftir, að það hafi verið svona og svona með það farið. En hin raunverulega niðurstaða um kjötuppbótina var sú, a. m. k. að því er Alþfl. snertir og ég held Framsfl. líka, að fyrst verði að sjá, hrað mikils þarf við til þess að bæta upp kjötið, og taka svo ákvörðun um, eins og gert var á síðastl. ári, hvort ekki eru aðrir liðir í fjárl., sem mætti taka þetta af, og bæta svo þar við, ef á þarf að halda.

Um atvinnubótaféð hefir hæstv. atvmrh. talað, en út af brtt., sem fram eru bornar við þann lið, vil ég segja þetta: Atvinnubótaféð er hugsað og beinlínis ákveðið af þinginu til þess að vera einskonar varasjóður, sem stj. geti á hverjum tíma úthlutað til hjálpar þeim byggðarlögum, þar sem atvinnan bregzt. Ef nú á að fara inn á þá braut, að þingið ákveði, hvert þetta fé skuli veitt, þá getur farið svo, að ekkert fé verði fyrir hendi til að veita þangað, sem þörfin er mest í hvert skipti. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að utan Suðurlandsundirlendisins, Faxaflóa og Vestmannaeyja hefir atvinnuleysið síðasta ár verið þannig, að til vandræða horfir og hallæris í mörgum sjávarplássum, og jafnvel sveitum. Ef binda á ríkisstj. með ákvæðum um að verja þessu fé til eins eða annars, getur farið svo, að ekkert verði eftir til þess að hjálpa þessum sveitarfélögum. Nú leggur minni hl. fjvn. til að lækka atvinnubótaféð niður í 300 þús. kr. við skulum segja, að það yrði samþ. Fulltrúi bændaflokksins leggur til, að ef ekkert fé verði ákvarðað í fjárl. sérstaklega til kjötuppbótar, þá skuli taka 150 þús. kr. af atvinnubótafénu til þess að bæta með kjötverðið til bænda. Hv. 11. landsk. leggur til, að 150 þús. verði teknar af atvinnubótafénu til Hellisheiðarvegar, sem áður er gert ráð fyrir, að fái 60 þús. kr. Þá er ekki einn einasti eyrir eftir til þess hlutverks, sem þessu fé er ætlað að inna af hendi. Þess vegna má ekki samþ. svona till. Það, sem fyrir mér vakir, er það, að ekki megi lækka atvinnubótaféð vegna þess, að það er eina framlagið, sem ríkisstj. getur gripið til og hjálpað með þeim bæjum og sveitarfélögum, þar sem brýnust nauðsyn kemur fram. Þó vegna annara aðgerða þingsins og aðgerða Reykjavíkurbæjar megi búast við meiri atvinnu heldur en að undanförnu hér í grenndinni, þar sem Sogsvirkjunin stendur sem hæst á næsta ári og gert er ráð fyrir að láta vinna fyrir mestan hluta benzínskattsins í nágrenni Reykjavíkur, þá er nauðsyn annara bæjar- og sveitarfélaga úti um landið ennþá meiri í þessu efni heldur en nokkru sinni fyrr. Ég vil því ekki, að þetta fé sé á neinn hátt skert; enda væri alveg horfið frá því, sem á að vera tilgangur þessa framlags, sem sé að geta greitt fyrir bæjar- og sveitarfélögum, sem fyrir mestum atvinnubresti verða af ýmsum ástæðum, ef brtt. eru samþ.

Um vegatill. get ég verið fáorður; ég geri ráð fyrir, að fjvn. sé á móti þeim öllum, a. m. k. meiri hl. Vegafénu var með góðu samkomulagi skipt í n. þannig, að tillit var tekið til hvers héraðs. Þó svo virðist, að Vestur-Skaftafellssýsla fái hér einna minnst fé, þá hefir á undanförnum árum verið varið þangað geysimiklu fé, á síðasta ári t. d. hvorki meira né minna en 40 þús. kr. Það hefir verið talað hér um, að í Síðuveg þurfi 1000 kr. á ári til þess að halda honum færum eins og öðrum þjóðvegum, en ekki mundi þurfa nema 6 þús. kr., eða 3 þús. meira en lagt er til í frv., til þess að fullgera hann svo hann verði góður. Ég verð að segja, að ef þessum 1000 kr. væri bætt við þær 3000 kr., sem veittar eru til þessa vegar samkv. frv., þá hefir vegamálastjóri oft leyft sér annað eins, þó hann tæki 2000 kr. til viðbótar af viðgerðafénu til þess að geta klárað veginn. Ég get ekki séð annað en það væri skynsamlegt, og hann mun hafa svo frjálsar hendur um meðferð viðhaldsfjársins, eins og skýrsla hans ber með sér, að það getur farið upp í 70 þús. í einni sýslu, þó þangað séu ekki áætlaðar nema 30 þús. kr.

Ég skal svo láta máli mínu lokið. mér fannst betur viðeigandi að segja eitthvað um þessar till. og vona, að það verði ekki til þess að umr. lengist mikið. En fjvn. hefir raunar ekki sem slík tekið afstöðu til neinna af till. einstakra þm., og býst ég því við, að einstakir nm. telji sig óbundna við atkvgr.