21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (3438)

28. mál, námskeið fyrir atvinnulausa unglinga

Frsm. 1. minni hl. (Bjarni Bjarnason):

Ég vildi aðeins geta þess, að ég er ekki á nokkurn hitt mótfallinn því, að sem allra flestir njóti skólamenntunar. En ef um það væri að ræða, að allir unglingar í aldrinum til dæmis 14-24 ára sæki skóla - því að miklu færri fara í skóla eftir 24 ára aldur -, þá er það vitanlega nýtt mál. Og þó að hér sé talað um skóla fyrir atvinnuleysingja, þá er sannarlega ekki minni þörf í að hugsa fyrir öðrum efnalitlum unglingum, þótt þeir að nafninu til séu ekki alveg atvinnulausir þá tíma ársins, sem helzt er hægt að sækja skóla.

Þá er mér ennfremur ljóst, að þótt hugsað sé til að halda skóla í kauptúni eða kaupstað fyrir atvinnulitla eða atvinnulausa unglinga, þá verður það fjöldinn allur af þeim einstaklingum, sem ekki munu sækja þessa skóla eða námskeið stöðugt, nema fast sé um hnúta búið, bæði hvað snertir húsnæði og daglegan tíma og námsgreinar, sem á að nema. Ég þekki vel, að ef ekki eru fastar skorður í þessu sambandi, verður allt svo losaralegt, að ég legg ekki mikið upp úr slíkri skólastarfsemi.

Hinsvegar, ef efni væru til, þá skyldi ég vera fús til að styðja að því, að fleiri skólahús yrðu byggð og rækilegt skólahald fyrir allan fjölda unglinga á þessu aldursskeiði. En ef bæirnir sjá alveg sérstaka ástæðu til að halda námskeið og stutta skóla fyrir atvinnulausa unglinga innan sinna vébanda, þá finnst mér sjálfsagt, að bæirnir sjái fyrir því sjálfir.

Þeir, sem í sveitum búa, eiga við það að stríða, að þegar fólkið er komið til nokkurs þroska og orðið vinnufært, leiti það burt til þess að afla sér lífsframdráttar í bæjunum. Og það er alveg nógur skattur í sveitirnar, þótt ekki sé þá tryggt, að ríkissjóður leggi fram fé til þess að sjá öllu því fólki fyrir skólum, sem þó ekki treystir sér til að sækja þá skóla, sem með l. eru þegar styrktir af ríkinu.

Þá er líka um meiri kostnað að ræða en hér er gert ráð fyrir, og það er vegna húsnæðisins. Það er viðurkennt, að allir skólar eru yfirfullir. Og þó að gert sé ráð fyrir l. um fleiri skólabyggingar, þá er eftir að koma þeim upp. Og nú hvíla gagnfræðaskólarnir á öðrum skólum hvað húsnæði snertir. Ef þetta mál, eins og það er í pottinn búið, ætti að ná að verða að nokkru verulegu gagni, þá er fyrirsjáanlegt stórkostlegt húsnæðisleysi. Og ég er algerlega mótfallinn því, að þeir skólar, sem fyrir eru og ætlaðir eru nú þegar ákveðnu starfi, séu notaðir alveg takmarkalaust fyrir alla hugsanlega skóla aðra, sem mönnum dettur í hug að setja á stofn. Og ég vara við þeirri stefnu í kaupstöðum og bæjum, að hlaða svo á þar skólabyggingar, sem fyrir eru, að þar sé skólahald jafnvel fram í harða nótt, þannig að ekki sé hægt að viðhafa sjálfsagt hreinlæti. En ég geri ráð fyrir, að full nauðsyn sé á að gera miklu meiri kröfur um hreinlæti í skólum en almennt er nú gert í landinu, og er þá því fjarstæðara að yfirfylla skólahúsin ennþá meir með nýjum skólum og námskeiðum. Þetta er þó hugsað á þann hátt, að skólarnir, sem fyrir eru, taki inn fyrir sína veggi þá nemendur, sem falla til á þennan hátt. Út af þessu vil ég taka það fram, að ég er því andvígur, að skólahúsin séu yfirfyllt svo, að ekki sé hægt að viðhafa þar nauðsynlegt hreinlæti. Annars tel ég líka, að bæirnir eigi að kosta slíka kennslu sem þessa, en sé gengið inn í þá braut, að veita kaupstöðunum ríkisstyrk til þessara hluta, þá tel ég, að sveitirnar eigi heimtingu á, að þeim sé veittur hliðstæður styrkur. Ég veit ofur vel, að það er full þörf á að bjarga unglingunum frá götunni, sem kallað er, en jafnlosaraleg skólahugmynd sem þessi mun vart megnug þess. Það þarf áreiðanlega meira til þess að halda fólki frá sollinum en að það megi stinga höfðinu inn í skóla svolítinn tíma, ef það vill. Að öðru leyti hefi ég gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls í nál. mínu í þskj. 156, og læt þessi orð því nægja.